Vextir Íbúðalánasjóðs af lánum til leiguíbúða og endurgreiðsla ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs vegna vaxtamunar
Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra hafa orðið sammála um eftirfarandi varðandi lán Íbúðalánasjóðs til leiguíbúða:
Veitt verði lán til leiguíbúða skv. 15. gr. laga um húsnæðismál til byggingar allt að 400 leiguíbúða á ári í allt að fjögur ár á 3,5% vöxtum. Gert verði ráð fyrir eðlilegu svigrúmi í fjölda veittra lána milli ára. Lánin verða veitt aðilum er leigja íbúðirnar til þeirra er uppfylla skilyrði um tekju- og eignarmörk samkvæmt VIII. kafla laganna. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög, félög fatlaðra, öryrkja og aldraðra auk námsmanna njóti forgangs innan þessa lánaflokks.
Lögð verði áhersla á að við lánveitingar samkvæmt þessu samkomulagi verði fylgt ákvæðum reglugerðar um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur nr. 873/2001 og lánin eingöngu veitt aðilum sem leigja íbúðirnar til þeirra er uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk.
Ríkissjóður bætir Íbúðalánasjóði muninn á vöxtum leiguíbúðalána með 3,5% vöxtum annars vegar og almennum vöxtum íbúðalána eins og þeir eru hverju sinni, nú 4,15%, hins vegar. Uppgjör vaxtamunar fer fram í lok hvers árs og endurgreiðist árið eftir. Árlegur vaxtamunur er áætlaður um 33 m.kr. ef miðað er við 4,15% vexti og 16,2 m.kr. lánsfjárhæð á hverja íbúð. Miðað er við að lánað verði til byggingar 400 íbúða, eins og áður sagði.
Framangreint gildir í fjögur ár frá og með 1. janúar 2006 og kemur í stað ákvörðunar fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra frá 21. ágúst 2001.