Hoppa yfir valmynd
18. apríl 2023 Innviðaráðuneytið

Endanleg útgáfa grænbókar um húsnæðismál birt að loknu opnu samráði

Endanleg útgáfa grænbókar um húsnæðismál hefur verið gefin út að loknu opnu samráði. Grænbókin eru liður í stefnumótun stjórnvalda en þetta er í fyrsta skipti sem unnið er að formlegri stefnu á landsvísu í húsnæðismálum. Með grænbókinni er lagður grunnur að fyrstu húsnæðisstefnu ríkisins til næstu 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Í henni er greint frá stöðumati húsnæðismála og kynnt drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum við gerð stefnunnar.

Efni grænbókar byggist meðal annars á fyrirliggjandi gögnum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa og samráði sem farið hefur fram við almenning og aðra hagaðila á grundvelli hennar, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks. Einnig tekur efni hennar mið af þeim athugasemdum sem bárust í umsögnum um drög að grænbókinni sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda 10. febrúar til 1. mars 2023. Alls bárust umsagnir frá 17 umsagnaraðilum. Gerð verður nánari grein fyrir umsögnunum og viðbrögðum við þeim í samantekt sem fljótlega verður birt í samráðsgátt stjórnvalda. 

Horft er til þess að til framtíðar litið muni húsnæðisstefna taka til bæði húsnæðis- og mannvirkjamála. Að þessu sinni muni húsnæðisstefna þó einkum beinast að húsnæðismálum og tekur efni endanlegrar útgáfu grænbókarinnar mið af því. Þannig hefur innviðaráðherra ákveðið að vinna við undirbúning sérstakrar mannvirkjastefnu verði hafin á þessu ári enda hefur undirbúningsvinna á vegum starfshópa undanfarin ár fyrst og fremst beinst að húsnæðismálum en síður að mannvirkjamálum. Nauðsynleg greiningarvinna og samráð við hagaðila og almenning um mannvirkjamál mun þannig hefjast síðar á þessu ári og á grundvelli hennar verður unnin sérstök grænbók til undirbúnings stefnu í mannvirkjamálum. Lagt er til grundvallar að við endurskoðun þeirrar húsnæðisstefnu sem nú er unnið að verði þessar tvær stefnur sameinaðar og húsnæðisstefna taki þannig framvegis til bæði húsnæðis- og mannvirkjamála. Þótt húsnæðisstefna muni fyrst í stað einkum beinast að húsnæðismálum er gert ráð fyrir að þar verði vikið að einstökum þáttum mannvirkjamála sem varða íbúðauppbyggingu með beinum hætti.

Markmið grænbókarinnar var að hvetja til umræðu um stöðumat, áskoranir og tækifæri í húsnæðismálum. Næsta skref stefnumótunarinnar felst í því að móta drög að stefnu eða svokallaða hvítbók á grundvelli innihalds grænbókarinnar. Hvítbók um húsnæðismál verður birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á komandi vikum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta