Birting hæfnismats umsækjenda um embætti umboðsmanns
Faglegt mat og málefnaleg sjónarmið réðu úrslitum þegar afstaða var tekin til hæfni umsækjenda um embætti umboðsmanns skuldara. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og umsækjendurnir tveir sem voru metnir hæfir til að gegna stöðunni hafa orðið ásátt um að birta öll gögn sem byggt var á við úrvinnslu málsins. Þetta eru umsóknir og ferilskrár Ástu S. Helgadóttur og Runólfs Ágústssonar, álit umsagnaraðila sem leitað var til, hæfnismat ráðningarstofunnar STRÁ MRI og skráning upplýsinga sem fram fór í starfsviðtölum við þau. Ekki er vitað til að áður hafi verið birtar tæmandi upplýsingar um forsendur fyrir skipun í opinbert embætti eins og hér er gert.
Eins og fram hefur komið voru Ásta og Runólfur bæði metin vel hæf til að gegna embættinu. Þau atriði sem réðu úrslitum þegar ákveðið var að skipa Runólf koma fram í rökstuðningi ráðuneytisins til Ástu S. Helgadóttur sem birtur var í gær. Í meðfylgjandi gögnum kemur einnig fram niðurstaða sjálfstæðs hæfnismats ráðningarstofunnar þar sem skor Runólfs var 23 stig en Ástu 21 stig.
Við mat á umsækjendum um embætti umboðsmanns skuldara var ekki litið til persónulegra fjárreiðna þeirra og í auglýsingu voru engar skilgreindar kröfur hvað það varðar enda þess ekki krafist í lögum um umboðsmann skuldara.
Ásta S. Helgadóttir var í dag skipuð umboðsmaður skuldara eftir að Runólfur Ágústsson sagði sig frá embættinu. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði við skipun Ástu að hún hefði verið metin mjög vel hæf í nýafstöðnu umsóknarferli: „Ég hef alltaf borið fullt traust til Ástu Sigrúnar og það er óbreytt. Við hlökkum til að vinna með henni að uppbyggingu embættis umboðsmanns skuldara.“
Ásta Sigrún Helgadóttir, nýr umboðsmaður skuldara, hefur störf mánudaginn 9. ágúst.
-
Fylgiskjal - gögn málsins (5. ágúst 2010).