Hagstofan birtir félagsvísa til framtíðar
Velferðarráðherra og Hagstofustjóri undirrituðu í dag samning sem felur í sér að Hagstofa Íslands tekur að sér að birta og uppfæra reglulega félagsvísa sem kynntir voru í byrjun þessa ár. Félagsvísar eru safn fjölbreyttra tölfræðilegra upplýsinga sem varpa ljósi á félagslegar aðstæður ólíkra þjóðfélagshópa.
Gerð félagsvísanna hófst árið 2009 þegar velferðarvaktin lagði til við velferðarráðherra að fengnir yrðu sérfræðingar til að setja saman íslenska félagsvísa. Tillagan var kynnt í ríkisstjórn og samþykkt að ráðast í slíka vinnu á vegum velferðarvaktarinnar undir stjórn fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins. Skýrsla með safni félagsvísa fyrir árin 2000-2010 var birt í febrúar síðastliðnum. Sem dæmi um félagsvísa má nefna þróun greiðslubyrði eftir tekjuhópum, kyni og fjölskyldugerð, þróun meðaltekna sömu hópa, þróun fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, þróun útgjalda ríkis og sveitarfélaga til einstakra málaflokka og svo mætti lengi telja.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Ólafur Hjálmarsson Hagstofustjóri fögnuðu báðir samkomulaginu sem undirritað var í velferðarráðuneytinu í dag og tryggir framtíð félagsvísanna:
Guðbjartur sagði ómetanlegt fyrir stjórnvöld að hafa svo viðamiklar upplýsingar aðgengilegar á einum stað um félagslega þætti: „Þetta er nokkuð sem stjórnvöld hefur skort við stefnumótun og ákvarðanatöku. Félagsvísarnir munu ótvírætt stuðla að betur undirbúnum og rökstuddum ákvörðunum. Þeir munu jafnframt gera mögulegt að skoða samfélagsleg áhrif ákvarðana sem teknar eru í fjölmörgum málum. Þannig getum við líka séð hvort við erum á réttri leið eða þurfum að endurskoða stefnu og ákvarðanir stjórnvalda.“ Velferðarráðherra þakkaði öllum sem hönd lögðu á plóginn ómetnalegt framlag við gerð vísanna.
Ólafur Hjálmarsson Hagstofustjóri sagði verkefnið sem Hagstofunni væri falið með samningnum styrkja stofnunina og efla til muna söfnun og vinnslu félagslegra tölfræðigagna. Þá léki enginn vafi á því að félagsvísarnir muni verða mikill fengur fyrir háskólasamfélagið og rannsóknarstarf á sviði félagsvísinda.
Á þriðja tug sérfræðinga tók þátt í starfinu við gerð félagsvísanna frá velferðarráðuneytinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Háskóla Íslands, Barnaverndarstofu, Tryggingastofnun ríkisins, Rannsóknum og greiningu, ríkislögreglustjóra, Hagstofu Íslands, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, ríkisskattstjóra, ASÍ, umboðsmanni skuldara, Embætti landlæknis, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands.