Bregst við dómi Hæstaréttar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri. Með breytingunni er afnumið ákvæði reglugerðarinnar sem mælir fyrir um að sérstök uppbót vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega skuli reiknað í samræmi við búsetuhlutfall.
Breytingin er gerð í kjölfar dóms Hæstaréttar sem féll á miðvikudag, þar sem reglugerðin var ekki talin hafa næga stoð í lögum og vera andstæð tilgangi ákvæðis um sérstaka uppbót vegna framfærslu í lögum um félagslega aðstoð, sem er að tryggja tekjulágum lífeyrisþegum sem þess þurfa, framfærslu.
Þessi breyting hefur í för með sér að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem búa hér á landi er tryggð framfærsla í samræmi við viðmiðunarfjárhæð laganna, án tillits til tímalengdar búsetu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Það var mjög gott að fá skýra niðurstöðu í Hæstarétti og ég fagna því við séum komin með lendingu í þetta mikilvæga mál. Með þessari breytingu á reglugerðinni tryggjum við framfærslu sérstaklega viðkvæms hóps sem er mikið framfaraskref.“