Hoppa yfir valmynd

Leiðin til sjálfstæðis

Þjóðfundurinn 1851Fyrsta skref til sjálfstjórnar Íslendinga var þjóðkjörið þing, Alþingi, sem kom fyrst saman 1845.Undir forystu þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar mótaði Alþingi kröfur um frekara sjálfstæði landsins, sem að nokkru fékkst framgengt með stjórnarskránni 1874. Eftir það hafði Alþingi löggjafarvald og réð fjárveitingum úr sjóði landsins.

Danska ríkisstjórnin var eftir sem áður stjórn Íslands. Um ráðherravaldið í íslenskum málum snerist næsti þáttur sjálfstæðisbaráttunnar sem leiddi til heimastjórnar 1904. Jafnframt komst á þingræði á Íslandi, sem hefur síðan verið hornsteinn að stjórnarfari landsins. Til að flytja raunverulegt ákvörðunarvald úr dönskum höndum í íslenskar var stærsta skrefið stigið 1904.

Eitt af hlutverkum heimastjórnarinnar var að fylgja eftir við Dani vaxandi sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Samningar náðust 1918 um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku. Ísland var orðið ríki út af fyrir sig, konungsríkið Ísland , og hafði samningsbundinn rétt til að segja upp sambandinu við Danmörku að aldarfjórðungi liðnum.

Fullveldið 1918 var stærsta formlega skrefið til sjálfstæðis landsins. Því var fylgt eftir 1944 með því að slíta sambandinu við Danmörku og stofna sjálfstætt lýðveldi . Það var gert á Þingvöllum á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar 17. júní. Hundrað árum áður bjuggu Íslendingar við einveldi erlends konungs. Nú nutu þeir óskoraðs sjálfstæðis í eigin þjóðríki.

Jón Sigurðsson og stjórnarskráin 

Jón SigurðssonFram á 19. öld réð Danakonungur ríkjum sem einvaldur, jafnt á Íslandi sem í Danmörku sjálfri, þótt ráðgjafar önnuðust landsstjórnina undir handarjaðri hans. En smám saman ruddu sér til rúms nýjar hugmyndir um pólitísk réttindi þegnanna og hlutdeild kjörinna fulltrúa í stjórn ríkisins. Íslendingar hlutu þá að eiga sinn rétt ekki síður en Danir. Spurningin var hvort þeir ættu að njóta hans sem hverjir aðrir þegnar konungsríkisins eða sem sérstök þjóð í sínu eigin landi.

Fyrstu viðurkenninguna á þjóðlegum rétti sínum fengu Íslendingar með stofnun Alþingis í Reykjavík 1845. Þá var einveldi enn við lýði og þingið aðeins ráðgefandi, eins og önnur fulltrúaþing í danska ríkinu. Danskir þingmenn vissu flestir lítið um aðstæður á Íslandi, og því þótti stjórninni gagnlegra að ráðgast um málefni landsins við þess eigið þing.

Einveldisstjórn var æ meir úr takti við tímann, og 1848 sá Danakonungur sig til neyddan að afsala sér einveldinu. Við tók þingbundin konungsstjórn þar sem æðstu völd skiptust milli þjóðkjörins löggjafarþings og ríkisstjórnarinnar sem fór með vald konungs í umboði hans. Héðan af beitti konungur persónulegu valdi sínu umfram allt með því að velja forsætisráðherra til stjórnarmyndunar, og báru ráðherrar síðan ábyrgð á stjórn ríkisins.

Í stjórnarráðinu í Kaupmannahöfn heyrðu málefni Íslands lengst af undir sérstaka skrifstofu í dómsmálaráðuneytinu. Erfiðara var að finna Íslandi stað gagnvart danska þinginu sem nú tók við löggjafar- og fjárveitingarvaldi í ríkinu. Íslendingum stóð til boða að kjósa fulltrúa á ríkisþingið og njóta þannig jafnréttis við aðra þegna ríkisins. En þeir fundu til sín sem sérstakrar þjóðar í sínu eigin landi og gátu ekki sætt sig við að eiga öll sín mál undir kjörnu þingi annarrar þjóðar, hvort sem þeir ættu þar fáein sæti eða ekki.

Stúdentar í KaupmannahöfnÍslenskir menntamenn, ekki síst ungir háskólamenn í Kaupmannahöfn, voru virkastir talsmenn þjóðlegra réttinda. Einn þeirra, Jón Sigurðsson (1811–1879), embættislaus fræðimaður í Kaupmannahöfn og þingmaður frá upphafi Alþingis 1845, var sá sem mest mótaði málstað Íslands gagnvart Dönum. Á efri árum var hann orðinn sjálfkjörinn leiðtogi sem þjóðernissinnaðir Íslendingar fylktu sér um, og hefur æ síðan verið heiðraður sem þjóðhetja. Afmælisdagur hans, 17. júní, var valinn til að stofna lýðveldi á Íslandi 1944.

Eftir afnám einveldis var kjörið sérstakt íslenskt þing 1851, Þjóðfundurinn. Þar fylkti Jón Sigurðsson þorra fulltrúa um skýrar kröfur: Ísland skyldi lúta því sem eftir var af valdi konungs, en fá sjálfstjórn um allt það sem færðist á vald kjósenda og kjörinna stjórnmálamanna. Danskir kjósendur ættu ekki að ráða yfir Íslandi fremur en íslenskir yfir Danmörku. Þessi krafa um persónusamband var leiðarljós Íslendinga allt til 1918, og fólst í henni því róttækari sjálfstæðiskrafa sem minna var eftir af persónulegu valdi konungs.

Danir tóku kröfum Þjóðfundarins víðs fjarri. Í 20 ár stóð Alþingi, undir forystu Jóns Sigurðssonar, í stappi við dönsku stjórnina, sem smám saman teygði sig lengra til málamiðlunar. Fullt samkomulag náðist þó ekki, heldur hjuggu Danir á síðustu hnútana með einhliða ákvörðunum. Danska þingið setti stöðulögin 1871 sem afmörkuðu sérmál Íslands frá sameiginlegum málum ríkisheildarinnar og kváðu á um fjárframlag Danmerkur til íslenskra sérmála. Þessari löggjöf mótmæltu Íslendingar vegna þess hvernig að henni var staðið, þ.e. sem danskri lagasetningu án aðildar Alþingis. Stöðulögunum fylgdi sérstök stjórnarskrá fyrir Ísland 1874, sett einhliða af dönsku stjórninni í nafni konungs. Að þessu sinni hafði Alþingi sjálft stungið upp á þessari aðferð – sem undantekningu í tilefni af þjóðhátíðinni 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar.

Vilhjálmur FinsenStjórnarskráin kvað á um hvernig stjórna skyldi sérmálum Íslands. Þar fékk Alþingi nú bæði löggjafar- og fjárveitingarvald, en konungur valdi ráðherra. Í raun varð lítil breyting á ráðherravaldinu. Þótt íslenska stjórnardeildin í Kaupmannahöfn yrði að sjálfstæðu ráðuneyti fyrir Ísland, var það áfram haft undir stjórn dómsmálaráðherrans, hver sem hann var og hvort sem hann kærði sig sérstaklega um íslensk málefni. Löggjafarvald Alþingis var líka þeirri takmörkun háð að konungur var ekki skyldugur til að staðfesta lög sem þingið samþykkti, heldur gat ráðherra í nafni konungs synjað þeim staðfestingar – og gerði það iðulega.

Æðsti maður íslenska stjórnkerfisins var samkvæmt stöðulögum og stjórnarskrá landshöfðinginn í Reykjavík. Við hann er kennt það tímabil sem stjórnarskráin gilti óbreytt, þ.e. landshöfðingjatíminn 1874–1904. Landshöfðingi var undir húsbóndavaldi ráðherrans í Kaupmannahöfn en óháður vilja Alþingis. Hann sat á þingi sem fulltrúi ráðherra, lagði þar fram stjórnarfrumvörp og tók virkan þátt í meðferð mála, en félli honum ekki afgreiðsla Alþingis var honum frjálst að leggjast gegn henni og mæla með því við ráðherra að konungur synjaði staðfestingar á lögum.

Valtýskan og heimastjórnin

Valtýr GuðmundssonFyrsta áratug landshöfðingjatímans snerust íslensk stjórnmál mest um hvernig beita skyldi hinu aukna valdi Alþingis. Síðan hófst ný 20 ára lota í sjálfstæðisbaráttunni, sem nú snerist um að fá ráðherravaldið í innlendar hendur. Danir voru um skeið mjög frábitnir hugmyndum Íslendinga, líkt og á árunum eftir þjóðfundinn, en með tímanum var farið að leita málamiðlunar sem báðir gætu unað.

Stjórnarskráin sagði ekkert um það að Íslandsmál ættu að vera aukaverkefni eins af dönsku ráðherrunum. Íslendingar höfðu í upphafi vonast eftir sérstökum Íslandsráðherra. Og þá var ekkert á móti því að ráðherraembættinu gegndi íslenskur maður, sem væntanlega ætti hægara með það en danskur að starfa með Alþingi að framfaramálum landsins. Slík ráðherraskipun væri engin fullnaðarlausn frá sjónarmiði Íslendinga, en gæti þó gert sitt gagn sem næsta skref Íslands til aukinnar sjálfstjórnar.

Á þeim grundvelli fór Valtýr Guðmundsson, ungur norrænufræðingur og háskólakennari í Kaupmannahöfn, sem sat í fyrsta sinn á Alþingi 1894, að semja við danska ráðamenn. Hugsun hans var að höggva á hnút sjálfstjórnarþrætunnar og fá athafnasama stjórn til að drífa áfram hagnýt mál. Brátt mótaðist tilboð stjórnarinnar, sem væntanlega stefndi að því að Valtýr yrði sjálfur Íslandsráðherra í dönsku stjórninni. Fyrst yrði þó að koma fram ákveðnum stjórnarskrárbreytingum sem strönduðu naumlega á Alþingi bæði 1897 og 1899.

Hér var skyndilega orðið meira í húfi en áður í íslenskum stjórnmálum, þar sem tekist var á um sjálft ráðherravaldið. Að sama skapi óx tilhneiging áhrifamanna til að skipa sér í andstæðar fylkingar: valtýinga og „andvaltýinga“. Í kosningum árið 1900 skiptust frambjóðendur allskýrt í flokka, andstæðingar Valtýs undir nafninu Heimastjórnarflokkur. Féllust þeir nú á að semja við stjórnina um sérstakt íslenskt ráðherradæmi, aðeins með því skilyrði að íslenskur ráðherra sæti ekki í Kaupmannahöfn sem hluti af dönsku ríkisstjórninni, heldur í Reykjavík. Valtýingar litu á þetta sem yfirboð, gagnslaust af því að það væri óaðgengilegt fyrir Dani.

Christianborg í KaupmannahöfnÞegar kom að þingi 1901 virtust flokkarnir nákvæmlega jafnsterkir, og var því óvíst um afdrif valtýskunnar á þingi. Óvíst var líka um framvinduna í Danmörku þar sem stjórnin hafði þverrandi styrk í báðum þingdeildum og liði varla á löngu áður en konungur yrði að sætta sig við stjórnarmyndun eftir vilja þingsins. Þá var ekki að vita hvort hin nýja stjórn liti eins á málefni Íslands og ráðamennirnir sem Valtýr hafði samið við.

Vegna forfalla eins heimastjórnarþingmanns, og þeirrar reglu að þingforsetar greiddu ekki atkvæði, tókst valtýingum að gera heimastjórnarmenn að forsetum beggja deilda og afgreiða stjórnarskrárbreytingu.

Áður en þingi lauk fréttist að stjórnarskipti væru orðin í Kaupmannahöfn og Vinstriflokkurinn kominn til valda. Við þessa frétt kom hik á þingheim í Reykjavík. Einn valtýingur gekk til liðs við Heimastjórnarflokkinn sem þar með var í meirihluta á þingi, en um seinan til að stöðva stjórnarskrárfrumvarpið. 

Alberti ÍslandsráðherraValtýr hélt nú á fund hins nýja Íslandsráðherra í Kaupmannahöfn, sem Alberti hét, og gerði tilkall til ráðherraembættis þar eð Alþingi hefði samþykkt tilboð Dana. Heimastjórnarmenn gerðu einnig út sendiboða að tala máli sínu við Alberti. Til fararinnar valdist Hannes Hafstein. „Hannes drap mig með glæsileikanum“ var síðar haft eftir Valtý. Hitt mun þó hafa ráðið úrslitum að Hannes talaði fyrir munn meirihluta Alþingis.

Þegar Alþingi hafði samþykkt stjórnarskrárbreytingu bar að rjúfa þing, og tók breytingin því aðeins gildi að nýkjörið þing samþykkti hana óbreytta. Fyrir þingrofskosningar 1902 tilkynnti Alberti að aukaþing fengi að ráða hvort það samþykkti stjórnarskrárbreytinguna óbreytta eða með þeirri breytingu einni að ráðherrann yrði íslenskur embættismaður en ekki danskur, hefði stjórnarráð sitt í Reykjavík, og færi aðeins til Kaupmannahafnar þegar þyrfti vegna samskiptanna við konung.

Þetta boð vildu báðir flokkar þiggja, og var það samþykkt nær einróma á aukaþingi 1902. Bar þá enn að rjúfa þing og kjósa að nýju, og urðu úrslitin drjúgur meirihluti Heimastjórnarflokks.

Stjórnarskrárbreyting var nú samþykkt til fullnustu og kom til framkvæmda 1. febrúar 1904. Fyrir þann tíma þyrfti konungur – í raun Alberti – að skipa fyrsta íslenska ráðherrann. Við val hans hlaut þingræðisstjórnin danska að fara að vilja meirihlutans á Alþingi, þ.e. heimastjórnarmanna. Í þinglok sendu þeir Alberti skrá um þingmenn flokksins með þeirri ósk að ráðherrann yrði úr þeirra röðum eða annar „sem er í fullu samræmi við flokkinn“. Þessi hógværa málaleitun tók mið af því að Vinstriflokkurinn danski hafði ekki tilnefnt forsætisráðherra 1901 heldur valdi konungur hann, og það ekki úr hópi þingmanna heldur stuðningsmann Vinstriflokksins utan þings.

Alberti ákvað að velja Hannes Hafstein. Hann mun hafa unnið traust og virðingu Dana í sendiferðinni 1901, en Alberti hafði líka fengið upplýsingar um að hann hefði mestan stuðning heimastjórnarmanna á Alþingi, og það hefur verið veigamesta röksemdin í augum hins danska þingræðisráðherra.

Fullveldi og lýðveldi

Heimastjórnin var í raun stærsta skrefið á braut Íslands til sjálfstæðis. Aldrei var svo mikið af raunverulegu ákvörðunarvaldi flutt úr dönskum höndum í íslenskar.

Þrátt fyrir þessa stjórnarbót var staða Íslands í danska konungsríkinu enn sú sem ákveðin var með stöðulögunum 1871, og vantaði mikið á að hún fullnægði hugmyndum Íslendinga um þjóðlegan rétt sinn. Í augum Dana voru stöðulögin líka arfur liðins tíma sem illa ætti við á 20. öld. Það var því vilji beggja aðila að í stað stöðulaganna kæmi samningur, gerður, samþykktur og lögtekinn af báðum þjóðunum á jafnréttisgrundvelli, sem kvæði á um sjálfstjórn Íslands og stöðu þess gagnvart Danmörku og danska konungsríkinu.

Vandinn var hver staða Íslands ætti að vera og hve víðtæka sjálfstjórn það ætti að fá.

Um það var rætt óformlega, fyrst milli Hannesar Hafstein og Friðriks konungs VIII, síðan í Danmerkurferð alþingismanna 1906 (þingmannaförinni), og heimsókn danskra ráðamanna til Íslands 1907 (konungskomunni). Samninganefnd, skipuð í Íslandsheimsókn konungs 1907, lagði fram tillögu, uppkastið svonefnda, sem Íslendingar tókust á um í alþingiskosningum 1908. Bæði Hannes Hafstein og Valtýr Guðmundsson studdu uppkastið, en áhrifamesti gagnrýnandi þess var Björn Jónsson ritstjóri Ísafoldar, og tók hann við ráðherraembætti 1909 eftir stórsigur í kosningunum.

Uppkastið forsíðan á ÍsafoldDjarft var af Íslendingum að hafna uppkastinu, því að meiri sjálfstjórn Íslands kom þá ekki til greina að mati Dana, enda voru smáþjóðir yfirleitt ekki sjálfstæðar á þeim árum. En dirfskan kom ekki að sök, því að samningsstaða Íslendinga átti brátt eftir að styrkjast.

Samningar landanna voru í sjálfheldu um skeið, og setti það svip á íslensk stjórnmál með tíðum stjórnarskiptum og klofningi flokka.

Heimsstyrjöldin fyrri 1914–1918 raskaði mörgu í verslun og atvinnulífi Íslendinga. En henni fylgdu ný viðhorf til sjálfsákvörðunarréttar þjóða sem bættu stöðu Íslands í sjálfstæðisbaráttunni. Hún færði Íslendingum líka aukið sjálfstæði í raun, því að Bretar, sem í krafti flotavalds gátu ráðið því sem þeim þótti þurfa um verslun Íslands í stríðinu, vildu fremur semja beint við Íslendinga en við Dani, sem að lögum réðu fyrir utanríkismálum Íslands.

Framan við Stjórnarráðshúsið Samningar náðust 1918 um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku. Sambandslagasamningurinn var lögtekinn í báðum löndum og tók gildi 1. desember 1918. Ísland var nú orðið ríki út af fyrir sig, konungsríkið Ísland, og hafði samningsbundinn rétt til að segja upp sambandinu við Danmörku að 25 árum liðnum. 

Fullveldið 1918 var stærsta formlega skrefið til sjálfstæðis landsins. Því var fylgt eftir 1944 með því að slíta sambandinu við Danmörku og stofna sjálfstætt lýðveldi. Það var gert á Þingvöllum á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar 17. júní. Hundrað árum áður bjuggu Íslendingar við einveldi erlends konungs. Nú nutu þeir óskoraðs sjálfstæðis í eigin þjóðríki. 

Á hinum skamma tíma heimastjórnar hafði íslenskt þjóðfélag tekið undraskjótum þroska. Takmörkuð sjálfstjórn fullnægði ekki lengi sjálfstrausti og þjóðernismetnaði landsmanna, og tímabilinu lauk með sambandslagasamningnum 1918, sem breytti Íslandi í fullvalda ríki í uppsegjanlegum tengslum við Danmörku. Heimastjórnin hafði brúað bilið frá erlendum yfirráðum til fulls sjálfstæðis Íslands.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum