Hoppa yfir valmynd
3. desember 2015 Innviðaráðuneytið

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur lagt fram á Alþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um húsnæðisbætur. Stefnt er að því að auka stuðning við efnaminni leigjendur og jafna húsnæðisstuðning milli leigjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis.

Samkvæmt frumvarpinu verður núverandi húsaleigubótakerfi breytt og er m.a. stefnt að því að fleiri geti valið að leigja húsnæði í stað þess að kaupa. Lagt er til að stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsaleigubótum sem falla undir húsnæðis­bótakerfið verði flutt frá sveitarfélögum yfir til ríkisins en að greiðsla sérstakra húsa­leigu­bóta verði áfram á hendi sveitarfélaga.

Meginbreyting frumvarpsins frá nú­ver­andi húsaleigubótakerfi felst einkum í því að grunnfjárhæð húsaleigubótanna verði hækkuð umtalsvert og að fjárhæðir bóta og frítekjumarka hækka eftir því sem fleiri eru í heimili.

Miðað er við að nýtt húsnæðisbótakerfi taki gildi í ársbyrjun 2016 en að fyrirhugaðar breytingar á frítekjumörkum, sem miðast við að hækki eftir því sem fleiri búa á heimili, taki gildi í byrjun árs 2017 og að þar með verði kerfið að fullu komið til framkvæmda.

Frumvarpið tekur mið af tillögum verkefnisstjórnar um fram­tíðar­skipan húsnæðismála sem skipuð var í september 2013 og skilaði tillögum í maí 2014, auk tillagna vinnuhóps um húsnæðisbætur frá maí 2012. Frumvarpið er enn fremur liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015. Í henni voru taldar ýmsar aðgerðir sem stjórnvöld myndu vinna að, m.a. aðgerðir á sviði húsnæðismála.

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur var áður flutt á síðasta þingi og er því lagt fram öðru sinni, að mestu óbreytt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta