Hoppa yfir valmynd
26. maí 2015 Innviðaráðuneytið

Rúm 80% fólks á leigumarkaði eftir nauðungarsölu

Suðurnes
Suðurnes

Niðurstöður könnunar á afdrifum fjölskyldna á Suðurnesjum sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á árunum 2008-2011 leiðir í ljós að 81% þeirra búa nú í leiguhúsnæði. Áberandi er að hátt hlutfall skuldara nýtti sér ekki opinber úrræði sem í boði voru og hefðu getað komið þeim að gagni vegna skorts á upplýsingum um þau.

Í desember 2012 voru birtar niðurstöður rannsóknar um nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum á árunum 2001-2011 í ljósi þess að nauðungarsölur voru þar hlutfallslega mun algengari en annars staðar á landinu. Í framhaldi af þeirri könnun var ákveðið að afla ítarlegri upplýsinga um þá sem misstu húsnæði sitt, með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur og liggja þær niðurstöður nú fyrir undir yfirskriftinni: Fjölskyldur sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á Suðurnesjum 2008-2011. Aðdragandi og afdrif. Í úrtaki voru 335 einstaklingar og fjölskyldur en 150 svöruðu.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir niðurstöður könnunarinnar undirstrika hve mikilvægt sé að skapa húsnæðismarkað með fjölbreyttum valkostum sem henta ólíkum aðstæðum fólks og efnahag: „Við getum ekki tryggt öllum öruggt húsnæði nema með því að gera leiguhúsnæði og búseturétt að raunhæfum kosti. Niðurstöðurnar sýna líka glöggt hve mikið er í húfi til að búa börnum, öllum börnum öruggt heimili.“

Niðurstöður könnunarinnar sýna m.a. að;

  • Um 81% svarenda býr í leiguhúsnæði í dag, tæp 9% í eigin húsnæði og um 10% svarenda búa ýmist inni á ættingjum eða hafa afnot af húsnæði í eigu ættingja.
  • Nauðungarsala hefur mikil áhrif á hagi barna. Í apríl 2014 voru börn búsett á um helmingi þeirra heimila þar sem húsnæði var selt á nauðungarsölu. Um 45% barnanna þurftu að skipta um skóla, um 32% barnanna misstu tengsl við vini sína samkvæmt upplýsingum svarenda og um 15% þeirra þurftu að hætta í tómstunda- eða íþróttastarfi.
  • Hátt hlutfall svarenda  (63%) sem misst hafði húsnæði á nauðungarsölu hafði ekki nýtt sér nein úrræði vegna fjárhags- eða húsnæðisvanda. Viðmælendur vissu ýmist ekki af þeim, skildu þau ekki eða fengu misvísandi upplýsingar frá ólíkum aðilum um hvaða úrræði stæðu til boða og hvernig ætti að bera sig eftir þeim.
  • Helstu ástæður sem svarendur gáfu á húsnæðismissinum voru forsendubrestur vegna efnahagshrunsins (27,4%); tekjulækkun, með eða án atvinnumissis (26,5%) of mikil lántaka og of háar afborganir af lánum (23%). Viðmælendur í viðtalskönnuninni nefndu margir að þeim hafi boðist hærri lán til íbúðakaupanna en þeim sjálfum fannst forsvaranlegt.

Niðurstöður könnunarinnar leiða skýrt í ljós að stór hluti þeirra sem könnunin náði til skorti upplýsingar, þekkingu og getu til að leita sér aðstoðar og færa sér í nyt opinber úrræði fyrir fólk í fjárhags- og húsnæðisvanda. Höfundar könnunarinnar telja því mikilvægt að skoða betur hvernig koma megi  til móts við þarfir skuldara á þeirra forsendum, til dæmis hvað varðar framsetningu opinberra aðila á upplýsingum, ráðgjöf og leiðbeiningum, svo og framsetningu á reglum um hvernig tekið er á skuldamálum, hvort sem um er að ræða skuldir almennt eða sértæk úrræði vegna húsnæðisskulda.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta