Samantekt íslenskra rannsókna á stöðu fatlaðs fólks
Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands hefur skilað velferðarráðuneytinu skýrslu með yfirliti og samantekt um helstu niðurstöður íslenskra rannsókna sem gerðar hafa verið á stöðu fatlaðs fólks á árabilinu 2000–2013. Skýrslan var gerð að beiðni ráðuneytisins í samræmi við þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014.
„Það er mikill fengur í þessari samantekt fyrir fatlað fólk og alla þá sem láta sig málefni þess varða, hvort sem það eru stjórnmálamenn, fagfólk eða fræðimenn, leikir eða lærðir. Þarna fæst greinargott yfirlit yfir allar íslenskar rannsóknir á aðstæðum fatlaðs fólks sem veita margvíslega innsýn í aðstæður þeirra sem búa við fötlun af einhverju tagi. Þetta skiptir miklu til að auka skilning samfélagsins á lífi fatlaðs fólks og þessar rannsóknir eru mikilvægar þegar unnið er að stefnumótun í málaflokknum“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Í inngangi að skýrslunni kemur fram að bæði íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir sýni að langflest fatlað fólk upplifi mikla fordóma og félagslega útskúfun í daglegu lífi og er jafnframt vísað í alþjóðaskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um fötlun frá árinu 2011 sem gefur mikilvægt yfirlit um þessa þætti á heimsvísu. Þar segir enn fremur: „Hér á landi hafa á síðustu árum einnig verið gerðar nokkrar rannsóknir sem hafa kannað fordóma og félagslega einangrun fatlaðs fólks. Rannsóknirnar eiga það allar sammerkt að hátt hlutfall fordóma mælist í garð fatlaðs fólks og að fatlað fólk sjálft telur sig verða fyrir fordómum vegna örorku sinnar eða fötlunar.“
Ábyrgðarmenn verkefnisins um gerð skýrslunnar fyrir hönd Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum eru Rannveig Traustadóttir prófessor og Kristjana Jokumsen verkefnastjóri.