Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Persónuvernd og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar

Fyllt í formið
Fyllt í formið

Lagabreyting sem Alþingi samþykkti nýlega og ætlað er að styrkja heimildir Tryggingastofnunar ríkisins (TR) til eftirlits með greiðslu bóta felur ekki í sér aukinn aðgang stofnunarinnar að viðkvæmum persónuupplýsingum. Engar breytingar voru gerðar á ákvæði almannatryggingalaga varðandi aðgang TR að sjúkraskrám.

Þann 1. febrúar síðastliðinn tóku gildi breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra sem varða stjórnsýslu Tryggingastofnunar ríkisins. Meðal nýmæla í lögunum er að þeir sem hafa áunnið sér réttindi hjá lífeyrissjóðum þurfa að sækja um þau á sama tíma eða áður en sótt er um hjá Tryggingastofnun. Þá er hnykkt á ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga og kveðið á um auknar heimildir TR til eftirlits og viðurlaga í því skyni að koma til móts við ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram komu í skýrslu frá febrúar 2013 um eftirlit TR með bótagreiðslum.

Í lögunum er kveðið á um að þær upplýsingar sem TR aflar skuli takmarkaðar við það sem stofnuninni er nauðsynlegt til að framfylgja lögunum. Þá eru mjög ítarleg ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna TR og aðra sem vinna fyrir stofnunina.

Enn fremur eru í lögunum ítarleg ákvæði um að við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skuli TR gæta þess að uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og að hún skuli setja sér öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir samkvæmt lögunum. Einnig segir að upplýsingar sem aflað er í þágu eftirlits skuli ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og að þeim skuli eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.

Aðgangur að viðkvæmum persónuupplýsingum ekki aukinn

Af opinberri umræðu síðustu daga hefur mátt ráða að með lagabreytingunni hafi TR verið veitt heimild til aðgangs að sjúkraskrám viðskiptavina sinna. Þetta er ekki rétt því ákvæði um slíkan aðgang er óbreytt frá eldri lögum að öðru leyti en því að bætt er við sérstöku ákvæði um vernd og meðferð persónuupplýsinga í því skyni að styrkja þennan þátt laganna.

Þegar frumvarpið var til umfjöllunar á Alþingi gerði velferðarnefnd þingsins nokkrar breytingar á því sem allar miðuðu að því að mæta ábendingum og athugasemdum sem fram komu í umsögn Persónuverndar um frumvarpið. Í samræmi við það var bætt inn ákvæði um hve lengi TR megi varðveita upplýsingar sem hún fær til að framfylgja lögunum og einnig hvernig standa skuli að því að upplýsa einstaklinga um gagnaöflun stofnunarinnar. Í umsögn Persónuverndar var lagt til að gefa ætti umsækjendum um bætur frá TR færi á að afla sjálfir nauðsynlegra upplýsinga og afhenda þær TR ef þeir svo kysu. Velferðarnefnd féllst hins vegar ekki á þetta og taldi það ekki nauðsynlegt út frá persónuverndarsjónarmiðum. Var jafnframt horft til þess að ef umsækjandi eða greiðsluþegi hefði val um að neita að afhenda upplýsingar sem TR eru nauðsynlegar til að sannreyna bótarétt yrði afleiðingin sú að viðkomandi fengi ekki þær greiðslur sem sótt væri um.

Á vef Alþingis eru aðgengilegar umsagnir sem bárust við frumvarpið og þær breytingar sem á því voru gerðar af hálfu velferðarnefndar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta