Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2019 Innviðaráðuneytið

Vill rjúfa stöðnun í húsbyggingum á landsbyggðinni

Niðurstöður tilraunaverkefnis sýna markaðsbrest á húsnæðismarkaði víða um land

  1. Félags- og barnamálaráðherra hefur nú birt í samráðsgátt stjórnvalda minnisblað um aðgerðir sem hann hyggst ráðast í til þess að gera Íbúðalánasjóði kleift að bjóða nýjar tegundir lána til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni.
  2. Fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um almennar íbúðir, sem m.a. er ætlað að bregðast við misvægi á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs á landsbyggðinni. Markmið breytinganna er að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með stofnframlagi ríkisins. Drög að frumvarpi þessa efnis voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí síðastliðnum.

Félags- og barnamálaráðherra hefur birt áform sín um að breyta lögum og reglugerðum til að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni og koma til móts við áskoranir sem fjölmörg sveitarfélög standa frammi fyrir í húsnæðismálum. Stöðnun er algengt vandamál í þessum sveitarfélögum og víða hefur ekkert íbúðarhúsnæði verið byggt í einn til tvo áratugi. Mun meira var byggt á landsbyggðinni frá aldamótum og fram að hruni, heldur en síðustu ár. Sérfræðingar Íbúðalánasjóðs sjá merki um markaðsbrest á mörgum svæðum enda ráðast fáir í að reisa nýtt íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að atvinna sé víðast hvar næg og eftirspurn eftir íbúðum mikil. Þeir fáu sem vilja byggja í smærri sveitarfélögum koma oft á tíðum að lokuðum dyrum á lánamarkaðnum. Dýr og erfið fjármögnun, skortur á byggingaraðilum og misvægi milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar hefur valdið því að lítið eða ekkert er byggt.

Tillögur þær sem félags- og barnamálaráðherra kynnir í dag í samráðsgáttinni byggja meðal annars á tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs með sjö sveitarfélögum og er ætlað að bregðast við ofangreindum áskorunum landbyggðarinnar.

Ráðherra boðar einnig að hann muni setja í reglugerð nýjan lánaflokk hjá Íbúðalánasjóði til að auðvelda sjóðnum að veita fjármögnun á landsbyggðinni. Hann leggur áherslu á að tryggja þurfi íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að fjármagni á sambærilegum kjörum og fást á virkari markaðssvæðum. Þá vill hann bregðast við skorti á hagkvæmu leiguhúsnæði með því að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með stofnframlagi ríkisins. Heimilt verði að veita sérstakt byggðaframlag vegna leiguíbúða á svæðum þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs og þá verði heimildir sveitarfélaga til þess að leggja fram stofnframlög rýmkaðar. Tillögurnar taka mið af ólíkum áskorunum sveitarfélaga víðs vegar um land. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Niðurstöður tilraunaverkefnis Íbúðalánasjóðs á landsbyggðinni sýna að það ríkir markaðsbrestur á húsnæðismarkaði víða á landsbyggðinni. Enginn er að svara eftirspurninni þrátt fyrir að næg kaupgeta sé fyrir hendi hjá íbúum í þessum sveitarfélögum. Ég tel að það þurfi aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur í húsbyggingum á landsbyggðinni. Ef við lítum til baka þá sést að hrunið hafði meiri eftirköst í för með sér fyrir húsnæðismarkaðinn úti á landi heldur en á suðvestur-horninu. Nýbyggingar hafa verið sjaldséðar utan stærstu atvinnusvæða en fólk sem býr utan þessara svæða þarf líka nýtt húsnæði. Það er uppgangur í nýjum atvinnugreinum á landsbyggðinni og oft er skortur á húsnæði helsta vandamál fólks sem ræður sig í þau störf.“

Myndin sýnir hversu verulega hefur dregið í sundur með byggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið á síðustu árum
Meðfylgjandi mynd sýnir vel hversu verulega hefur dregið í sundur með byggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið á síðustu árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta