Velferðarráðherra skrifar um varnir gegn verðbólgu
Þak á verðbætur verðtryggðra lána er kostur sem er ástæða fyrir stjórnvöld að skoða betur, skrifar Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í grein sem birtist í DV í gær: „Þetta gæti verið liður í því að auka fjárhagslegt öryggi heimilanna gegn óstöðugleika á borð við þann sem fylgt hefur gjaldmiðli okkar og fylgir honum enn.“
Í greininni fjallar ráðherra um niðurstöður nýrrar úttektar sem gerð var að beiðni ráðherrahóps um skulda- og greiðsluvanda heimila. Verkefnið sem Dr. Ásgeir Jónsson lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands vann fyrir ráðherrahópinn fólst annars vegar í því að skoða kosti og galla þess að setja 2% hámark á raunvexti af verðtryggðum lánum, hins vegar að skoða kosti og galla þess að setja 4% hámark á verðbætur verðtryggðra fasteignalána.