Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2013 Innviðaráðuneytið

Þurfum sátt og samstöðu um framtíðarskipulag húsnæðiskerfisins

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra segir mikilvægast nú að ná breiðri sátt og samstöðu um skipulag íslensks húsnæðiskerfis til framtíðar. Hún mun á næstunni óska eftir tilnefningum í samvinnuhóp um þessi mál, meðal annars með aðkomu allra þingflokka. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í gær um Rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð.

Eygló hóf umræðuna á Alþingi í gær þar sem fjallað var um skýrsluna. Hún byrjaði á því að þakka þá miklu vinnu sem lægi að baki henni. Hún sagði niðurstöðurnar ekki koma á óvart, þær væru í samræmi við efni þeirrar skýrslu sem Alþingi lét vinna um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna sem birt var í apríl 2010: „Minnumst því hér í upphafi þessarar umræðu hvað Alþingi hefur þegar ályktað á grunni skýrslu um fall íslensku bankanna. Þar sögðum við að skýrslan væri vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og hún yrði að vera okkur að leiðarljósi í framtíðinni. Þar lögðum við áherslu á að taka gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og draga af henni lærdóm.  Þar sögðum við að niðurstöðurnar væru áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Þar sögðum við að eftirlitsstofnanir hefðu brugðist og að við öll yrðum að horfa gagnrýnum augum á eigin verk og nýta tækifærið sem skýrslan gaf til að bæta samfélagið. Allt þetta tel ég að skýrsla um Íbúðalánasjóð staðfesti og ítreki enn frekar.“

Eygló sagði í ræðu sinni að hún muni leggja ríka áherslu á að sem flestir komi að endurskipulagningu íslensks húsnæðiskerfis. Hún vísaði til nýlegrar ályktunar Alþingis um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi þar sem kveðið er á um að í kjölfar rannsóknarinnar á Íbúðalánasjóði fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sjóðsins og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi. Þar er lagt til að skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem skili tillögum sínum í byrjun næsta árs: „Það sem ég tel þó mikilvægast í þessu samhengi er að sem breiðust sátt og samstaða náist um skipulag íslensks húsnæðiskerfis. Ég mun því leggja ríka áherslu á að sem flestir komi að endurskipulagningu húsnæðiskerfisins og mun því á næstunni óska tilnefninga í samvinnuhóp sem mun hafa það hlutverk að vera framangreindri verkefnisstjórn til ráðgjafar. Þar mun ég meðal annars leita eftir tilnefningum frá þingflokkum þeirra flokka sem hér sitja. Vonandi ber okkur gæfu að koma á fyrirkomulagi sem reynist okkur farsælt til framtíðar þannig að hvorki við né komandi kynslóðir eigi eftir að standa í þeim sporum sem við stöndum nú í“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta