Hoppa yfir valmynd
12. október 2010 Innviðaráðuneytið

Umsókn um greiðsluaðlögun veiti tafarlausan greiðslufrest

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010. Í breytingunni felst að þeim sem sækja um greiðsluaðlögun verður veittur tímabundinn greiðslufrestur strax og umsókn hefur borist umboðsmanni skuldara en ekki við samþykkt umsóknar eins og nú er. Þetta á þó ekki við ef umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið hafnað á síðustu þremur mánuðum. 

Frumvarpið er lagt fram vegna þess hve umboðsmanni skuldara hefur borist mikill fjöldi umsókna um greiðsluaðlögun á skömmum tíma, eða um 430 umsóknir frá stofnun embættisins 1. ágúst. Vegna mikils álags hjá embættinu er ljóst að nokkrir mánuðir geta liðið frá því að umsókn um greiðsluaðlögun berst þar til hún er afgreidd. Miðað er við að ákvæðið sé tímabundið og gildi til 1. júlí 2011 en þá er gert ráð fyrir að bið eftir afgreiðslu umsókna hafi styst umtalsvert.

Kveðið er á um frestun greiðslna í 11. grein laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Meðan á frestun greiðslna stendur er lánardrottnum óheimilt að:  

  • krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum,
  • gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum,
  • gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu,
  • fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta,
  • neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðunandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda,
  • krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldarans.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta