Nýr samningur við Neytendasamtökin um aðstoð við leigjendur
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna undirrituðu í dag nýjan þjónustusamning um aðstoð samtakanna við leigjendur íbúðarhúsnæðis sem felur í sér upplýsingagjöf um réttindi og skyldur og ráðgjöf í ágreiningsmálum. Samningurinn gildir til ársloka 2013.
Frá því að Leigjendasamtökin hættu starfsemi sinni hafa Neytendasamtökin í vaxandi mæli sinnt aðstoð við leigjendur og svarað fyrirspurnum um leigumál. Þörf fyrir skipulega þjónustu af þessu tagi er mikil og þess vegna gerðu velferðarráðuneytið og Neytendasamtökin með sér formlegan þjónustusamning í maí í fyrra um að samtökin önnuðust þessa þjónustu. Samningurinn var til eins árs en hefur nú verið endurnýjaður, enda hefur reynslan sýnt að mikil eftirspurn er meðal leigjenda íbúðarhúsnæðis eftir upplýsingum og ráðgjöf á þessu sviði.
Frá því að samningur um leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna var gerður í maí í fyrra og til loka árs 2011 bárust samtökunum um 820 erindi frá leigjendum íbúðarhúsnæðis og það sem af er þessu ári eru þau orðin rúmlega 800. Hildigunnur Hafsteinsdóttir lögfræðingur sem hefur yfirumsjón með leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna segir að flest erindanna snúist um ástand og viðhald húsnæðis og fyrirspurnir um rétt leigjenda til úrbóta ef því er áfátt. Eins varði mörg erindanna uppgjör tryggingafjár eftir að leigutíma lýkur og loks fyrirspurnir sem varða uppsögn leigusamnings og réttarstöðu leigjenda, hvort sem um er að ræða uppsögn leigjandans sjálfs eða leigusala.
Í samræmi við þjónustusamning ráðuneytisins og Neytendasamtakanna sem gerður var í fyrra opnuðu samtökin sérstaka vefsíðu með margvíslegum upplýsingum fyrir leigjendur. Hildigunnur segir að síðan hafi verið mikið sótt allt frá opnun hennar, enda séu þar aðgengilegar greinargóðar upplýsingar um flest þau mál sem snúa að réttindum og skyldum leigjenda.
- Sjá vefsíðuna www.leigjendur.is