Hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs
Félagsmálaráðherra hefur gefið út reglugerð nr. 798/2004 um hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt reglugerðinni hækka hámarkslán vegna kaupa á notuðum íbúðum úr 9,2 milljónum króna og vegna nýbygginga úr 9,7 milljónum króna í 11,5 milljónir króna.
Jafnframt er kveðið á um að almennt lán að viðbættu viðbótarláni geti að hámarki numið 13,0 milljónum króna. Sveitarfélög og húsnæðisnefndir í þeirra umboði þurfa að breyta reglum sínum í samræmi við reglugerðina.
Félagsmálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram frumvarp til laga á breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 þar sem lagt er til að lánshlutfall almennra íbúðalána hækki í 90% af kaupverði íbúðar og að sú breyting taki gildi 1. janúar 2005.
Samhliða gildistöku nýrra laga er gert ráð fyrir að hætt verði veitingu viðbótarlána til tekju- og eignaminni einstaklinga enda mætir hið breytta lánakerfi Íbúðalánasjóðs þörfum þessa hóps eftir að almennar lánaheimildir hækka í 90% af kaupverði. Sú breyting mun leiða af sér að sveitarfélög munu hvorki þurfa að greiða ábyrgðargjald vegna viðbótarlána né hafa umsýslu með lánveitingum til einstaklinga.
Reglugerð um breytingu á reglugerð, nr. 521/2004, um lánshlutfall og hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa.