Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2013 Innviðaráðuneytið

Staða gengislána, endurútreikninga þeirra og næstu skref

Umboðsmaður skuldara
Umboðsmaður skuldara

Umboðsmaður skuldara telur stöðu gengislánamála óásættanlega varðandi endurútreikning fjármálafyrirtækja á slíkum lánum, eins og fram kemur í samantekt sem hann gerði að beiðni félags- og húsnæðismálaráðherra. Ráðherra kynnti samantektina á fundi ríkisstjórnar í gær og lagði fram tillögur um næstu skref stjórnvalda til að fylgja þessum málum eftir.

Embætti umboðsmanns skuldara var falið ákveðið eftirlitshlutverk með „fyrri endurútreikningum“ á grundvelli laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Heimildin einskorðast við útreikningana sjálfa en ekki önnur álitaefni sem tengjast lögunum. Enn fremur var umboðsmanni skuldara falin ákveðin aðkoma að gengislánasamstarfi sem heimilað var með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 ásamt Neytendastofu og talsmanni neytenda. Lántakar hafa í ríkum mæli leitað til umboðsmanns skuldara vegna þessara mála og því hefur umboðsmaður skuldara fylgst vel með framgangi mála.

Staðan

Umboðsmaður skuldara telur stöðuna í gengislánamálum vera óásættanlega. Þrátt fyrir að lánastofnanir virðast vera að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán að svo stöddu þá virðast jafnframt vera enn ákveðin ágreiningsefni til staðar sem á eftir að leysa. Fjármálafyrirtækin og Drómi hafa dregið lappirnar í þessum málum og hafa sum þeirra jafnframt sett fram ákveðna fyrirvara gagnvart lántakendum er þeir gera endurútreikninga sína. Lántakendur hafa ekki farið varhluta af þessum vinnubrögðum og þurft að leita sér aðstoðar í baráttunni við þau. Ferlið hefur verið langsótt og torsótt en afrakstur samráðs og prófmála valdið vonbrigðum að mati umboðsmanns skuldara.

Tillögur að næstu skrefum

Í því skyni að koma þessum málum í viðundandi horf er mikilvægt að stjórnvöld hafi sem skýrasta mynd af stöðunni og afli nauðsynlegra upplýsinga. Er því lagt til að leitað verði til þeirra stofnana sem hafa til þess heimildir að kalla eftir upplýsingum eða hafa betra aðgengi að upplýsingum.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitið óski eftir upplýsingum um nákvæma stöðu endurútreikninga gengislána hjá fjármálafyrirtækjum og Dróma og þá eftir atvikum leita skýringa hvað tefji að þessum málum sé lokið gagnvart lántakendum.

Lagt er til að dómstólaráð fari nánar yfir þau mál sem varða gengislán og eru enn á ýmsum stigum hjá dómstólum.

Lagt er til að Neytendastofa kanni nánar hvort þeir fyrirvarar sem einstök fjármálafyrirtæki hafa sett við endurútreikninga sína gagnvart lántakendum standist að þeirra mati lög nr. 121/1994, um neytendalán.

 Samantekt Embættis umboðsmanns skuldara um stöðu gengislánamála

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta