Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

Skýrsla starfshóps um eflingu byggðar og atvinnulífs á svæðinu milli Markarfljóts og Öræfa

Forsætisráðherra skipaði þann 9. september 2016 starfshóp sem ætlað var að móta framtíðarsýn fyrir svæðið frá Markarfljóti að Öræfum. Hópurinn skyldi koma fram með tillögur um eflingu byggðar og atvinnulífs með sérstakri áherslu á grunnþjónustu og vaxtargreinar í atvinnulífinu. Starfshópurinn hefur nú skilað meðfylgjandi skýrslu til forsætisráðherra og hefur ríkisstjórnin fjallað um málið og samþykkt að beina því til viðkomandi ráðuneyta að þau taki skýrsluna til skoðunar og geri tilögur um framkvæmd og fjármögnun einstakra verkefna.

Starfshópurinn leggur áherslu á að flýta þurfi uppbyggingu innviða á svæðinu frá Markarfljóti að Öræfum þannig að það verði á markvissan hátt gert samkeppnishæfara. Skortur á þriggja fasa rafmagni, ljósleiðaratengingum og öflugu samgöngukerfi hefur staðið byggð og fjölbreytni atvinnutækifæra fyrir þrifum. Tryggja þarf nauðsynlegt fjármagn á næstu árum og leggja áherslu á eflingu innviða á sviði orku, samgangna og fjarskipta. Öryggi í orkumálum, bættar samgöngur og bætt fjarskipti ásamt góðu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun á öllum stigum eru þættir sem tryggja fólki á öllum aldri öryggi og bæta búsetuskilyrði.

Svæðið frá Markarfljóti að Öræfum býr yfir margvíslegum tækifærum. Náttúra svæðisins er sérstök og svæðið sækja nú heim flestir þeirra erlendu ferðamanna sem koma til Íslands. Uppbygging innviða hefur ekki náð að fylgja eftir því álagi sem stóraukinn ferðamannastraumur hefur í för með sér. Megintillögur starfshópsins taka mið af þessum aðstæðum:

  • Hraðað verði aðgengi að þriggja fasa rafmagni.
  • Hraðað verði ljósleiðaravæðingu eða ráðist í aðrar aðgerðir til bættra netsamskipta.
  • Hraðað verði úrbótum og þjónustu á samgöngukerfi svæðisins með fækkun á einbreiðum brúm, breikkun vega og farið í rannsóknir á nýjum veg um Mýrdal.
  • Þjónusta heilsugæslu og löggæslu verði efld.
  • Landvarsla verði á svæðinu allt árið.
  • Ríkið greiði kostnað við sjóvarnargarðinn í Vík í samræmi við það sem tíðkast þegar um ofanflóðagarð er að ræða.
  • Katla jarðvangur verði styrktur til að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda í þágu ferðaþjónustu.
  • Sett verði af stað vinna til að finna lausnir í húsnæðismálum. Ljóst er að á svæðinu er markaðsbrestur og því er nauðsynlegt að greina stöðuna og koma með tillögur að úrbótum.
  • Menntastofnanir fái stuðning til að halda uppi þjónustu við svæðið og þekkingarsetur á Klaustri og í Vík fari á fjárlög.
  • Hugað verði að kynningu á ræktunarmenningu og frumkvöðlastarfsemi svæðisins á sviði landbúnaðar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum