Tvíhliða samningur Íslands og Bandaríkjanna um almannatryggingar
Tekist hefur tvíhliða samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkjanna. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Robert Cushman Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkjanna í velferðarráðuneytinu í gær.
Í framhaldi af þessari undirritun munu stjórnvöld beggja ríkja undirbúa fullgildingu samningsins þannig að hann öðlist gildi sem fyrst. Þegar samningurinn hefur verið fullgiltur mun hann tryggja bæði Íslendingum sem starfa í Bandaríkjunum og Bandaríkjamönnum sem starfa á Íslandi aðgang að almannatryggingum, þ.e. elli- og örorkulífeyri, og lífeyrissjóðum í viðkomandi landi.