Leiðbeiningar vegna breytingarlaga nr. 52/2001 á lögum nr. 138/1997 um húsaleigubætur
Breytingarlög nr. 52/2001 á lögum nr. 138/1997 um húsaleigubætur tóku gildi við birtingu laganna, þ.e. hinn 13. júní sl. Helstu breytingar með lagabreytingunni eru þær að sveitarfélög og leigjendur þeirra eru leyst undan skyldu til þinglýsingar á leigusamningi þar sem sveitarfélögin eru í senn leigusalar og greiðendur húsaleigubóta. Þá eru áhrif skyldleikatengsla minnkuð og réttur til húsaleigubóta rýmkaður til að koma betur til móts við þá hópa sem búa við sérstakar aðstæður, svo sem fatlaða á sambýlum og námsmenn á framhalds- eða háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum.
Vegna þessara lagabreytingar hefur ráðuneytið ákveðið að veita nokkrar leiðbeiningar um framkvæmd og túlkun á fyrrnefndum breytingum.
1. Undanþága veitt frá skyldu til þinglýsingar húsaleigusamningum
Við 3. mgr. 4. gr. og 1. tölul. 11. gr. laganna bætast við eftirfarandi: Ekki er þó skylt að þinglýsa leigusamningi vegna íbúðar í eigu sveitarfélaga eða félaga sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga.
Með breytingunni eru sveitarfélög og leigjendur þeirra leyst undan skyldu til þinglýsingar á leigusamningum. Sveitarfélög eru í þessu tilviki í senn leigusalar og greiðendur húsaleigubóta. Þykir því óþarft að þinglýsa leigusamningum vegna leiguíbúða sveitarfélaga. Tilgangurinn með þessari breytingu er að einfalda ferlið við útleigu þessara íbúða. Sum sveitarfélög hafa tekið á leigu húsnæði sem þau síðan framleigja til sinna skjólstæðinga.
Undanþága þessi gildir eingöngu um íbúðir sem eru í eigu sveitarfélaga eða félaga sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga svo sem Félagsbústaðir hf.
2. Áhrif skyldleikatengsla eru minnkuð
Ákvæði 6. gr. laga nr. 138/1997 varðandi skyldleikatengsl milli annars vegar leigjanda og annarra íbúa og hins vegar leigusala er fært til fyrra horfs, það er eins og 7. gr. laga nr. 100/1994 hljóðaði áður.
1. tölul. 6. gr. laganna orðast því svo: ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri. Við ákvæðið bætist því orðalagið "sem býr í sama húsi".
Mikil gagnrýni kom fram á þá ákvörðun að auka áhrif skyldleikatengsla með lögunum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þannig að bannið tæki til allra íbúða sem eru í eigu skyldmenna eða tengdra, óháð því hvort leigusali og leigutaki búi í sama húsnæði. Ákvæði eldri laga, nr. 100/1994, gerðu greinarmun á því hvort leigusali byggi í sama húsi og leigutaki eða annars staðar. Sérstaklega kemur óhagræði í ljós vegna þessa þegar sífellt verður erfiðara að fá leiguíbúðir og leiga á almennum leigumarkaði hækkar. Talið er að vægi skyldleikatengsla varðandi leigufjárhæð sé minna þegar leiguhúsnæðið er annað en það sem leigusali býr sjálfur í. Ef hin leigða íbúð er í sama húsi og leigusali býr í þá á leigutaki ekki rétt til húsaleigubóta, svo sem ef leigð er út kjallara- eða risíbúð. Það sama gildir ef leigusali á tvær íbúðir í sama fjöleignarhúsinu og leigir aðra út til skyldmennis en býr í hinni.
3. Hópar sem búa við sérstakar aðstæður.
Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr. um íbúðarhúsnæði hafa fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða rétt til húsaleigubóta. Undanþága þessi gildir einnig um námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum.
Með breytingunni er réttur til húsaleigubóta rýmkaður til að koma betur til móts við þá hópa sem búa við sérstakar aðstæður, þ.e. fatlaða á sambýlum og námsmenn á framhalds- eða háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum (stúdentagörðum).
Fatlaðir á sambýlum
Markmiðið með þessari breytingu er að bæta rétt öryrkja sem búa á sambýlum þar sem hluti rýmisins er sameiginlegur, svo sem eldunaraðstaða, stofur og jafnvel baðherbergi.
Þeir öryrkjar sem greiða húsaleigu og búa sannanlega á sambýlum fyrir fatlaða eiga því rétt á húsaleigubótum. Nær allir fatlaðir eiga lögheimili á þeim sambýlum sem þeir búa á og telst það fullnægjandi sönnun. Regla þessi gildir um öll sambýli þar sem fatlaðir búa til lengri tíma, og greiða húsaleigu. Leigusamningur er þá gerður við hvern og einn íbúa um hluta sambýlisins (þ.e. sérherbergi ásamt aðgangi að sameignlegum hluta sambýlisins).
Fatlaðir á "sólarhringsvistunarstofnunum" greiða ekki húsaleigu og eiga því ekki rétt á húsaleigubótum.
Þinglýsa þarf leigusamningum vegna þeirra sambýla sem ekki eru í eigu sveitarfélaga. Leigutími samkvæmt leigusamningi þarf að vera a.m.k. til sex mánaða, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.
Námsmenn
Lagt er til að stúdentar sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldunaraðstöðu, stofum og baðherbergjum eigi einnig rétt til húsaleigubóta. Rétt þykir að láta undanþágu þessa taka til námsmanna á framhalds- og háskólastigi sem leigja á heimavist eða á námsgörðum (stúdentagörðum). Í þessum tilvikum telst aðstaða þeirra "íbúðarhúsnæði".
Þegar námsmenn eru með sérherbergi er leigusamningi við námsmanninn þinglýst á viðkomandi herbergi. Flóknara er hins vegar með þau tilvik þegar tveir námsmenn hafa fengið úthlutað einu rúmgóðu herbergi. Í slíkum tilvikum verður að gera leigusamning við hvorn fyrir sig um hluta herbergisins (t.d. hvor sín 50%). Þannig hafa báðir tækifæri til að þinglýsa sínum leigusamningi. Tekjur og eignir herbergisfélaga hafa þá ekki áhrif á húsaleigubætur námsmannsins auk þess sem tilfærslur herbergisfélagans milli herbergja eða leiguhúsnæðis mun ekki hafa áhrif á leigusamning námsmannsins sem verður áfram í sínu herbergi. Leigusamningunum er þá ýmist þinglýst á viðkomandi herbergi á heimavistinni eða námsgörðum eða þinglýst á viðkomandi byggingu sé byggingunni ekki skipt upp í þinglýsingarbók. Leigutími samkvæmt leigusamningi þarf að vera a.m.k. til sex mánaða, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.
Undanþága þessi gildir ekki um námsmenn sem leigja hver og einn hluta af íbúð á frjálsum leigumarkaði eða hjá frændfólki eða vinum. Námsmenn er leigja herbergi "út í bæ" eiga, eins og áður, ekki rétt á húsaleigubótum. Þeir námsmenn er leigja saman eina íbúð á frjálsum markaði hafa þó áfram það úrræði að einn þeirra leigi íbúðina og sæki um húsaleigubætur í sínu nafni fyrir heildarhúsaleigu þeirra sem búa í íbúðinni. Umsækjandi greinir þá frá í umsókn til húsaleigubóta og við útfyllingu skattframtals frá öðrum leigjendum húsnæðisins. Nauðsynleg gögn svo sem skattframtöl vegna síðasta árs og upplýsingar um tekjur allra námsmannanna þurfa að fylgja slíkri umsókn.
4. Gildistaka
Breytingarlögin tóku gildi við birtingu laganna, þ.e. hinn 13. júní sl. Lögin hafa því ekki gilt allan júnímánuð. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur skal umsókn hafa borist eigi síðar en 15 dögum fyrir fyrsta dag greiðslumánaðar. Í þeim tilvikum sem umsókn hefur ekki borist sveitarfélagi fyrir 16. júní sl. er sveitarfélagi óskylt að greiða húsaleigubætur vegna júnímánaðar.
Nánari upplýsingar um húsaleigubætur eru á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins: felagsmalaraduneyti.is / húsnæðismál /húsaleigubætur. Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband við Óskar Pál Óskarsson eða Elínu Gunnarsdóttur í félagsmálaráðuneytinu í síma 560-9100.
félagsmálaráðuneytinu, 21. júní 2001.