Aukin framlög til sköpunar og vísinda
Stefnt er því að auka framlög til sköpunar og vísinda um tvo milljarða króna á fjárlögum ársins 2013.
Stefnt er að því að auka framlög til sköpunar og vísinda um tvo milljarða króna á fjárlögum ársins 2013. Kvikmyndasjóður verður nær tvöfaldaður og aðrir verkefnissjóðir lista og skapandi greina verða efldir og nýir stofnaðir á sviðum handverks, hönnunar, myndlistar og tónlistar. Þá verða framlög til vísinda og tækniþróunar stóraukin. Þessar auknu fjárveitingar eru liður í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir Ísland 2013-2015. Í gær voru tillögur ríkisstjórnar um framkvæmd hennar á fjárlögum ársins 2013 kynntar.
Framlög í Kvikmyndasjóð verða rúmlega 1 milljarður króna árið 2013. Fjárfestingaáætlun gerir ráð fyrir að þau aukist um 450 m.kr. til viðbótar við þær 570 m.kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.
Alls verða framlög til verkefnissjóða lista og skapandi greina aukin um 250 m.kr. frá því sem frumvarp til fjárlaga gerir ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að stofnaðir verði fjórir nýir sjóðir, Hönnunarsjóður, Handverkssjóður, Myndlistarsjóður og Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig aukningin skiptist.
Skipting á framlögum til verkefnissjóða á sviði skapandi greina (m.kr.) |
|||
Starfandi sjóðir | Fjárl.frv. 2013 | Fj.f.áætl.1 2013 | Samtals 2013 |
Sjóðir á sviði bókmennta* | 89,6 | 70 | 159,6 |
Starfsemi atvinnuleikhópa | 69,8 | 20 | 89,8 |
Tónlistarsjóður | 46,1 | 35 | 81,1 |
Nýir sjóðir | |||
Myndlistarsjóður | 0 | 45 | 45 |
Hönnunarsjóður | 0 | 45 | 45 |
Handverkssjóður - Handverk og hönnun** | 0 | 15 | 15 |
Útflutningssjóður tónlistar - Útón*** | 0 | 20 | 20 |
Samtals |
205,5 |
250 |
455,5 |
1 Fjárfestingaáætlun
* Bókmenntasjóður, styrkir til þýðinga á íslenskum bókmenntum yfir á erlend tungumál og bókasafnssjóður höfunda.
** Nýr sjóður á vegum Handverks og hönnunar sem mun byggja á samningi við ráðuneytið.
*** Nýr sjóður á vegum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (Útón) til þess að efla útflutning á íslenskri tónlist sem byggja mun á samningi við ráðuneytið.
Í frumvarpi til fjárlaga hafði þegar verið greint frá tillögum um aukningu framlaga til samkeppnissjóða á sviði vísinda um 750 m.kr. Þau skiptist þannig að framlag til Rannsóknasjóðs hækkar um 550 m.kr. þannig að hann verði 1.325 m.kr. Þá er gerð tillaga um að framlag til markáætlunar á sviði vísinda og tækni hækki um 200 m.kr. og verði 392,5 m.kr. Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir að framlög til Tækniþróunarsjóðs, sem er á ábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, hækki um 550 m.kr. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að framlög til samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækniþróunar hækki um samtals 1,3 milljarða króna. Er þessi hækkun í samræmi við stefnu vísinda- og tækniráðs um eflingu samkeppnissjóða.
Fjárfestingaáætlun fyrir Ísland 2013-2015 var kynnt þann 15. maí 2012 undir yfirskriftinni „Nýjar áherslu í atvinnumálum“. Fjármögnun fjárfestingaáætlunarinnar er tvíþætt. Annars vegar er fjár til verkefna á sviði samgangna og rannsókna/þróunar aflað með veiðileyfagjaldi, en þau bættust við framkomna samgönguáætlun og voru samþykkt í júni. Fé til rannsóknarsjóða var svo aukið í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Hins vegar eru verkefni sem lúta að eflingu vaxtargreina og fasteigna fjármögnuð með arði og eignasölu. Verkefni sem falla undir síðari hlutann voru kynnt í gær.
Tengdar fréttir: