Fjármögnun tryggð vegna byggingar 280 námsmannaíbúða í Vatnsmýrinni
Framkvæmdir geta hafist í haust við uppbyggingu stúdentagarða í Vatnsmýrinni. Ríkisstjórnin samþykkti í dag fjárheimildir fyrir Íbúðalánasjóð sem tryggja fjármögnun framkvæmdanna. Heildarkostnaður er áætlaður um 4 milljarðar króna og mun Íbúðalánasjóður veita lán fyrir 90% kostnaðarins.
Félagsstofnun stúdenta hefur síðustu ár undirbúið þessar framkvæmdir. Áformað er að reisa byggingu með 280 íbúðum fyrir um 320 námsmenn en að jafnaði eru um 350–550 manns á biðlista eftir leiguíbúðum.
Samkvæmt lögum um húsnæðismál og reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, er Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til framkvæmda af þessu tagi á 3,5% vöxtum.
Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur áður samþykkt lánsvilyrði til Félagsstofnunar stúdenta vegna fyrirhugaðra framkvæmda en með fyrirvara um að fjárheimildir Íbúðalánasjóðs væru tryggðar á þeim tíma sem lánin koma til afgreiðslu, að öllu óbreyttu árin 2013 og 2014.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um fjárheimildir til Íbúðalánasjóðs árin 2013 og 2014 vegna áformaðra framkvæmda Félagsstofnunar stúdenta.
Um 300 ársverk meðan á framkvæmdum stendur
Undirbúningur framkvæmdanna er vel á veg kominn og þegar liggur fyrir samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og borgarráðs varðandi lóðaskipulag í Vatnsmýrinni.
Framkvæmdir ættu að geta hafist í haust og er áætlað að þær skapi um 300 ársverk.
Gert er ráð fyrir að fyrri áfanga verksins ljúki í árslok 2013 en að framkvæmdunum í heild ljúki árið 2014.