Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2013 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 2. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 2. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 12. nóvember 2013, kl. 12:30-14:30
  • Málsnúmer: VEL13060104
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga), Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna),  Þórný K. Sigmundsdóttir (Samtök leigjenda) ásamt Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
  • Forföll: Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar) Jónína S. Lárusdóttir (Samtök fjármálafyrirtækja) voru fjarverandi.
  • Fundarritarar: Sigrún Jana Finnbogadóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Kynning á skýrslu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs.

Gunnar Tryggvason, formaður starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs, kynnti helstu niðurstöður sem fram koma í skýrslu sem starfshópurinn skilaði í apríl 2013. Unnt er að nálgast skýrsluna á eftirfarandi slóð:

http://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarraduneyti-media/media/Rit_2013/Skyrsla-starfshops-um-framtidarhorfur-og-framtidarhlutverk-Ibudalanasjods_yfirlesin.pdf

Í umræðum um tillögu um stofnun heildsölubanka sem fram kemur í skýrslunni kom meðal annars fram að um yrði að ræða eins konar íslenska útgáfu af „dönsku leiðinni“ sem tæki tillit til smæðar markaðarins á Íslandi. Fram kom að ekki ætti að vera erfitt fyrir minni fjármálafyrirtæki að bjóða sambærileg kjör og þau stærri en í Danmörku væru fjármálafyrirtæki innan hinnar svokölluðu dönsku leiðar misstór en vextir samt sem áður svipaðir. Jafnframt kom fram að í tillögum um heildsölubanka væri gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki sætu uppi með vanskilaáhættu en uppgreiðsluáhættan væri hjá heildsölubankanum. Þá kom fram að mikilvægt væri að einhver óháður aðili yrði á markaðnum en það sættu sig ekki allir við að vera með lánin sín hjá banka (þar sem deilur við útibússtjórann geta sett allt í óefni). Þannig væri unnt að taka heimilið, þ.e. lánveitingar vegna kaupa á íbúðarhúsnæði, alfarið út fyrir sviga í þessum efnum og í kringum það yrði byggt öruggt og farsælt kerfi. Þá var því velt upp hvort stofnun heildsölubanka gæti falið í sér brot á samkeppnislögum. Fram kom að slíkt yrði að kanna nánar en það þætti þó ólíklegt í ljósi þess að í tillögum um heildsölubanka væri gert ráð fyrir að allir sem uppfylli almenn skilyrði til að veita húsnæðislán yrði boðin aðkoma að heildsölubankanum. Jafnframt yrði heildsölubankinn samkvæmt fyrirliggjandi tillögum án hagnaðarkvaðar. Enn fremur kom sú hugmynd fram hvort ástæða væri til að stofna fleiri en einn heildsölubanka. Þá var því velt upp hvort heildsölubankaleiðin fæli í sér auka millilið á milli lántakenda og fjárfesta sem væri til þess fallið að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir lántakendur, þ.e. áhrif á lánskjör.

2. Kynning á Alþýðusambands Íslands á „dönsku leiðinni“.

Næst kynnti Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, „dönsku leiðina“ svokölluðu og notaðist við glærur sem unnt er að nálgast á eftirfarandi vefslóð:

http://www.asi.is/Portaldata/1/Resources/documents/N_tt_kerfi_almennra_h_sn__isl_na_a__danskri_fyrirmynd_(3).pdf

Í umræðum um „dönsku leiðina“ var meðal annars rætt um möguleikann á því að setja löggjöf um innleiðingu „dönsku leiðarinnar“. Þá var rætt um hvort heildsölubankaleiðin fæli í sér eins konar íslenska útgáfu af „dönsku leiðinni“. Bent var á að kanna þurfi nánar hvaða áhættu og ókosti „danska leiðin“ kunni að hafa í för með sér, þar á meðal hvaða áhrif smæð íslensks markaðar kunni að hafa í för með sér.

3. Næsti fundur.

Ákveðið var að næsti fundur teymisins skuli haldinn í velferðarráðuneytinu þann 22. nóvember en á þeim fundi verði farið yfir ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta