Borgin gegn landinu – keppendur eða samherjar?
Hreppapólitík, landsbyggðarpólitík, höfuðborgarpólitík. Breytingin frá einsleitu til alþjóðlegs samfélags. Hinir nýju Íslendingar. Landfræðilegt litróf fasteignamarkaðarsins. Allt eru þetta áleitin málefni sem tekin verða fyrir á ráðstefnunni „Borgin gegn landinu – keppendur eða samherjar?“ á Nordica Hotel föstudaginn 17. nóvember 2006 kl. 13.15–15.15.
Að ráðstefnunni „Borgin gegn landinu – keppendur eða samherjar“, sem fjallar um fasteignamarkaðinn og byggðaþróun á Íslandi, standa félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður í samstarfi við Rannsóknasetur í húsnæðismálum við Háskólann á Bifröst.
Ráðstefnan verður haldin í sal G á Nordica Hotel og hefst með ávarpi Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra. Fyrirlesarar verða Magnús Árni Skúlason dósent, Grétar Þór Eyþórsson prófessor og Vífill Karlsson dósent. Auk þeirra taka Guðný Hrund Karlsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Raufarhöfn, og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, þátt í pallborðsumræðum. Ráðstefnustjóri verður Herdís Á. Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar og formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.