Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Dregið úr skerðingum hjá lífeyrisþegum

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, mun á næstunni leggja fyrir ríkisstjórn frumvarp sem miðar að því að draga úr þeim skerðingum sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir frá árinu 2009. Ráðherra kynnti fyrirhugaðar breytingar á ársfundi Tryggingastofnunar í dag.

Eygló sagðist stefna að því að leggja frumvarpið fram á sumarþingi sem hefst í vikunni. Hún vísaði í stjórnarsáttmálann þar sem sérstaklega er nefnd hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og fjármagnstekna og sagðist þar að auki vilja beita sér fyrir því að hætt verði að skerða grunnlífeyri almannatrygginga vegna lífeyrissjóðstekna: „Enn eitt vil ég nefna sem mér finnst mjög mikilvægt að breyta sem fyrst. Árið 2009 var skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkað úr rúmum 38% í 45%. Þetta olli því að greiðslur til langflestra lífeyrisþega lækkuðu umtalsvert. Þessi breyting var gerð með bráðabirgðaákvæði í lögum og að óbreyttu rennur það út um næstu áramót. Ég tel hins vegar að við þurfum að gera betur“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, í ávarpi sínu á ársfundinum. 

Ráðherra gerði mikla atvinnuþátttöku hér á landi að umtalsefni sem hefði skapað Íslendingum sérstöðu meðal þjóða um langt skeið, meðal annars vegna mikillar atvinnuþátttöku kvenna, fólks á efri árum og einnig atvinnuþátttöku fólks með örorku eða langvarandi sjúkdóma sem væri mun hærri hér en gerðist hjá hinum OECD-ríkjunum. Meðal annars vegna þessa væru sterk rök fyrir því að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega eins og stefnt sé að.

Frítekjumark á fjármagnstekjur er líka orðið alltof lágt sagði Eygló í ávarp sínu: „Það verður að tryggja að fólk sem á hóflegan sparnað á bankareikningum fái notið hans án þess að til komi skerðingar á bótum til viðbótar 20% fjármagnstekjuskatti. Þessu er brýnt að breyta. 

Þróun örorku og innleiðing starfsgetumats

Ráðherra ræddi þróun örorku á undanförnum árum og sagði gleðilegt að mikið atvinnuleysi í kjölfar efnahagshrunsins hefði ekki leitt til mikillar fjölgunar í hópi örorkulífeyrisþega líkt og óttast var. Það væri þó nauðsynlegt að vera sívakandi yfir þeirri staðreynd að sterk tengsl eru milli örorku og atvinnuleysis og fylgjast með öllum vísbendingum um breytingar á verri veg: „Því miður eru blikur á lofti. Réttur fólks til atvinnuleysisbóta var lengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur til að mæta erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði. Þessi breyting hefur nú gengið til baka og mér er kunnugt um að þess sjái þegar merki hér hjá Tryggingastofnun þar sem nú séu fleiri farnir að knýja dyra en áður í von um einhverja aðstoð. Við verðum að finna leiðir til að bregðast við þessu og mæta fólki í vanda með viðeigandi lausnum – en meginverkefnið felst auðvitað í því að efla atvinnulífið þannig að störfum fjölgi“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Eygló ræddi einnig innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats sem unnið hefur verið að á liðnum árum og sagði: „Í þessu felst jafnframt ný og mun jákvæðari nálgun en áður þar sem litið er á rétt fólks til þess að nýta starfsorku sína, jafnt í sína þágu og samfélagsins. Ég vil að aukinn kraftur verði settur í þetta verkefni en legg auðvitað áherslu á að það verði unnið í nánu og góðu samstarfi við hagsmunaaðila, þ.e. samtök öryrkja, lífeyrissjóði, aðila vinnumarkaðarins og þá sem skipuleggja, fjármagna og veita endurhæfingu. Takist þetta verkefni vel má binda vonir við að þegar fram líða stundir verði mun fleira fólki unnt að nýta krafta sína á vinnumarkaði – og það er allra hagur.“

Ávarp ráðherra í heild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta