Hoppa yfir valmynd
31. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkratryggingar Íslands fá viðurkenningu fyrir þróun rafrænna samskipta

Sjúkratryggingar Íslands
Sjúkratryggingar Íslands

Þróun rafrænna samskipta hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) veitir einstaklingum aðgang að réttum og öruggum upplýsingum um eigin hag og þeim sem veita þjónustu aðgang að gögnum sem tryggja rétt sjúkratryggðra. Þetta kemur fram í umsögn dómnefndar um stofnunina sem hlaut í vikunni viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu árið 2012 fyrir rafvæðingu á umsýslu sjúkratryggingaréttinda og fyrir þjónustugáttirnar, Réttindagátt og Gagnagátt á vefnum: www.sjukra.is.

Nýsköpunarverðlaunin og viðurkenningar voru afhent á ráðstefnu á Grand hótel en í ár voru 62 verkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum tilnefnd  til nýsköpunarverðlauna. Verðlaunin sjálf hlaut Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir verkefnið SignWiki sem er upplýsingakerfi og þekkingarbrunnur fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, nýtist sem orðabók, til kennslu og í samskiptum við heyrnarlausa, fyrir almenning og til rannsókna og hefur gjörbreytt aðgengi að táknmáli og  miðlun þess.

Umsögn dómnefndar

Í umsögn og rökstuðningi dómnefndar fyrir viðurkenningunni til Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að verkefnið felist í þróun rafrænna samskipta á ýmsum þáttum sem varða umsýslu sjúkrtartryggingaréttidna almennings til þess að tryggja að sjúkratryggðir njóti lögbundinna réttinda og til að ná rekstrarlegum markmiðum: „Samhliða beinum rafrænum samskiptum voru byggðar upp þjónustugáttir á vef stofnunarinnar þar sem veitendur heilbrigðisþjónustu annars vegar og einstaklingar hins vegar geta glöggvað sig á tryggingalegri réttindastöðu viðkomandi á hverjum tíma.

Rafvæðingin leysti af hólmi flókið handvirkt kerfi sem m.a. fól í sér utanumhald einstaklinga vegna greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu og útgáfu skírteina af ýmsu tagi til að hljóta afslátt af þjónustu . Hér er um nýjung að ræða hvað varðar flókna og viðkvæmu almannaþjónustu og aðgang einstaklinga að réttum og öruggum upplýsingum er varða eigin hag, sem og aðgang veitenda þjónustu að gögnum sem tryggja rétt sjúkratryggðra.  Lausnin hefur því mikið almannagildi og hefur mikla þýðingu fyrir stofnunina.  Jafnframt felst aukin fjárhagsleg hagkvæmni í lausninni.“

Ragnar M. Gunnarsson sviðsstjóri fjármála og rekstrar hjá SÍ tók við viðurkenningunni fyrir hönd SÍ og kynnti verkefnið stuttlega eins aðrir sem hlutu viðurkenningu og má sjá kynningu hans hér.

Aðstandendur nýsköpunarverðlaunanna eru fjármála- og efnahagsráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga, Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta