Hoppa yfir valmynd

Inngangur

Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja frumvarp til fjárlaga fyrir Alþingi þegar það kemur saman og í þingskapalögum er kveðið á um að frumvarpið skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings sem er annar þriðjudagur í september.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal frumvarp til fjárlaga sett fram á grundvelli þingsályktunar um fjármálaáætlun og skal það að efni til vera í samræmi við markmið hennar, sbr. 5. og 14. gr. laganna. Það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram er í samræmi við fjármála­áætlun fyrir árin 2024–2028 sem Alþingi samþykkti í júní sl.

Um meginefni fjárlagafrumvarpsins er fjallað í fjárlaganefnd Alþingis. Fjallað er um nauð­synlegar lagabreytingar vegna tekjuhliðar fjárlaga og breytingar á almennum lögum sem tengjast afgreiðslu fjárlaga á annan hátt í öðrum fastanefndum Alþingis og eru framangreind frumvörp jafnan afgreidd eigi síðar en í desember.

Stafræn framsetning frumvarps til fjárlaga

Í fyrsta sinn frá gildistöku laga um opinber fjármál er frumvarp til fjárlaga í heild sinni birt með stafrænum hætti á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands. Lögð er áhersla á að hafa framsetningu frumvarpsins á vefnum skýra og notendavæna. Markmiðið með stafrænni birtingu er að bæta aðgengi að upplýsingum og um leið draga úr prentun en frumvarpið verður ekki prentað fyrir stofnanir og almenning. Hægt verður að nálgast prentvæna útgáfu af frumvarpinu í heild sinni á vefsíðum Alþingis og Stjórnarráðsins.

Efnisskipan frumvarps til fjárlaga

Í frumvarpinu eru alls sex lagagreinar ásamt tveimur nánari sundurliðunum sem jafnframt hafa lagalegt gildi, fyrir tekju- og útgjaldahlið frumvarpsins.

Efni lagaákvæðanna er sem hér segir:

  • Í 1. gr. er birt fjárstreymisyfirlit um meginflokkun tekna og hagræna skiptingu útgjalda­þátta ríkissjóðs (A1-hluti) á þjóðhagsgrunni samkvæmt svonefndum GFS-hagskýrslu­staðli (e. Government Finance Statistics) sem sýnir efnahagsleg áhrif ríkisfjármála á aðra geira hagkerfisins. Þá er sett fram hvaða breytingar á peningalegum eignum og skuldum felast í heildarafkomu fjárlagaársins.
  • Í 2. gr. er yfirlit yfir sjóðstreymi ríkissjóðs (A1-hluti). Niðurstaða rekstrar- og fjárfest­ingarhreyfinga er hreinn lánsfjárjöfnuður sem þykir gefa góða mynd af samtímaáhrifum ríkisfjármálanna á efnahagslífið.
  • Í 3. gr. er yfirlit yfir skiptingu fjárheimilda ríkissjóðs (A1-hluti) til málefnasviða greindar í rekstur, rekstrartilfærslur, fjármagnstilfærslur og fjárfestingu. Þar eru líka sýndar áætlað­ar rekstrartekjur og áætluð heildargjöld fyrir hvert málefnasvið.
  • Í 4. gr. er yfirlit yfir fjárheimildir ríkissjóðs (A1-hluti) til málefnasviða og málaflokka sundurgreindar eftir ráðuneytum. Með þessu er ábyrgðarsvið og hlutdeild hvers ráðu­neytis innan málefnasviðs skýr en útgjöld á einstökum málefnasviðum geta fallið undir fleiri en eitt ráðuneyti.
  • Í 5. gr. er greint frá heimildum fjármála- og efnahagsráðherra til töku nýrra lána og veitingar lána og ríkisábyrgða.
  • Í 6. gr. er kveðið á um heimildir fjármála- og efnahagsráðherra til samningsgerða og fjár­ráðstafana, s.s. að kaupa og selja eignir.

Efni sundurliðananna er sem hér segir:

  • Nánari sundurliðun á tekjuáætlun fjárlaga (A1-hluti) í 1. gr. fjárlagafrumvarpsins.
  • Nánari sundurliðun á útgjöldum í 3. gr. og 4. gr. frumvarpsins (A1-hluti) eftir málefna­sviðum, málaflokkum og ráðuneytum með hagrænni skiptingu.

Í athugasemdum á eftir lagagreinum er umfjöllun um einstaka þætti frumvarpsins sem skiptist þannig:

  • Í fyrsta kafla er fjallað um framvindu efnahags- og ríkisfjármála ásamt áherslum og úrlausnarefnum sem eru fram undan.
  • Í öðrum kafla er fjallað um stöðu og horfur í efnahagsmálum fyrir komandi fjárlagaár og hagrænar forsendur stefnumörkunar um ríkisfjármálin.
  • Í þriðja kafla er gerð grein fyrir markmiðum í ríkisfjármálum og helstu niðurstöðum frum­varpsins.
  • Í fjórða kafla er fjallað um tekjuöflun ríkissjóðs (A1-hluti), helstu skattkerfisbreytingar og skattastyrki.
  • Í fimmta kafla er umfjöllun um gjaldahlið frumvarpsins (A1-hluti) þar sem m.a. er greint frá meginbreytingum á útgjaldahlið fyrir næsta fjárlagaár ásamt verðlagsforsendum gjaldahliðar.
  • Í sjötta kafla er fjallað um fjárreiður ríkisaðila í A2- og A3-hluta og gerð grein fyrir flokkun ríkisaðila, áætlanir A2-hluta ríkisaðila, áætlanir A3-hluta ríkisaðila og helstu lykilstærðir í fjárreiðum þeirra.
  • Í sjöunda kafla er fjallað um samstæðuyfirlit A-hluta í heild ásamt rekstraryfirliti A-hluta í heild fyrir árin 2020–2023.
  • Í áttunda kafla er fjallað um fjárreiður ríkisaðila í B-hluta og gerð grein fyrir áætlun um rekstrarafkomu, arðgreiðslur, fjárfestingar, lántökur og lánveitingar.
  • Í níunda kafla er umfjöllun um efnahag, lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.
  • Í tíunda kafla eru skýringar á heimildum í frumvarpinu til samningsgerðar og fjár­ráðstafana.
  • Í ellefta kafla er gerð grein fyrir áhættuskuldbindingum sem geta varðað fjárhag ríkissjóðs.
  • Í tólfta kafla er yfirlit yfir lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að áætlanir um gjöld og öflun tekna, sem fram koma í frumvarpinu, nái fram að ganga.
  • Þar á eftir eru birtar greinargerðir ráðuneyta þar sem fjallað er um skiptingu fjárheimilda eftir málefnasviðum og málaflokkum (A1-hluti), breytingar fjárheimilda fyrir næsta fjárlagaár og helstu aðgerðir málaflokka fyrir næsta ár.
  • Loks er í viðauka fjallað um reikningshaldslega framsetningu ríkisfjármálanna, auk þess sem helstu tölulegu niðurstöður frumvarpsins eru settar fram í sérstökum töfluviðauka.

Innihald fylgirits með fjárlagafrumvarpi

Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal leggja fram fylgirit með frumvarpi til fjárlaga sem sýnir sundurliðun á tekjum ríkissjóðs og skiptingu á fjárheimildum til málaflokka í fjár­veitingar til ríkisaðila í A1-hluta, annarra verkefna og í varasjóði málaflokka. Fylgirit fjárlaga er ekki eiginlegur hluti af sjálfum fjárlögunum heldur til nánari útskýringar á þeim. Í fyrsta sinn eftir gildistöku laganna verður fylgiritið ekki prentað heldur verður það þess í stað birt með stafrænum hætti á vef Stjórnarráðsins.

Efni fylgiritsins er sem hér segir:

  • Nánari sundurliðun á tekjuáætlun fjárlaga í 1. gr.
  • Sundurliðun fjárveitinga eftir hagrænni skiptingu.
  • Sundurliðun fjárveitinga eftir ráðuneytum og málaflokkum.
  • Yfirlit fjárveitinga eftir stofnunum og verkefnum.
  • Forsendur fjárveitinga samkvæmt reiknilíkönum.
  • Yfirlit yfir skuldbindandi þjónustu- og styrktarsamninga.

Áréttað skal að í fylgiriti eru birtar áætlanir um fjárveitingar til stofnana og verkefna til næstu tveggja ára eftir fjárlagaárið sem eru ekki skuldbindandi fyrir Alþingi þar sem fjárlög gilda einungis til eins árs í senn.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum