Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2009 Innviðaráðuneytið

Fjármálakreppan, húsnæðismarkaðurinn og heimilin

Fjallað verður um áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar á húsnæðismarkaði norrænu ríkjanna og velferðarkerfi þeirra, á norrænni ráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík fimmtudaginn 26. nóvember. Rætt verður um hver þróunin hefur verið á norrænu húsnæðismörkuðunum frá upphafi kreppunnar og hvaða afleiðingar hún hefur haft á búsetuskilyrði heimilanna. Þá verður skoðað hvaða ályktanir má draga af fenginni reynslu og hvernig megi nýta hana við stefnumótun í húsnæðismálum í kjölfar breyttra forsendna.

Kynntar verða ýmsar upplýsingar sem sýna hvernig þróunin hefur verið á húsnæðismörkuðum Norðurlandaþjóðanna undanfarin 15 ár, til dæmis hvernig verð hefur þróast og hve mikil uppbygging húsnæðis hefur verið. Á meðfylgjandi mynd má sjá þróunina í í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Norðurlöndunum á árunum 1995-2008.

Bostadsbyggandet i Norden 1955-2008 pr. 1000 invånere

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Gwilym Pryce, professor í borgarhagfræði við Glasgow-háskóla. Gwilym er þekktur fyrir rannsóknir sínar á sviði húsnæðismarkaðsmála og hefur gefið út fjölda fræðigreina um efnið. Hann mun í erindi sínu fjalla um helstu þætti sem hann telur hafa áhrif á heilbrigði húsnæðismarkaða og mismunandi getu þeirra til að standa af sér alvarlegar efnahagsþrengingar.

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni eru Jón Rúnar Sveinsson, félagsfræðingur hjá Reykjavíkurakademíunni, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, Steinar Uel, aðalhagfræðingur hjá norska Nordea-bankanum, Jacob Legård Jakobsen, aðalgreinandi hjá Nykredit Markets í Danmörku, Gunnhildur Gunnarsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs hjá Íbúðalánasjóði, Mats Wilhelmsson, prófessor hjá Royal Institute of Technology í Stokkhólmi, Elias Oikarinen, hagfræðidoktoer hjá Turku School of Economics og Yngvi Örn Kristinsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í skuldavanda heimilanna.

Norræna ráðherranefndin undir forystu Íslendinga stendur að ráðstefnunni sem er kjörinn vettvangur fyrir stjórnmálamenn, stjórnendur, fræðimenn og aðra fagaðila á sviði húsnæðis- og skipulagsmála á Norðurlöndum til að bera saman bækur sínar.

Ráðstefnan er öllum opin án endurgjalds.

Erindi og umræður verða á Norðurlandamálum og ensku og er boðið upp á túlkun á Norðurlandamálum.

Skráning fer fram á vefsíðunni: yourhost.is/bolig2009.

 Dagskrá ráðstefnunnar

 Faktaunderlag om de nordiska bostadsmarknaderna 1995-2010

 Heimasíða Gwilym Pryce, prófessors, aðalfyrirlesara ráðstefnunnar

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta