Hoppa yfir valmynd
30. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um umönnunargreiðslur vegna langveikra eða fatlaðra barna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kynnti frumvarp um greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna fyrir ríkisstjórn í gær og var frumvarpið sent þingflokkum til afgreiðslu. Í frumvarpinu er lagt til að sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna komi í stað gildandi laga. Markmiðið er að styðja betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna, meðal annars með því að einfalda stuðningskerfið og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila.

Frumvarpið er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Meginefni frumvarpsins er að umönnunar- og foreldragreiðslur í núverandi kerfi verði sameinaðar og skiptist í tvo flokka, annars vegar tekjutengdar umönnunargreiðslur til skamms tíma sem byggjast á fyrri atvinnuþátttöku og hins vegar umönnunarstyrk sem greiðist með barni til 18 ára aldurs. Kveðið er á um það nýmæli að umönnunaraðilar eigi nú sjálfstæðan rétt til umönnunargreiðslna og að nú geti báðir foreldrar fengið umönnunarstyrk á sama tíma. Með þessu er meðal annars reynt að jafna möguleika umönnunaraðila til þátttöku í námi eða á vinnumarkaði. Einnig er stigið það mikilvæga skref að leggja til að nám eða atvinnuþátttaka útiloki ekki umönnunaraðila frá því að fá umönnunarstyrk og þannig verður stuðningskerfið sveigjanlegra og stuðlar í auknum mæli að því að draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila.

Til viðbótar þessum greiðslum komi kostnaðargreiðslur sem ætlað er að koma til móts við þann kostnað sem stafar af fötlun eða veikindum barns og er umfram það sem almennt falli til hjá börnum á sama aldursskeiði. Gert er ráð fyrir að sveigjanleiki stuðningskerfisins verði aukinn og áherslum breytt á þann hátt að dregið verði úr vægi læknisfræðilegra greininga en stuðningur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna verði í auknum mæli miðaður við raunverulega umönnunarþörf barnanna umfram það sem á við um börn á sama aldursskeiði. Mun fjárhæð umönnunarstyrks ráðast af þrepinu sem sérstök umönnunarþörf barnsins raðast í.

Hér má finna skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Frumvarp um greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna er mikið framfaraskref, því það eykur möguleika fólks á aukinni þátttöku í samfélaginu, í námi og atvinnuþátttöku samhliða því að ala upp langveikt eða fatlað barn. Frumvarpið, verði það að lögum, mun því bæta lífskjör og lífsgæði langveikra og fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta