Starfshópar um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur skipað tvo starfshópa um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Um er að ræða eftirfylgni með tillögum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að úrbótum á brunavörnum í íbúðum og öðru húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Tillögurnar voru birtar í skýrslu HMS, sem unnin var í kjölfar skelfilegs bruna á Bræðraborgarstíg. Markmið hópanna er að fylgja eftir 7 af 13 tillögum en aðrar eru í vinnslu eða komnar til framkvæmda. Starfshóparnir eiga að skila niðurstöðum í síðasta lagi fyrir lok júní nk.
„Það er ákaflega mikilvægt að auka öryggi í húsnæði sem fólk býr í. Þeir tveir starfshópar sem skipaðir hafa verið munu annars vegar útfæra tillögur varðandi skráningu í húsnæði og hins vegar tryggja að íbúðarhúsnæði sé ekki í notkun nema að fyllsta öryggis sé gætt,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Annar starfshópurinn mun útfæra eftirfarandi tillögur og annast eftirfylgni með þeim:
- Tillaga 3. Tryggt verði að íbúðarhúsnæði sé ekki tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt.
- Tillaga 7. Samhliða innleiðingu á flokkun mannvirkja verði ráðist í fræðsluátak um tilkynningaskyldar og byggingarleyfisskyldar framkvæmdir með áherslu á brunavarnir.
- Tillaga 8. Skilgreindir verði hvatar til að ná fram réttri skráningu á húsnæði sem hefur verið breytt án leyfis eða tilkynningar, með umsókn um byggingarleyfi eða tilkynntri framkvæmd.
Hinn starfshópurinn mun útfæra eftirfarandi tillögur og annast eftirfylgni með þeim:
- Tillaga 9. Endurskoðaðar verða heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis/aðseturs í íbúðarhúsnæði
- Tillaga 10. Sérstakt átaksverkefni vegna eldri timburhúsa með áherslu á fræðslu og skjalfestingu brunavarna.
- Tillaga 11. Metið verði hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi.
- Tillaga 12. Endurskoðaðar verði heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits.
Í starfshópunum eru fulltrúar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, innviðaráðuneytinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Félagi byggingarfulltrúa, Reykjavíkurborg og Þjóðskrá Íslands.
- Allar tillögur eru í skýrslu um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu.