Hoppa yfir valmynd

Þróunarsamvinna Íslands og Malaví

Ísland og Malaví hafa starfað saman á sviði þróunarsamvinnu frá árinu 1989, fyrst á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ, ICEIDA) frá 1989-2016 en síðar undir utanríkisráðuneytinu þegar ÞSSÍ var færð undir ráðuneytið. Sendiráð Íslands í Lilongwe, höfuðborg Malaví, opnaði formlega árið 2004. Frá upphafi og allt til ársins 2011 starfaði ÞSSÍ í Monkey Bay í Mangochi-héraði. Til að byrja með var megináhersla lögð á fiskimál við Malavívatn. Þegar samstarfið þróaðist var einnig hugað að fleiri sviðum, með áherslu á heilbrigðisþjónustu, menntun, vatn og hreinlætisaðstöðu.

Frá 2012 hefur verið lögð áhersla á héraðsnálgun í Malaví en það ár var undirritaður samstarfssamningur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi-héraði um eflingu grunnþjónustu í héraðinu. Meginþungi starfsins felst í þróunarsamvinnuverkefnum með héraðsstjórninni í Mangochi en héraðið er það næstfjölmennasta í Malaví með um 1,2 milljónir íbúa. Samtal er í gangi við stjórnvöld í Malaví um að útvíkka héraðsþróunarverkefni til fleiri héraða í landinu. Lykilþáttur í nálgun Íslands er að bæta stjórnsýslu og byggja upp getu héraðsstjórnvalda til að veita íbúum grunnþjónustu. Ásamt því að vinna á héraðsstigi starfar Ísland einnig með stofnunum Sameinuðu þjóðanna og félagasamtökum í Mangochi og á landsvísu.

Megináhersla í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er að stuðla að bættum lífskjörum í samstarfslöndunum með því að styðja við áætlanir og viðleitni stjórnvalda í samstarfslöndunum um að draga úr fátækt og bæta félagsleg og efnahagsleg lífsskilyrði á þeim svæðum sem Ísland styður. Þróunarsamvinna Íslands í Malaví er í takt við áherslur Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu sem byggir á stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu, stefnumiðum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu og landsáætlun Íslands í Malaví.

Verkefnastoðin í Mangochi

Þróunarsamvinna Íslands í Malaví er byggð á héraðsnálgun. Nálgunin byggir á áherslum landanna í áætlunum og stefnum og eru verkefnaskjöl og verkþættir árangursmiðaðir. Framkvæmd verkefnastoðarinnar er í höndum héraðsyfirvalda. Þessi nálgun styrkir kunnáttu og getu héraðsyfirvalda og er mikilvægt framlag til að efla valddreifingu í landinu. Niðurstöður óháðrar úttektar sýna jákvæð heildræn áhrif aðgerða og að eignarhald héraðsyfirvalda og heimamanna stuðlar að sjálfbærni samvinnunnar og fjárfestinga Íslands í héraðinu.

Verkefnastoðin í Mangochi héraði, Mangochi Basic Services Programme I, hófst árið 2012 þegar fyrsti fasi þess var samþykktur fram til 2016. Annar áfangi verkefnastoðarinnar Mangochi Basic Services Programme II hófst árið 2017 og gilti til loka júní 2021. Ísland framlengdi stuðning sinn fram til loka mars 2023.

Helsti samstarfs- og framkvæmdaaðili verkefnastoðarinnar er héraðsstjórn Mangochi-héraðs. Verkefnastoðin er liður í aðgerðaáætlun Malaví og framkvæmd innan ramma tvíhliða samkomulags ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Malaví á sviði þróunarsamvinnu. Samstarf við annað hérað í Malaví er í undirbúningi og stefnt er að framkvæmd hefjist á árinu 2022.

Helstu áherslur í þróunarsamvinnu Íslands í Mangochi eru:

  • uppbygging heilbrigðisinnviða og lýðheilsu með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í sveitum;
  • uppbygging grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið;
  • bætt aðgengi að hreinu vatni; 
  • bætt þekking á hreinlætismálum og salernisaðstöðu;
  • stuðningur við atvinnutækifæri og efnahagslega valdeflingu kvenna og ungmenna;
  • stuðningur við héraðsskrifstofu með áherslu á deildir fjármála, framkvæmda, útboðs- og innkaupsmála og árangurs og eftirlits.

Verkefnastoðin í Mangochi leggur sitt af mörkum til að Malaví og Íslandi nái eftirfarandi heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

1 Engin fátækt3. Heilsa og vellíðan4. Menntun fyrir alla5. Jafnrétti kynjanna6. Hreint vatn og hreint8. Góð atvinna og hagvöxtur

Þegar kemur að uppbyggingu heilbrigðismála í verkefnastoðinni í Mangochi er sérstök áhersla lögð á á mæðra- og ungbarnaheilsu en mæðradauði í Malaví er mjög hár. Opnun nýrrar fæðingardeildar við héraðssjúkrahúsið í Mangochi-bæ árið 2019 markaði tímamót í starfsemi héraðssjúkrahússins. Á lóð fæðingardeildarinnar er einnig miðstöð ungbarna- og mæðraverndar. Einnig er lögð áhersla á lýðheilsumál og heilsuvernd. Þar gegna heilbrigðisfulltrúar mikilvægu hlutverki sem tengiliðir íbúanna við heilbrigðiskerfið en erfitt er að tryggja íbúum aðgengi að heilbrigðisþjónustu í héraði með rúmlega 1,2 milljón íbúa á 6.000 ferkílómetra svæði.

Heilbrigðisyfirvöld í Mangochi hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á síðasta ári en valið byggist á mælanlegum stöðlum yfirvalda um framfarir. Árangurinn er að miklu leyti þakkaður samstarfi við Ísland.

Árangur í heilbrigðismálum gegnum verkefnastoðina Mangochi frá 2012:

 

Meira en þrjátíu þúsund börn og unglingar hafa notið góðs af heildstæðum stuðningi við starf tólf skóla í Mangochi þar sem megináherslan er að bæta gæði menntunar. Endurbætur á aðbúnaði, nýjar skólastofur, bættur bókakostur og gögn, salerni á skólalóð, hreint vatn, aðstaða fyrir stúlkur á blæðingum ásamt skólamáltíðum fyrir alla draga úr landlægu brottfalli nemenda. Sama á við um kennara sem halda tryggð við skóla sem veita gott starfsumhverfi en einnig er lögð áhersla á að þjálfa og endurmennta kennara og veita þeim húsnæði nálægt vinnustað.

Áhersla er lögð á samstarf við nærsamfélagið og foreldra skólabarna í gegnum sérstakar nefndir til þess að fleiri börn geti sótt skóla. Stuðningur er einnig við yngsta aldursstigið og hafa m.a. verið byggðir tveir leikskólar á svæði tveggja grunnskólanna. Við tíu af tólf skólum er starfrækt samstarf við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna um heimaræktaðar skólamáltíðir. Árangur lætur ekki á sér standa því hlutfall barna sem sækir skóla hefur hækkað og er minna brottfall stúlkna sérstakt ánægjuefni.

Árangur í menntamálum í gegnum verkefnastoðina í Mangochi frá 2012:

 

Í vatns- og hreinlætishluta verkefnastoðarinnar hefur valdefling og stuðningur við héraðsstjórnvöld og samfélög í sveitum Mangochi leitt til bættrar vitundar fólks um hreinlæti og mikilvægi salerna og aðstöðu til handþvottar. Lögð er áhersla á að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni með uppsetningu vatnspósta víðsvegar í sveitum Mangochi.

Fjögur sveitarfélög í Mangochi hafa fengið vottun stjórnvalda fyrir að sjá öllum heimilum fyrir drykkjarhæfu vatni og viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu. Í kjölfarið hefur stórlega dregið úr hvers kyns pestum, ekkert nýtt tilfelli kóleru hefur verið skráð frá árinu 2012 og færri börn þjást af niðurgangspestum en áður. Með bættri hreinlætisaðstöðu hefur einnig verið hægt að sporna gegn útbreiðslu COVID-19.

Árangur í vatns- og hreinlætismálum í gegnum verkefnastoðina í Mangochi frá árinu 2012:

 

Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna eru einn af hornsteinum þróunarsamvinnu Íslands. Í gegnum verkefnastoðina í Mangochi er stutt beint við kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og ungmenna í héraðinu og á öllum sviðum verkefnastoðarinnar er jafnrétti haft að leiðarljósi.

Þannig hefur samþætting kynjasjónarmiða í verkefnum verið í brennidepli á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, og almennt í stuðningi við heilbrigðismálin sem og í menntaþættinum til að koma í veg fyrir brottfall, sérstaklega unglingsstúlkna, úr skóla. Þá hafa umbætur í vatns- og hreinlætisaðstöðu veruleg áhrif á heilsu, aðbúnað og vinnuálag kvenna, enda eru það einkum konur og stúlkur sem annast vatnsöflun. Með nýjum vatnsbólum er aðgangur að hreinu vatni tryggður og vegalengd til vatnsbóla stytt, með tilheyrandi tímasparnaði fyrir konur og stúlkur, minna líkamlegu álagi og meira öryggi

Sett hefur verið af stað sérstakt tilraunaverkefni í valdeflingu kvenna og ungmenna undir verkefnastoðinni í Mangochi. Veitt er þjálfun í tækni og frumkvöðlafræðum sem og framleiðslu og viðskiptakunnáttu ásamt því að styðja við aukið aðgengi að mörkuðum, fjármálaþjónustu og efnislegum stuðningi.

Árangur í jafnréttismálum í gegnum verkefnastoðina í Mangochi:

 

Þar sem öll verkefnastoðin í Mangochi er framkvæmd af héraðstjórninni hefur verið lögð áhersla á bætta stjórnsýslu í héraðinu

Héraðsstjórnin í Mangochi er í 10. sæti af 28 í árlegu gæðamati sveitarstjórnarráðuneytis Malaví á stjórnunarháttum og ferlum héraða í Malaví. Árið 2016 var héraðsstjórnin í 27. sæti af 28 en frá árinu 2017 hefur verkefnastoðin stutt fjármála-, eftirlits-, innkaupa- og framkvæmdasvið héraðsins ásamt áætlanagerð sem litið er til í gæðamatinu. Mangochi er nú fyrirmynd í gerð stefnumótandi áætlana á ýmsum sviðum en heilbrigðisskrifstofa Mangochi héraðs var einnig útnefnd besta skrifstofa heilbrigðismála í landinu árið 2019 og 2020.

 

Sérstakur COVID-19 stuðningur til héraðstjórnarinnar

Ísland veitti neyðarstyrki til Malaví til að bregðast við afleiðingum COVID-19 en alls nemur sá stuðningur um 125 milljónum króna frá því heimsfaraldurinn skall á. Ísland veitti Mangochi héraði 45 milljóna króna styrk um mitt ár 2020 en framkvæmd fór að mestu fram á fyrstu mánuðum 2021. Meðal verkefna var að styrkja heilbrigðisstarfsfólk í bólusetningarherferð og tókst að bólusetja rúmlega 6200 manns í dreifbýli Mangochi á aðeins þremur dögum. Einnig fengu 500 heilbrigðisstarfsmenn þjálfun og yfir 14 þúsund börnum og kennurum var tryggt aðgengi að hreinu vatni og handþvottaaðstöðu í þremur grunnskólum í héraðinu. Frá upphafi faraldursins hefur tekist að koma sóttvarnarskilaboðum til rúmlega 633 þúsund manns í fjórum sveitarfélögum í héraðinu með aðstoð frá Íslandi.

Samstarf við Alþjóðastofnanir

Lögð er áhersla á að nýta sérþekkingu ýmissa alþjóðastofnanna í Malaví til að styðja enn frekar við framþróun í Mangochi-héraði.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna 
(World Food Programme - WFP)

Samstarfsáætlun Íslands og WFP um heimaræktaðar skólamáltíðir fyrir tímabilið 2021-2024 mun ná til 12,742 nemenda í 10 grunnskólum og 1500 bænda í Mangochi héraði.

Með heimaræktuðum skólamáltíðum fá börn næringarríka máltíð sem unnin er úr árstíðabundinni uppskeru og bændur hafa aðgang að öruggum markaði fyrir vörur sínar sem meðal annars eykur fjölbreytni í ræktun og skapar atvinnuöryggi. WFP veitir bændum einnig þjálfun og styður við nýsköpun í framleiðsluaðferðum. Skólamáltíðirnar sjálfar hafa umbreytandi áhrif á líf barna í fátækum samfélögum og eru áhrifarík leið í þróunarsamvinnu. Heimaræktaðar skólamáltíðir auka sjálfbærni og hafa ekki einungis jákvæð áhrif á skólagöngu, nám og næringu barna heldur margföldunaráhrif á þróun í samfélaginu öllu.



COVID-stuðningur við alþjóðastofnanir

Ísland veitti Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) alls 53 milljónir króna til að koma upp COVID-19 skimunar- og greiningaraðstöðu við landamærastöðvar Malaví og á Blantyre flugvelli og reisa sex bráðabirgðaskýli við sjúkrahús sem nýttust sem rannsóknastofur og legudeildir fyrir COVID-19 smitaða. Til viðbótar var sett upp bólusetningarmiðstöð í Dzaleka flóttamannabúðunum en þar dvelja um 50 þúsund flóttamenn. Í samstarfi við Ísland, veitir WFP börnum skólamáltíðir en vegna skólalokana var brugðist við með mánaðarlegu framlagi til foreldra til að tryggja skólabörnum áfram reglulegar máltíðir. Þegar skólar opnuðu aftur í september 2021 var aðgengi að hreinu rennandi vatni bætt til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19.
Ísland studdi aðgerðir UN Women og frjálsra félagasamtaka um 27 milljónir til að uppræta barnahjónabönd, sporna gegn ótímabærum þungunum og berjast gegn kynbundnu ofbeldi sem jókst gríðarlega í kjölfar skólalokana. Á árinu voru t.d. 40 barnungar stúlkur leystar úr hjónabandi og fengu þær stuðning til að hefja skólagöngu að nýju.

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna
(United Nations Population Fund– UNFPA)

Samstarf Íslands og UNFPA leggur áherslu á að styðja og stuðla að framförum í kyn- og frjósemisréttindum kvenna í Mangochi.

Í fyrsta lagi stuðlar verkefnið að aukinni þekkingu á og þjónustu í kringum fjölskylduáætlanir í samfélögum Mangochi og vinnur að því að draga úr ótímabærum þungunum unglingsstúlkna, notkun getnaðarvarna og auka tíma á milli barnsfæðinga

Annar hluti verkefnisins einblínir á að heilbrigðisþjónusta við konur sé bætt egna fæðingarfistils (e. Obstetric fistula). Sett hefur verið upp sérstök skurðstofa á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi þar sem boðið er upp á meðferð gegn fistli. Auk þess er boðið upp á sálrænan stuðning við konur eftir aðgerð og aukin fræðsla veitt í samfélaginu um einkenni, orsakir og afleiðingar fistils.

Þriðji hluti verkefnisins snýr að sporna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum í héraðinu og þá aðallega heimilis- og kynferðisofbeldi. Verkefnið styrkir miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis með það að markmiði að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi gegn stúlkum sé ekki liðið í samfélögunum. Einnig er lögð áhersla á efnahagslega valdeflingu þessara kvenna og stúlkna ásamt þeim konum sem þjást eða hafa þjáðst af fæðingarfistli.



UN WOMEN – Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna

Samstarf Íslands og UN Women leggur áherslu á að sporna gegn kynbundu ofbeldi, barnahjónaböndum og ótímabærum þungunum ásamt því að stuðla að efnagslegri valdeflingu kvenna. Nauðungarhjónaböndum barnungra stúlkna og þungunum unglingsstúlkna, sérstaklega stúlkna yngri en fimmtan ára, hefur fækkað á síðustu árum en þó hafa þessar framfarir stöðvast á tímum Covid-19. Á árinu 2021 styrkti Ísland stofnunina með sérstöku framlagi til að koma í veg fyrir og bregðast við þessum neikvæðu áhrifum faraldursins á stúlkur í Mangochi.

Ísland studdi malavísk stjórnvöld við gerð fyrstu landsáætlunar landsins um ályktun öryggisráð Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Ísland studdi undirbúninginn í gegnum UN Women en landsáætlunin var kynnt í nóvember 2021.

Tvær Rakarastofur (e. Barbershops) voru haldnar í Malaví í nóvember 2018 og voru þær fyrstu rakarastofurnar sem haldnar voru í Afríku. Bæði UN Women og UNFPA hafa stuðst við sérstaka verkfærakistu (Barbershop toolbox) sem notuð er í verkefnum þeirra til að auka þátttöku karla og stráka í að stuðla að jafnrétti kynjanna. Þó að rakarastofurnar séu hugsaðar fyrir karlmenn á árangurinn að beinast að bættu umhverfi fyrir konur og auka samskipti varðandi kynjajafnrétti. Til að ná til fleiri einstaklinga var verkfærakistan þýdd yfir á tungumál Malava, Chichewa, ásamt því að aðlaga verkfærakistuna að menningarlegu samhengi landsins.

 


Energising Development (EnDev)

Samstarfssamningur Íslands og EnDev, verkefnastoð þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (GIZ) snýst um að auka aðgang að orku, efla skilvirkni orku og auka notkun endurnýjanlegrar orku í Mangochi héraði. Mikil áhersla er lögð á að auka eftirspurn og notkun á orkusparandi eldstæðum og sólarrafhlöðum til rafmagnsframleiðslu, bæði til einkanotkunar og í skólum, heilsugæslustöðvum og fyrirtækjum.


Um Malaví

Malaví er í suðausturhluta Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Höfuðborg landsins er Lilongwe og er áætlaður íbúafjöldi landsins um 20 milljónir, sem gerir Malaví eitt þéttbýlasta ríki í Afríku. Malavíska þjóðin er mjög ung, meira en helmingur af íbúafjölda Malaví er yngri en 18 ára og 77% eru yngri en 24 ára. Helsta landfræðilega einkenni landsins er Malaví-vatn sem nær yfir fimmtung landsins en samtals er flatarmál Malaví aðeins stærra en Ísland eða um 120 þúsund ferkílómetrar. Malaví er meðal fátækustu ríkja í heimi en það er í 169. sæti af 191 ríki á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index). Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Malaví er frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði. Tóbaks, te- og bómullarrækt til útflutnings, en maís, kassavarót og hrísgrjón eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

 

2015 Ný fæðingardeild í Mangochi

Í byrjun árs 2016 opnar ný og glæsileg mæðradeild í Mangochibænum í Malaví sem gerbreytir aðstöðu mæðra í héraðinu. Bygging deildarinnar er veigamesti þátturinn í lýðheilsuverkefni sem Íslendingar styðja í samstarfi við héraðsyfirvöld.

2013 - Aðgengi að vatni

Fylgst er með konum úr Mwatakat þorpinu en þær horfa til brjartari tíma því fari allt að vonum styttist fljótlega leiðin fyrir þær að heilnæmu vatni. Það er verið að bora í grennd við þorpið þeirra, stórvirkur bor er kominn niður á 37 metra og fer dýpra í leit að vatni en þessi framkvæmd er hluti af vatns- og hreinlætisverkefninu - að bæta aðgengi íbúa Mangochi héraðs að drykkjarvatni og jafnframt að bæta hreinlætisvenjur.

2013 - Vatn og lífskjör

Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur með héraðsstjórninni í Mangochi í Malaví að því að bæta vatns- og hreinlætismál í héraðinu. Einn hreppur stendur höllum fæti í samanburði við aðra og þar verður lögð áhersla á að bora eftir drykkjarvatni. Í myndbrotinu er rætt við Levi Soko verkefnisfulltrúa ÞSSÍ sem segir árangursríkasta verkefni Íslendinga í Malaví einmitt vera á þessu sviði.

2012 - Mangochi í Malaví

Mangochi hérað er samstarfsvettangur Íslendinga í tvíhliða þróðunarsamvinnu í Malaví. Í þessu kvikmyndabroti er fjallað um Mangochi bæinn sem áður hét Fort Johnston og rifjuð upp tengslin við skoska landkönnuðinn og lækninn David Livingstone. Litið er inn á safninu um Malavívatn.

2012 - Verk að vinna

Menntaverkefni í Mangochi í samstarfi héraðsyfirvalda og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Frá verkefnum í Malaví

Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri ÞSSÍ í Malaví hefur sett saman stutt myndband sem sýnir frá helstu verkefnum stofnunarinnar í Malaví. 

Ítarefni

Síðast uppfært: 12.6.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum