Námskeið og próf til réttinda leigumiðlunar
Skráningarfrestur fyrir þá sem vilja sækja námskeið og taka próf í leigumiðlun rennur út 27. ágúst næstkomandi. Samkvæmt húsaleigulögum mega þeir einir reka miðlun um leiguhúsnæði sem lokið hafa slíku prófi og hlotið leyfi félags- og jafnréttismálaráðherra.
Miðlun á leiguhúsnæði getur falið í sér að koma á leigusamningi, annast framleigu eða skipti á leiguhúsnæði. Starfsheiti þeirra sem öðlast hafa þessi réttindi er leigumiðlari.
Prófnefnd leigumiðlara sér um að halda námskeið og próf í leigumiðlun í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Námskeið og próf er haldið samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og reglugerð um leigumiðlun nr. 675/1994. Á námskeiðinu er farið yfir húsaleigulögin, fjöleignarhúsalögin, nýjar reglur um húsnæðisbætur og bókhald, samtals 18 kennslustundir. Haldin eru tvö próf. Hvort próf um sig skiptist í tvo hluta, þ.e. annars vegar próf í húsaleigulögum og fjöleignarhúsalögum og hins vegar próf úr húsnæðisbótum og bókhaldi. Próftaki verður að ná lágmarkseinkunn 5 í hverjum hluta fyrir sig en þó samtals 7 í meðaleinkunn úr öllum hlutunum fjórum.
Ekki eru gerðar sérstakar forkröfur (t.d. um menntun) til þátttakenda á námskeiðinu.
Námskeiðið er einungis haldið, ef nægileg þátttaka næst.
Skráningarfrestur til 27. ágúst næstkomandi.