Hoppa yfir valmynd
28. maí 2020 Innviðaráðuneytið

Ný skýrsla starfshóps um stöðu brunavarna hér á landi afhent ráðherra

Ráðherra ásamt starfsfólki HMS og slökkviliði Skagafjarðar. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hyggst ráðast í margþættar aðgerðir til þess að efla umgjörð brunamála og brunavarna á Íslandi. Með þessu er ráðherrann að bregðast við ábendingum í nýrri skýrslu um málaflokkinn sem gerð verður opinber á næstunni. Ásmundur Einar skýrði frá aðgerðunum á kynningarfundi sem fram fór í starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Sauðárkróki upp úr hádegi í dag.

Fjölgun starfsmanna og eftirlitseining færist til Sauðárkróks

Ein aðgerðanna felst í að fjölga starfsmönnum sem sinna brunavörnum, en þær heyra undir HMS eftir sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Breytingarnar fela einnig í sér að sú eining sem sinnir skipulagningu brunaeftirlits mun færast til innan stofnunarinnar og verður framvegis hýst á starfsstöð HMS á Sauðárkróki. Við þetta mun stöðugildum á Sauðárkróki fjölga um sjö, en fyrir starfa þar um tuttugu manns við úthlutun húsnæðisbóta, í þjónustuveri og bakvinnslu fyrir húsnæðissvið HMS. 

Í skýrslunni, sem unnin var af starfshópi skipuðum af stjórn HMS, kemur m.a. fram að nauðsynlegt sé að efla og stækka slökkviliðin á landsbyggðinni. Einnig þurfi að uppfæra regluverk brunamála og gefa út leiðbeiningar um eftirfylgd reglugerða. Þá þurfi heilt yfir að efla stjórnsýslu málaflokksins. Skýrslan mun verða birt í heild sinni á næstu dögum.

Aðdragandi skýrslugerðar um stöðu brunamála hér á landi

Við framlagningu frumvarps um sameiningu Mannvirkjastofnunar og íbúðalánasjóðs í HMS lýstu sumir umsagnaraðilar yfir áhyggjum af því hvort vægi brunamála yrði nægilega mikið innan nýrrar stofnunar. Til að bregðast við þessum sjónarmiðum var, fljótlega í kjölfar sameiningarinnar, stofnaður starfshópur um stöðu brunamála með aðkomu ytri ráðgjafa. Starfshópnum var falið að greina núverandi stöðu bruna brunamála, kanna skipulega viðhorf helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila málaflokksins og gera tillögur að úrbótum.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að staða brunamála á Íslandi sé nokkuð góð í samanburði við nágrannalöndin. Tjón af völdum eldsvoða sé minna hér á landi, hvort sem litið sé til mannslífa eða eigna. Þó telja skýrsluhöfundar það áhyggjuefni að síðustu ár hafi tjón vegna bruna verið að aukast og brýnt sé að finna leiðir til að stöðva þá þróun. Nauðsynlegt sé að stórefla brunaeftirlit og gerð brunavarnaráætlana. Vilja skýrsluhöfundar koma í veg fyrir að tjón vegna eldsvoða aukist enn frekar hér á landi vegna stærri, flóknari og dýrari bygginga sem reistar hafa verið á síðustu árum.

Ríkisvaldið hefur ríkum skyldum að gegna í brunamálum

Slökkvilið á hverjum stað eru á forræði sveitarfélaga en ríkisvaldið fer, sem áður segir, með stjórnsýslu brunamála á vettvangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ríkið hefur því bæði skyldum að gegna sem eftirlitsaðili auk þess að sinna víðtæku samræmingar- og stefnumörkunarhlutverki. Félags- og barnamálaráðherra hyggst á næstunni beita sér fyrir sérstöku átaki í bruna- og eiturefnavörnum og hefur hug á að veita auknu fjármagni í málaflokkinn sem mun stuðla að fræðslu slökkviliðsmanna og efla starf slökkviliða á landsbyggðinni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Brunamálin eru gríðarlega mikilvægt hagsmuna- og öryggismál, eins og við erum því miður reglulega minnt á. Síðast í Hrísey í morgun. Líkamstjón, svo ekki sé talað um manntjón, er hræðilegt gjald sem við greiðum fyrir skort á fræðslu, brunaeftirliti og brunavörnum almennt. Við getum ekki komið í veg fyrir allt brunatjón en við getum fækkað tilfellunum og stuðlað að því að þau verði ekki of dýru verði keypt fyrir samfélagið allt. Við viljum og eigum að stórefla brunavarnir. Einn liður í því er að fjölga þeim sem sinna eftirliti með að lögum og reglum sé framfylgt á öllum stigum, allt frá byggingu mannvirkja til þjálfunar slökkviliða, rannsókna á orsökum og fræðslu til almennings. Ríkisstjórnin hefur skýran vilja til að styðja og styrkja þær fáu stofnanir sem eru á landsbyggðinni. Þessar umbætur sem við höfum sett á oddinn í brunamálum eru mjög mikilvægar og munu skila okkur sterkari innviðum og viðbúnaði um land allt og um leið fjölga störfum.“

Davíð Snorrason, forstöðumaður brunamála hjá HMS: „Það hefur verið þörf á að bæta verulega í brunamálin í dálítinn tíma. Við verjum ekki nema hluta þeirra gjalda sem innheimt eru með byggingaröryggisgjaldinu til þeirra verkefna sem áskilið er í lögunum. Ráðherra hefur sagst vilja lyfta grettistaki í málaflokknum og þannig styrkja innviði og viðbúnað um land allt. Það er í takti við það sem fram kom í umsögnum og umræðum í kringum sameiningu þessarar stofnana í HMS. Við vitum að það þarf að sinna betur lögbundnu eftirliti með slökkviliðum og brunavörnum. Hluti starfsemi HMS er nú þegar á Sauðárkróki og það er mat sameinaðrar stofnunar að það henti vel að vera með brunamálin þar. Brunaeftirliti á vettvangi er í dag útvistað til byggingarfulltrúa og annarra aðila á hverjum stað. Alls eru það um 500 manns sem koma að því. Umsjón með eftirlitinu getur verið hvar sem er á landinu, sem og þróun og umsjón með menntun slökkviliðsmanna. Ég tek fram að þó að sú eining verði framvegis á Sauðárkróki þá mun kennslan í Brunamálaskólanum áfram fara fram á SV-horninu og víða um land, í samvinnu við stærri slökkviliðin.“

  • Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta