Hoppa yfir valmynd
14. júní 2005 Innviðaráðuneytið

Í tilefni yfirlýsinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs

Fulltrúar félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs hafa undanfarna daga átt gagnlega fundi og ágætar viðræður við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, International Monetary Fund (IMF) sem staddir eru hér á landi. Ánægjulegt er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hælir sjóðsstjórn Íbúðalánasjóðs og þeim lagabreytingum sem gerðar hafa verið nýlega þar að lútandi. Sjóðurinn leggur til að allir kostir núverandi kerfis verði varðveittir og hagnýttir í enn ríkari mæli hér á landi.

Fyrir liggur að Íbúðalánasjóður hefur mikilvægu hlutverki að gegna á grundvelli gildandi laga sem breytt var með einróma samþykki Alþingis í desember síðastliðnum. Grundvallarhlutverk sjóðsins er að tryggja öllum landsmönnum, hvar á landinu sem þeir búa og hver sem félagsleg staða þeirra er, húsnæði á hagstæðustu vaxtakjörum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur hins vegar að í ljósi breyttra aðstæðna með innkomu  bankanna á húsnæðislánamarkaðinn hér á landi sé rétt að huga enn frekar að þróun starfsemi Íbúðalánasjóðs. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til að við slíka þróun verði varðveittir allir kostir núverandi kerfis. Jafnframt verði sú sérþekking sem Íbúðalánasjóður hefur byggt upp nýtt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur einnig til að ríkisábyrgð skuli fyrst og fremst beinast að því að tryggja húsnæði fyrir láglaunafólk og þá sem búsettir eru í dreifbýli hér á landi.

Í því sambandi skal bent á, að óbreyttu yrði ekki unnt að fjármagna sérstakt félagslegt húsnæðiskerfi á jafn hagstæðum kjörum og í boði hafa verið um land allt þar sem hin öfluga sjóðsstjórn Íbúðalánasjóðs byggir einmitt á þeirri grundvallarforsendu að sjóðurinn sé starfandi á landinu öllu, bæði á sterkum og veikum markaðssvæðum. Þá skal á það bent að með tilteknum hámarkslánum sem miðast við ákveðna stærð og meðalverð hóflegar íbúðar í fjölbýli (110 – 130 fm. skv. skráningum Fasteignamats ríkisins 2005) eru Íbúðalánasjóði nú þegar settar skorður sem eru að hluta til af því tagi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á að æskilegt sé að honum  verði settar.

Félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður hafa fylgst grannt með þróun mála á húsnæðislánamarkaði og aflað sér upplýsinga varðandi það svið í fjölmörgum löndum.  Breyttar aðstæður á húsnæðislánamarkaði á undanförnum misserum gefa tilefni til áframhaldandi þróunar opinbers húsnæðislánakerfis hér á landi. Hér eftir sem hingað til munu hugsanlegar breytingar vera byggðar á því sem best gerist í þeim löndum sem við getum borið okkur saman við og þeirri sérstöðu sem einkennir íslenskan húsnæðislánamarkað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta