Hoppa yfir valmynd
29. mars 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Sjúklingum sérfræðilækna verða tryggðar endurgreiðslur

Takist ekki að endurnýja samninga við sérfræðilækna fyrir 1. apríl næstkomandi mun velferðarráðuneytið tryggja að sjúklingar sem til þeirra leita fái eftir sem áður greiddan hluta kostnaðar vegna þjónustunnar.

Samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur sem fer með samningsumboðið fyrir þorra sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, falla að óbreyttu úr gildi 31. mars næstkomandi.

Velferðarráðuneytið í samvinnu við Sjúkratryggingar hefur undirbúið aðgerðir sem gripið verður til ef ekki semst, með áherslu á að tryggja hag sjúklinga og að þeir verði fyrir sem minnstum óþægindum. Ráðherra mun setja reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérfræðilækna sem eru án samnings við Sjúkratryggingar. Þar verður kveðið á um heimild stofnunarinnar til að endurgreiða sjúkratryggðum hluta útlagðs kostnaðar vegna þjónustu sérgreinalækna samkvæmt gjaldskrá sem Sjúkratryggingar gefa út. Meðan sérfræðilæknar hækka ekki verðskrá sína umfram gjaldskrá stofnunarinnar verður hlutfall endurgreiðslu til sjúklinga það sama og verið hefur samkvæmt núgildandi samningum.

Mikilvægt að sérgreinalæknar skili áfram rafrænum reikningum

Velferðarráðuneytið telur mjög mikilvægt að tryggja hag sjúklinga og valda þeim sem minnstum óþægindum. Ráðuneytið hvetur því sérgreinalækna til þess að senda Sjúkratryggingum reikninga sína með rafrænum hætti eins og þeir hafa gert hingað til. Sérfræðilæknum verður greitt sérstaklega fyrir rafræn skil líkt og verið hefur.

Rúmlega 300 sérfræðilæknar starfa að einhverju leyti samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, þar af er um þriðjungur þeirra sem starfar eingöngu á stofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta