Frumvarp um greiðslur til líffæragjafa
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um réttindi fólks til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar verði það óvinnufært eða ófært um að stunda nám í kjölfar líffæragjafar.
Frumvarpið er byggt á tillögum vinnuhóps sem félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra skipuðu til þess að fjalla um stöðu lifandi líffæragjafa. Niðurstaða hans var sú að bæta þurfi réttarstöðu þeirra sem gefa líffæri með því að tryggja þeim tímabundna fjárhagsaðstoð missi þeir tekjur vegna líffæragjafar. Í skýrslu hópsins kom fram að einstaklingar sem hafa lýst sig fúsa til að gefa nýra hafi sumir ekki treyst sér til þess af fjárhagslegum ástæðum, þar sem launamissir vegna fjarvista frá vinnu í kjölfar aðgerðar hefur ekki verið bættur, né heldur kostnaður vegna ferða- og læknisþjónustu.
Nýru eru þau líffæri sem oftast eru grædd í sjúklinga hér á landi og hafa nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum verið framkvæmdar hér á landi frá árinu 2003. Líffæragjafi verður í flestum tilvikum óvinnufær um tíma í tengslum við líffæragjöf. Að jafnaði er fólk orðið vinnufært eftir um sex vikur en þó þykir ástæða til að gera ráð fyrir að óvinnufærni geti varað í allt að þrjá mánuði, enda tilvikin misjöfn.
Samkvæmt frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra verður launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum á innlendum vinnumarkaði með lögheimi hér á landi tryggðar tekjutengdar greiðslur í allt að þrjá mánuði, að settum skilyrðum uppfylltum, í tengslum við líffæragjöf, hafi þeir verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði í hið minnsta sex mánuði fyrir þann tíma. Mánaðarlegar tekjutengdar greiðslur geta samkvæmt frumvarpinu numið að hámarki 535.700 krónum og er það í sama hámark og gert er ráð fyrir í lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Lágmark mánaðarlegra greiðslna verður 134.300 krónur.
Námsmenn sem gefa líffæri og verða sannanlega að gera hlé á námi vegna þess munu einnig öðlast rétt til greiðslna samkvæmt frumvarpinu uppfylli þeir sett skilyrði og er gert er ráð fyrir að mánaðarlegar greiðslur verði 134.300 krónur. Fái námsmaðurinn aðrar greiðslur samtímis, svo sem lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eða greiðslur frá vinnuveitanda munu þær koma til frádráttar.
Auk þeirra réttinda sem líffæragjöfum verða tryggð samkvæmt frumvarpinu hyggst heilbrigðisráðherra gera breytingar á tveimur reglugerðum í því skyni að tryggja að líffæragjafar sem eru sjúkratryggðir hér á landi þurfi hvorki að greiða hlutdeild sjúkratryggðs í heilbrigðisþjónustu né óhjákvæmilegan ferðakostnað.
Samkvæmt frumvarpinu mun félags- og tryggingamálaráðherra ákveða með reglugerð hvaða aðila verður falin framkvæmd laganna.