Ný úrskurðarnefnd frístundahúsamála
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað úrskurðarnefnd frístundahúsamála í samræmi við ný heildarlög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008 sem tóku gildi 1. júlí.
Í nefndinni eiga sæti Katrín Theódórsdóttir héraðsdómslögmaður, formaður nefndarinnar, Sverrir Kristinsson, löggiltur fasteignasali, og Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður. Varaformaður er Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og aðrir varamenn eru Guðrún Sveinsdóttir lögfræðingur og Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur við lagadeild Háskóla Íslands.
Með lögunum er brugðist við vanda sem hefur orðið æ sýnilegri á síðari árum þegar langtímaleigusamningar lóða undir frístundahús hafa runnið út og ágreiningur risið milli leigusala og leigutaka um endurnýjun leigusamnings eða leigulok. Áhersla er lögð á að bæta réttarstöðu leigutaka en gæta jafnframt hagsmuna landeigenda. Markmiðið er fyrst og fremst að tryggja eðlilegt jafnræði með aðilum og að hvorugur þurfi að bera skarðan hlut frá borði.
Lögin veita leigutaka lóðar undir frístundahús rétt til að framlengja leigusamning einhliða takist ekki samningar um annað. Leigusali getur þó ávallt, í stað þess að sæta framlengingu á leigusamningi, krafist innlausnar á mannvirkjum á lóðinni í samræmi við reglur laganna. Þá getur leigusali jafnframt krafist endurskoðunar á fjárhæð leigugjalds í tengslum við framlengingu leigusamnings. Úrskurðarvald um fjárhæð innlausnarverðs og endurskoðað leiguverð þegar samningar takast ekki er falið úrskurðarnefnd frístundahúsamála.
Í lögunum er einnig tekið á innbyrðis samskiptum eigenda frístundahúsa með setningu almennra reglna um félög í frístundabyggð og skyldu þeirra sem eiga lóðir undir frístundahús að eiga aðild að slíku félagi. Þá er í lögunum kveðið á um samráð sveitarstjórna og félaga í frístundabyggð vegna sameiginlegra hagsmunamála. Ákvæðið felur í sér að ef hið minnsta helmingur félaga í frístundabyggð í sveitarfélagi óskar eftir fundi til upplýsingar um sameiginleg hagsmunamál frístundabyggðanna og sveitarfélagsins skuli sveitarstjórn bjóðast til að halda slíkan fund með fulltrúum allra félaga í sveitarfélaginu.
Þeir sem eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér vel efni laganna, meðal annars sérstakar málsmeðferðarreglur og málskotsfresti.
Álit og úrskurðir úrskurðarnefndar frístundahúsamála eru endanlegir á stjórnsýslustigi.