Breytingar gerðar á reglugerð um stofnframlög og almennar íbúðir
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur staðfest breytingar á reglugerð sem fjallar um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir (nr. 183/2020) samkvæmt lögum um almennar íbúðir (nr. 52/2016).
Hugtakið almenn íbúð er notað um íbúðarhúsnæði sem ætlað er til leigu á viðráðanlegu verði til leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Húsnæðissjálfseignarstofnanir, sveitarfélög eða lögaðilar geta sótt um stofnframlög til að byggja almennar íbúðir en stefna stjórnvalda er að fjölga slíkum íbúðum, ekki síst með nýbyggingum. Stofnframlögum er ætlað að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði.
Sala íbúða auðvelduð innan almenna íbúðakerfisins
Gerð er breyting á reglugerðinni til að auðvelda sölu eða tilflutning almennra íbúða milli húsnæðissjálfseignarstofnana og annarra sem fá stofnframlög, svo sem sveitarfélaga. Meginreglan er sú að endurgreiða skal stofnframlög við sölu almennra íbúða. Með þessari breytingu þarf þess ekki ef íbúðarhúsnæði er áfram notað í sama tilgangi. Markmið breytingarinnar er að almennar íbúðir verði áfram í kerfinu og í boði fyrir leigjendur undir tekju- og eignamörkum.
Brák hses., sem er húsnæðissjálfseignarstofnun í eigu 31 sveitarfélags, er eitt dæmi um lögaðila sem getur fengið stofnframlög. Eftir breytinguna geta sveitarfélög nú fært almennar íbúðir inn í Brák án þess að endurgreiða stofnframlög.
Hámarksbyggingarkostnaður og tekju- og eignamörk leigjenda uppfærð
Tvær aðrar breytingar eru gerðar á reglugerðinni. Annars vegar eru viðmið um hámarksbyggingarkostnað almennra íbúða hækkuð en einnig viðmið um tekju- og eignamörk leigjenda. Í báðum tilvikum er um að ræða árlega uppfærslu.