Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2018 Innviðaráðuneytið

Átak í uppbyggingu á landsbyggðinni

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Grein eftir Ásmund Einarsson, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2018.

Mikill húsnæðisskortur hefur verið á landinu öllu undanfarin ár en vandinn er einna alvarlegastur á landsbyggðinni. Þrátt fyrir að íbúum þar hafi fjölgað hefur lítil uppbygging átt sér stað síðustu árin. Á sumum landsvæðum, líkt og á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, hefur vart verið byggt síðan um aldamótin og á Austurlandi hefur nær ekkert íbúðarhúsnæði verið byggt frá árinu 2008. 

Húsnæðisskorturinn getur haft alvarlegar afleiðingar. Dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi hamlað atvinnutækifærum í einhverjum sveitarfélögum og að öflug fyrirtæki í minni byggðum sjái fram á að missa starfsfólk einfaldlega vegna þess að húsnæði fyrir það er ekki til staðar. Það er óhætt að segja að skaðinn
sé þegar orðinn verulegur fyrir sum sveitarfélög og fyrirtæki á landsbyggðinni og því er brýnt að grípa til aðgerða.

Unnið að tillögum að viðbrögðum við vandanum

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á úrbætur á þessum vanda og í tengslum við þá áherslu ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs í byrjun febrúar að sjóðurinn skyldi vinna tillögur að því með hvaða hætti sé farsælast að draga úr húsnæðisvandanum á landsbyggðinni. Verður tillögunum skilað til stjórnvalda innan þriggja mánaða. Farið verður í ítarlega greiningu á umfangi markaðsbrests á landsbyggðinni í samvinnu við sveitarfélögin og skoðað hvort laga megi stofnframlög ríkis
og sveitarfélaga að hverju svæði fyrir sig. Einnig verður horft til reynslu nágrannaþjóða okkar sem tekist hafa á við svipaðan vanda og hvernig þær þjóðir hafa leyst úr þessu.

Íbúafjöldi jókst umfram spár árið 2017

Hverjar eru helstu ástæður húsnæðisskortsins á landsbyggðinni? Samkvæmt tölum Hagstofunnar var mannfjöldaaukning á árinu 2017 sú mesta frá aldamótum en Íslendingum fjölgaði um rúmlega 10 þúsund manns á árinu og
var það langt fram úr öllum spám um mannfjöldaþróun. Á árunum 2016 og 2017 fluttist fólk í auknum mæli út á landsbyggðina, m.a. vegna aukinna atvinnutækifæra í smærri byggðum.

Það er ljóst að til þess að fólk geti búið og starfað á landinu öllu er aðgangur að viðunandi húsnæði lykilþáttur. Uppbygging íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda þar frekar en á höfuðborgarsvæðinu
en uppbygging og endurnýjun húsnæðis er öllum samfélögum nauðsynleg til að geta þróast.

Byggingarkostnaður hærri en markaðsvirði húsnæðis

Það sem gerir húsnæðisvanda landsbyggðarinnar frábrugðinn vanda höfuðborgarsvæðisins er að aðalorsökin er ekki skörp hækkun fasteignaverðs heldur sú staðreynd að lítil sem engin uppbygging hefur átt sér stað, líkt
og komið var inn á í upphafi greinarinnar. Ein helsta áskorunin sem sveitarfélög á landsbyggðinni glíma við er að kostnaður við byggingu íbúðahúsnæðis er hærri en markaðsvirði þess. Hvatinn til að byggja er því lítill. Þessu
til viðbótar bjóðast íbúum á landsbyggðinni iðulega lakari kjör á lánsfé til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði heldur en íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Þörf á stærri leigumarkaði á landsbyggðinni

Leigumarkaður á landsbyggðinni er lítill og hefur stækkað mun hægar en leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Ástæður þess má m.a. rekja til takmarkaðs aðgangs að lánsfé vegna markaðsbrest. Mikil þörf er á leiguhúsnæði
á landsbyggðinni til að hýsa starfsmenn sem komnir eru til að vinna um skamman eða lengri tíma í vaxandi fyrirtækjum en einnig til að gefa öðru aðfluttu fólki tækifæri til að búa á staðnum án skuldbindinga áður en
það ákveður hvort það vilji búa þar til langframa og fjárfesta í húsnæði.

Innviðir sem beðið hafa uppbyggingar

Landsbyggðin hefur því miður setið eftir í úrræðum stjórnvalda um allt of langa hríð. Það er brýnt að fara í aðgerðir til þess að tryggja betur húsnæðisöryggi landsmanna, hvar sem þeir kjósa að búa, og ólíðandi að fólki mæti húsnæðisskortur eða einungis val um annars flokks húsnæði þegar það flyst á landsbyggðina. Húsnæði er grunnþörf og að sjálfsögðu þarf að byggja ný hús og ráðast í endurbætur á fleiri stöðum en suðvesturhorninu.

Atvinnulíf á landsbyggðinni er í miklum vexti um þessar mundir og fólki sem hefur svigrúm til að greiða af húsnæði þarf að standa til boða að fá húsnæðislán eða almennilegt leiguhúsnæði. Þarna hafa markaðsöflin
brugðist og við verðum að mæta því. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta