Hoppa yfir valmynd
14. október 2016 Innviðaráðuneytið

Fjármögnun stórfelldrar uppbyggingar hjá Félagsstofnun stúdenta í höfn

Að aflokinni undirritun um fjármögnun verkefnisins í Gamla Garði - mynd

Gengið hefur verið frá fjármögnun vegna stórfelldrar uppbyggingar húsnæðis á vegum Félagsstofnunar stúdenta til ársins 2019. Byggðar verða 400 nýjar íbúðir og herbergi fyrir háskólanema. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 6,3 milljarðar króna. Þar af veitir Íbúðalánasjóður rúmlega 5,6 milljarða kr. lán til verkefnisins. Skrifað var undir fjármögnun framkvæmdanna á Gamla Garði við Hringbraut í gær.

Nýbyggingarnar verða við Gamla Garð, Sæmundargötu og Brautarholt.

Í Brautarholti 7 er verið að ljúka við byggingu 102 íbúða sem verða tilbúnar til notkunar 1. nóvember.

Við Sæmundargötu 23 verður reist fimm hæða hús ásamt bílakjallara með 220–230 stúdentaíbúðum og herbergjum. Herbergin verða með sérbaðherbergi en sameiginlegu eldhúsi og stofu. Framkvæmdin verður boðin út um mánaðamótin október/nóvember. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í mars 2017, fyrri áfanginn verði tilbúinn um áramótin 2018/2019 og seinni áfanginn í júlí 2019.

Á svæðinu við Hringbraut verður reist nýbygging með 70–80 herbergum. Byggingin verður tengd Gamla Garði, elsta stúdentagarði á Íslandi. Gamli Garður var tekinn í notkun árið 1934 og er húsið eitt af kennileitum borgarinnar, en það stendur við aðalaðkomuna að háskólasvæðinu. Stefnt er að því að þessar framkvæmdir hefjist haustið 2017, að undangenginni samkeppni og deiliskipulagsbreytingu og að húsnæðið verði tilbúið til notkunar um áramótin 2018/19.

Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá Íbúðalánasjóði, og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, skrifuðu undir fjármögnunina að viðstöddum ráðherra húsnæðismála, Eygló Harðardóttur og Hermanni Jónassyni, forstjóra Íbúðalánasjóðs.

Eygló sagði við undirritunina aðdáunarvert að sjá þann stórhug og frumkvöðlaanda sem Félagstofnun stúdenta sýndi með því að vera í fararbroddi uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði með litlum íbúðum og herbergjum með sameiginlegri aðstöðu. Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, sagði fjármögnun Íbúðalánasjóðs skipta lykilmáli í verkefninu. Mikil eftirspurn sé eftir stúdentaíbúðum og að aldrei hafi jafn margir verið á biðlista eftir íbúðum. Með framkvæmdunum eigi að breyta því.

 

Gamli Garður við Hringbraut

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta