Tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur staðfestar
Í 14. gr. reglugerðar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 391/1998, er kveðið á um að við mat á dánar- og lífslíkum skuli nota nýjustu dánar- og eftirlifendatöflur, sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.
Hinn 13. desember sl. gerði Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga tillögu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur til samræmis við reiknilíkan sem samþykkt var á almennum félagsfundi félagsins 9. desember 2020 og kemur þar sem viðauki við fyrri reiknigrunn sem birtur var í árslok 2019. Í því felst að reiknigrunnur frá árinu 2019 skuli eiga við um lífslíkur eins og þær voru metnar á árinu 2016 en fyrir síðari ár skuli miðað við að lífslíkur taki breytingum til samræmis við reiknilíkan félagsins frá árinu 2020 varðandi breytingu lífslíkinda.
Þar sem tillaga félagsins felur í sér veigamikla breytingu hjá lífeyrissjóðum á mati skuldbindinga milli mismunandi aldurshópa þykir rétt að heimila lífeyrissjóðum að innleiða hinar breyttu forsendur við tryggingafræðilega athugun á næstu tveimur árum frá komandi áramótum að telja. Í því felst að lífeyrissjóðum verður heimilt við gerð tryggingafræðilegrar athugunar við lok árs 2021 að velja hvort skuldbinding verði metin með reiknigrunni frá árinu 2019 eða með hinum nýja grunni. Þeir lífeyrissjóðir sem velja að nota eldri reiknigrunn skulu þó samhliða reikna tryggingafræðilega stöðu sjóðsins með hinum nýja grunni sem birt skal sem skýring í ársreikningi.
Allir lífeyrissjóðir skulu vera búnir að innleiða breyttar forsendur um lífslíkur fyrir tryggingafræðilega athugun ársins 2023.
Að teknu tilliti til þessa fellst ráðuneytið á tillögur félagsins.
Dánartíðni eftir reynslu 2014-2018
Taflan á vef Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga
- Líkan 1 (XSL)
- Líkan 2 (XSL)
- Líkan 3 (XSL)
- Spá um dánartíðni (PDF)