Hoppa yfir valmynd
9. júní 2015 Innviðaráðuneytið

Nýmæli í frumvarpi um húsnæðisbætur

Fjölbýli
Fjölbýli

Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur hefur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og hefur það markmið að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera óháð búsetuformi í þágu efnaminni einstaklinga og fjölskyldna á leigumarkaði.

Fjallað er um helstu efnisatriði frumvarpsins og nýmæli hér á eftir:

Jafnari húsnæðisstuðningur óháð búsetuformi

Húsnæðisstuðningur við leigjendur verður aukinn þannig að hann verði jafnari húsnæðisstuðningi hins opinbera við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins.

Á meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á grunnfjárhæðum húsaleigubóta og vaxtabóta í núgildandi kerfi og dálknum lengst til hægri hverjar bætur til leigjenda verða í nýju húsnæðisbótakerfi.

  Húsaleigubætur Vaxtabætur Húsnæðisbætur
Grunnfjárhæðir Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði
Einhleypur 264.000 22.000 400.000 33.333 372.000 31.000
Einstætt foreldri 1 barn 432.000 36.000 500.000 41.667 446.400 37.200
Einstætt foreldri 2 börn 534.000 44.500 500.000 41.667 539.400 44.950
Einstætt foreldri 3 börn 600.000 50.000 500.000 41.667 613.800 51.150
Barnlaus hjón 264.000 22.000 600.000 50.000 446.400 37.200
Hjón 1 barn 432.000 36.000 600.000 50.000 539.400 44.950
Hjón 2 börn 534.000 44.500 600.000 50.000 613.800 51.150
Hjón 3 börn 600.000 50.000 600.000 50.000 651.000 54.250

Húsnæðisbætur taki mið af fjölda heimilismanna

Fjárhæðir húsnæðisbóta munu taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri í stað fjölskyldugerðar eða fjölda barna. Með þessu móti er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili. Þannig geta tveir einstaklingar haft 20% hærri tekjur en sá sem býr einn áður en tekjurnar leiða til skerðingar á húsnæðisbótum og þrír á heimili geta saman haft 21% hærri tekjur en tveir sem búa saman. Þetta á jafnt við um foreldri sem býr eitt með barni yngra en 18 ára eða tvo fullorðna einstaklinga. Samkvæmt þessu gæti einstætt foreldri með barn haft umtalsvert hærri tekjur í nýju húsnæðisbótakerfi en það getur samkvæmt núgildandi húsaleigubótakerfi áður en bætur myndu skerðast. Árstekjur einstæðs foreldris með eitt barn gætu numið 3.240.000 krónum án skerðingar húsnæðisbóta en í núgildandi kerfi skerðast húsaleigubætur einstæðs foreldris við árstekjur umfram 2.550.000 krónur, óháð fjölda barna. Nánar má sjá frítekjumörk miðað við fjölda heimilismanna á meðfylgjandi töflu:

Fjöldi heimilismanna Stuðull Frítekjumörk m.v. árstekjur
1 1,0 2.700.000 kr.
2 1,2 3.240.000 kr.
3 1,45 3.915.000 kr.
4 1,65 4.455.000 kr.
5 eða fleiri 1,75 4.725.000 kr.

Réttur til húsnæðisbóta vegna barna þótt foreldrar búi ekki saman

Foreldrar sem búa ekki saman munu í nýju kerfi, hvort um sig, öðlast rétt á auknum húsnæðisbótum vegna barns eða barna, að því skilyrði uppfylltu að barnið búi ekki skemur en 30 daga hjá hvoru þeirra. Í gildandi kerfi fær aðeins það foreldrið þar sem barnið er með skráð lögheimili aukinn rétt til húsaleigubóta. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir þetta mikilvæga réttarbót og sanngirnismál fyrir stóran og stöðugt vaxandi hóp fjölskyldna sem til þessa hafi borið skarðan hlut frá borði: „Sameiginleg forsjá er orðin almenn regla við skilnað foreldra. Hér er þó forsjáin ekki skilyrði, heldur er horft til þess að foreldri, hvort sem það fer með forsjá eða ekki, hafi barnið hjá sér reglulega og þurfi því að geta búið því aðstæður til samræmis við það“ segir Eygló.

Húsnæðisbætur allt að 75% af húsnæðiskostnaði

Húsaleigubætur samkvæmt gildandi kerfi geta orðið sem nemur 50% af húsnæðiskostnaði. Í nýju húsnæðisbótakerfi geta þær aftur á móti numið 75% af húsnæðiskostnaði að hámarki. Skilgreining húsnæðiskostnaðar er hin sama og í húsaleigubótakerfinu. Greiðslur leigjenda fyrir hita, vatn og rafmagn teljast því ekki til húsnæðiskostnaðar.

Bætur fyrir þriggja mánaða leigu

Húsaleigubætur eru einungis greiddar vegna húsnæðis sem leigt er að lágmarki í sex mánuði. Í nýju kerfi mun fólk hins vegar öðlast rétt til húsnæðisbóta ef leigutíminn nær þremur mánuðum. Er horft til þess að lengd leigusamnings er jafnan ákvörðun leigusala en ekki leigjandans og að umrætt skilyrði hafi í ýmsum tilvikum dregið úr möguleikum leigjenda til að fá greiddar húsnæðisbætur.

Samþykkt umsókn heldur gildi sínu meðan leigusamningur er fyrir hendi

Í gildandi húsaleigubótakerfi þurfa leigjendur að endurnýja umsókn um bætur á hverju ári. Í nýju kerfi verður það óþarfi þar sem miðað er við að samþykkt umsókn haldi gildi sínu svo lengi sem sá leigusamningur sem liggur til grundvallar rétti til húsnæðisbóta er í gildi og umsækjandi uppfyllir  sett skilyrði. Gert er ráð fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins sannreyni reglulega rétt viðkomandi til húsnæðisbóta, meðal annars með því að stofnunin óski eftir staðfestingu umsækjanda á að tekjuáætlun fyrir komandi almanaksár sé rétt í upphafi árs sem og aðrar upplýsingar sem liggja fyrir er kunna að hafa áhrif á fjárhæð húsnæðisbóta, svo sem upplýsingar um fjölda heimilismanna, eignir, og húsnæðiskostnað.

Fjölskyldutengsl munu ekki takmarka rétt til húsnæðisbóta

Í gildandi kerfi takmarkast réttur leigjenda til húsaleigubóta ef leigusalinn býr í sama húsi og náin fjölskyldutengsl eru á milli hans og leigjandans. Í nýju húsnæðibótakerfi verða þessar takmarkanir á rétti til húsnæðisstuðnings felldar niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta