Hækkun bóta almannatrygginga frá 1. janúar 2017
Fjárhæðir bótaflokka almannatrygginga hækkuðu að jafnaði um 7,5% 1. janúar síðastliðinn. Frá sama tíma urðu breytingar á greiðslum ellilífeyrisþega með lagabreytingu sem fól í sér einföldun bótakerfisins, meðal annars með sameiningu bótaflokka og sveigjanlegri töku lífeyris.
Bætur til öryrkja, bætur vegna félagslegrar aðstoðar, meðlagsgreiðslur, greiðslur til lifandi líffæragjafa og greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna hækkuðu um 7,5% um áramótin.
Framfærsluviðmið öryrkja sem búa einir var hækkað umfram almennar hækkanir, eða um 13,5%, og er nú 280.000 krónur á mánuði. Greiðslur til tekjulausra örorkulífeyrisþega sem eru í sambúð verða 227.883 krónur á mánuði. Með sameiningu bótaflokka ellilífeyrisþega verða heildargreiðslur til tekjulausra ellilífeyrisþega einnig um 280.000 krónur á mánuði sem er 13,5% hækkun frá árinu 2016.
Helstu breytingar sem urðu á lögum um ellilífeyri 1. janúar eru eftirfarandi:
- Grunnlífeyrir, tekjutrygging og lágmarksframfærslutrygging sameinuðust í einn flokk: Ellilífeyri.
- Atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur hafa nú sömu áhrif á fjárhæð lífeyris.
- Frítekjumark á mánuði á heildartekjur er 25.000 krónur.
- Tekjutenging eftir frítekjumark á ellilífeyri er 45%.
- Tekjutenging á heimilisuppbót er 11,9%.
Atvinnuleysistryggingarnar hækkuðu um 7,5% 1. janúar síðastliðinn. Engar breytingar urðu á greiðslum fæðingarorlofs um áramótin, enda höfðu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verið hækkaðar úr 370.000 krónum á mánuði í 500.000 krónur á mánuði síðastliðið haust og komu þær hækkanir til framkvæmda 15. október 2016.
Tryggingastofnun ríkisins hefur birt á vef sínum reiknivél sem reiknar út greiðslur lífeyristrygginga.