Breyting á reglugerð um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu.
Um er að ræða uppfærðar viðmiðunarfjárhæðir tekju- og eignamarka til samræmis við hækkanir bóta almannatrygginga árið 2023. Samkvæmt reglugerðinni skulu fjárhæðir þeirra tekju- og eignamarka, sem skuldarar þurfa almennt að falla undir til að uppfylla skilyrði fyrir afskrift á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu, koma til endurskoðunar ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála, og skulu fjárhæðirnar vera í heilum þúsundum króna.
Eftirfarandi breytingar voru gerðar á 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar:
Skilyrði fyrir afskrift á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu eru:
- Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 8.725.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
- Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 4.864.000 kr. fyrir einstakling eða 5.735.000 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 765.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. mgr. 47. og 50. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, öðlaðist gildi 1. janúar 2024.