Mælt fyrir frumvarpi um breytingu á almanna-tryggingalöggjöfinni
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi sem felur í sér endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar. Markmiðið er m.a. að einfalda bótakerfið, bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið og auka sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku.
Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar sem skilaði ráðherra skýrslu í mars sl. Byggt er á þeirri stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar, hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið ásamt því að auka stuðning við þann hóp aldraða sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga.
Gert er ráð fyrir sameiningu bótaflokka, afnámi frítekjumarka og einfaldari útreikningum. Þetta á að leiða til bættra kjara þeirra ellilífeyrisþega sem hafa áunnið sér lítinn sem engan rétt í lögbundna atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku á vinnualdri og þurfa því í ríkum mæli að reiða sig á almannatryggingakerfið til framfærslu á efri árum.
Markmiðið með frumvarpinu er einnig að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkaðs hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Í því skyni er lagður til aukinn sveigjanleiki við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapaður hvati fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins auk þess að lífeyristökualdur verður hækkaður í skrefum um þrjú ár yfir 24 ára tímabil.
Frumvarpinu hefur að lokinni fyrstu umræðu verið vísað til velferðarnefndar.