Hoppa yfir valmynd

Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017 - 2019

Rannsóknir og nýsköpun eru veigamikill þáttur í hagþróun. Ný þekking og tækni hefur aukið til muna arðsemi og verðmætasköpun við nýtingu náttúruauðlinda á undanförnum áratugum. Þetta hefur skilað íslensku samfélagi miklum ávinningi og er undirstaða þeirrar auðlegðar sem Ísland býr við í dag. Til að tryggja hagvöxt til framtíðar þarf því einnig að horfa til þess hvernig auka megi fjölbreytni í hagkerfinu, einkum með því að byggja á hugviti og þekkingu. Skapa má ný tækifæri með fjárfestingu í hugverka- og þekkingariðnaði og með aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.


Aðgerð 1

Skilgreindar verði, í víðu samráði og með reglubundnu millibili, meiriháttar samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir og unnið markvisst að því að takast á við þær.

 • Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð
 • Áætluð verklok: september 2018

Staða í mars 2019

Verkefni lokið

Staða í nóvember 2018
Niðurstöður úr opnu samráði Vísinda-og tækniráðs um skilgreiningu á brýnustu samfélagslegu áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir á næstu 10 -50 árum liggja fyrir.  Haldinn var opinn fundur 19. nóvember 2018 og  Í framhaldinu vinna nefndirnar sameiginlega að tillögum um áskoranir fyrir tímabilið 2018-2021 sem lagðar verða fyrir Vísinda- og tækniráð til samþykktar á 35. fundi þess,  23. nóvember 2018.

Staða í maí 2018
Verkefnishópur hefur skilað verkefnisáætlun og hefur fundað reglulega á undanförnum vikum. Verkefnisstjóri hefur verið ráðinn og hefur hann skoðað sambærilega vinnu erlendis. Komin eru tilboð frá tveimur fyrirtækjum um framkvæmd rýnihópavinnu. Áætlað er að verkefninu ljúki í haust.

Staða í mars 2018
Verkefnishópur vísinda- og tækninefnda var stofnaður í janúar sl. Unnið er að verkefnisáætlun og gert er ráð fyrir að tímabundið ráðinn starfsmaður frá mennta- og menningarmálaráðuneyti haldi utan um verkefnið og að því ljúki síðar á árinu.

Staða í nóvember 2017
Verkefnið er ekki hafið.


Aðgerð 2

Auglýst verður markáætlun til þriggja ára til að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvum og tækni.

 • Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð og mennta- og menningarmálaráðuneyti
 • Áætluð verklok: ágúst 2018

Staða í mars 2019

Verkefni lokið og framkvæmd í höndum Rannís.

Staða í nóvember 2018
Ný markáætlun um tungu og tækni hefur verið auglýst hjá Rannís og er umsóknafrestur 9. nóvember 2018. Rannís hefur þar með að fullu tekið við framkvæmd verkefnisins og þegar búið er að vinna úr umsóknum er aðgerðinni lokið af hálfu ráðsins.

Staða í maí 2018
Minnisblað vísinda- og tækninefnda til stjórnar Markáætlunar var afgreitt frá starfsnefndunum ráðsins 10. janúar. Við það fluttist ábyrgðin á framkvæmd verkefnisins yfir til stjórnar Markáætlunar. Fundað var 23. maí með stjórn Máltækniáætlunar og samþykkt var að útbúa sameiginlega auglýsingu um styrkumsóknir. Næsti fundur verður um miðjan júní. Stefnt er að því að auglýsing verði birt fyrir sumarleyfi með umsóknarfresti í september eða október. Stefnt er að úthlutun fyrir áramót.

Staða í mars 2018
Á sameiginlegum fundi vísinda- og tækninefnda í janúar var samþykkt að stjórn markáætlunar og Almannarómur setji á fót faghóp með þremur fulltrúum frá hvorum aðila sem fái það verkefni að útfæra auglýsingu í markáætlun sem byggist á samkeppni.  Faghópurinn hittist í fyrsta skipti þriðjudaginn 20 mars og fór yfir málið og mun í framhaldi ákveða næstu skref.

Staða í nóvember 2017
Auglýsingu var frestað. Unnið verður að málinu með nýjum ráðherra og ný tímalína sett.


Aðgerð 3

Gerð verður áætlun um miðlun vísinda og tækni frá háskólum og rannsóknarstofnunum til almennings, allra skólastiga og stjórnvalda, og henni hrint í framkvæmd.

 • Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð
 • Áætluð verklok: júní 2020

Staða í október 2019

Aðgerðin hefur frestast  og lagt er til að hún verði útfærð nánar í næstu stefnu og aðgerðaáætlun og brotin upp í þætti. Bæði þarf að skýra hverju á að miðla ( niðurstöðum rannsókna, miðlun um Vísinda- og tækniráð) og að hverjum hún á að beinast; skólum, stjórnvöldum, almenningi eða fagfólki. Fyrirsjáanlegt er að nokkur kostnaður hljótist af aðgerðinni.

Staða í júní 2019
Aðgerðin hefur tafist. Verkáætlun mun liggja fyrir haustið 2019.

Staða í mars 2019
Nýjar vísinda- og tækninefndir fjölluðu um aðgerðina á fyrsta fundi sínum í febrúar. Nánari skilgreining og verkáætlun verður samþykkt í vor.

Staða í nóvember 2018
Í aðgerð nr. 1 um skilgreiningu samfélagslegra áskorana fyrir Ísland er miðlunarþáttur. Niðurstaða samfélagslegra áskorana mun liggja fyrir nú í nóvember, og þá verða þrjár áskoranir samþykktar. Framhald miðlunaráætlunar verður ákveðið strax eftir áramót.

Staða í maí 2018
Verkefnið frestast fram á haust. Í aðgerð 1 um samfélagslegar áskoranir er unnið að miðlunarþætti sem er hluti af þessari aðgerð.

Staða í mars 2018
Verkefnið hefst 1. apríl 2018. Áætlun verður tilbúin til framkvæmdar  í júní 2018. Framkvæmd áætlunar verður í beinu framhaldi af því.

Staða í nóvember 2017
Verkefnið er ekki hafið.


Aðgerð 4

Gæði og skilvirkni háskólastarfs verða aukin, meðal annars með því að efla fjármögnun með það að markmiði að hún nái meðaltali OECD árið 2020 og Norðurlanda árið 2025.

 • Ábyrgð: Mennta - og menningarmálaráðuneyti
 • Áætluð verklok: nóvember 2018

Staða í júní 2019

Starfshópur mun m.a. fjalla um grænbók um háskóla (sjá aðgerð 5). Skv. nýrri úttekt OECD sem sýnir tölur fyrir árið  2016 hefur fjármögnun háskóla hækkað í 94% af meðaltali OECD úr 81% árinu áður.

Staða í júní 2019
Unnið er að því að skipa starfshóp og er ætlunin að hann skili tillögum til ráðherra í nóvember 2019.

Staða í mars 2019
Á næstu dögum verður óskað tilnefningum í sjö manna starfshóp þar sem tveir eru tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðherra, tveir af Vísindanefnd, tveir af Samstarfsnefnd háskólastigsins og einn frá Landssambandi íslenskra stúdenta. Er hópnum ætlað að fjalla um skýrslu um endurskoðun á reglum um fjárveitingar til háskóla (aðgerð 5) og leggja fram tillögur að því hvernig fjárveitingar stjórnvalda geti sem best stutt við langtímamarkmið um gæði og árangur í rannsóknum og kennslu. Hópurinn mun skila tillögum til ráðherra í nóvember 2019.

Staða í nóvember 2018
Verið er að leggja lokahönd á útreikninga um fjárþörf háskólakerfisins miðað við meðaltal OECD ríkjanna.

Staða í maí 2018
Fjögurra manna starfshópur með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofu vinnur að því að meta fjárþörf háskólanna miðað við markmið um að fjármagna háskóla í takt við meðaltal OECD/Norðurlanda. Áætlað er að vinnunni ljúki sumarið 2018.

Staða í mars 2018
Um fjármögnun háskóla er getið í stjórnarsáttmála. Stefnt er að fjármögnun í takt við meðaltal OECD á árinu 2020. Þriggja manna starfshópur um útreikninga á meðaltalinu verður stofnaður á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis í apríl 2018, með aðkomu fjármálaráðuneytis og Hagstofu. Stofnaður verður hópur um gæði og skilvirkni háskóla sumarið 2018 og mun vinna hans tengjast aðgerð 5.

Staða í nóvember 2017
Aðgerð 4 og 5 tengjast. Aðgerðirnar verða unnar samhliða en aðgerð 5 hefst á undan. Aðgerð 4 hefst undir í byrjun árs 2018.


Aðgerð 5

Grænbók um háskóla, sem er grunnur að endurskoðun líkansins er kynnt á fundi ráðsins í október 2019. Starfshópi sem skipaður er skv. aðgerð nr.4  verður falið að leggja fram tillögu að reiknilíkani eftir samráð.

 • Ábyrgð: Mennta - og menningarmálaráðuneyti
 • Áætluð verklok: október 2019

Staða í október 2019

Grænbók liggur fyrir og verður fjallað um hana í starfshópi sem skipaður verður samkvæmt aðgerð 4. Mun starfshópurinn skipuleggja samráð um breytingar á reiknilíkani og leggja fram tillögur til ráðherra fyrir áramót 2019/2020.

Staða í júní 2019
Grænbók liggur fyrir og verður fjallað um hana í starfshópi sem skipaður verður samkvæmt aðgerð 4. Mun starfshópurinn skipuleggja samráð um breytingar á reiknilíkani og leggja fram tillögur til ráðherra fyrir áramót 2019/2020.

Staða í mars 2019
Unnið er að því að ljúka skýrslu um reiknilíkan og mun hún liggja fyrir í apríl 2019. Hún verður grunnur í vinnu starfshóps um gæði og skilvirkni háskóla (sjá aðgerð 4).

Staða í nóvember 2018
Stefnt er að því að áfangaskýrsla verði nýtt til samráðs fyrri hluta árs 2019.

Staða í maí 2018
Unnið er að áfangaskýrslu sem mun innihalda tillögur og verður henni lokið sumarið 2018. Mun skýrslan nýtast til samráðs og samtals við háskóla og stúdenta haustið 2018.

Staða í mars 2018
Í febrúar 2018  fór undirbúningshópur í kynnisferð til hollenska menntamálaráðuneytisins, en hafði áður heimsótt önnur Norðurlönd í lok árs 2017. Áfangaskýrsla með fyrstu tillögum verður kynnt vorið 2018.

Staða í nóvember 2017
Hópur fór í kynnisferð til Norðurlandanna ( Noregs, Svíþjóðar og Finnlands í október sl.). Farið verður til Danmerkur 19. desember. Unnið er að samantekt um þá ferð sem verður tilbúin í febrúar 2018. Haldinn verður fundur með háskólunum í febrúar þar sem staðan verður kynnt og leitað samráðs. Á grundvelli skýrslunnar og fundarins verður unnin nákvæm verkáætlun um framhaldið. Áætluð lok verkefnis: 1.1.2019. Nýtt reiknilíkan innleitt í þrepum fyrir fjárlagaárin 2020 - 2022.


Aðgerð 6

Vísinda- og tækniráð leggur mat á niðurstöður sérfræðingahóps um mannafla- og færnispár á íslenskum vinnumarkaði.

 • Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð
 • Áætluð verklok: vor 2018

Staða í mars 2019

Verkefni lauk í sept 2018.

Staða í nóvember 2018
Aðgerðinni er lokið af hálfu ráðsins með því að tillögur skýrslu sérfræðingahóps voru kynntar og ræddar á fundi ráðsins 28. sept 2018.  Ákveðið var að hafa tillögurnar  til hliðsjónar við mótun nýrrar stefnu ráðsins. Sú vinna hefst í byrjun árs 2019.

Staða í maí 2018
Skýrslunni hefur verið skilað til félags og jafnréttismálaráðherra. Gert er ráð fyrir að hún verði tilbúin til skoðunar hjá nefndum ráðsins í ágúst svo starfsnefndir ráðsins geti lagt mat á hana fyrir fund ráðsins 21. september.

Staða í mars 2018
Rammi skýrslunnar liggur fyrir. Hópurinn sem vinnur hana er  sammála um þær tillögur sem hann vill leggja til. Gert er ráð fyrir að skila tillögum fyrir maí mánuð, svo nefndir ráðsins geti rýnt niðurstöður fyrir júní fund ráðsins.

Staða í nóvember 2017
Hagstofan, Vinnumálastofnun, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands vinna að þróun aðferðafræði við færnigreiningu sem nýtist til þess að greina framboð, eftirspurn og breytingar á störfum og starfssviðum. Slíkt færnigreiningarlíkan ætti að gera það auðveldara að taka ákvarðanir um þróun menntunar og að mæta nýjum áskorunum eða fyrirsjáanlegum vandamálum á vinnumarkaði og í menntakerfinu. Afurðin verður tillaga um aðferðafræði og er stefnt að því að skila henni í lok árs 2017. Vísinda - og tækniráð fjallar um skýrsluna í framhaldi af því, væntanlega á fyrsta fundi sínum á nýju ári.


Aðgerð 7

Gerð verður úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar á Íslandi, mat lagt á áhrif nýlegra lagabreytinga og unnar tillögur um hvernig megi þróa umhverfið áfram í átt að því sem best þekkist í nágrannalöndunum.

 • Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti
 • Áætluð verklok: júní 2019

Staða í október 2019

Skýrsla fjármála - og efnahagsráðuneytis var kynnt starfsnefndum ráðsins í september ásamt því að óskað var eftir athugasemdum og ábendingum. Lokaskýrsla verður lögð fyrir ráðið á fundi þess í nóvember 2019.

Staða í júní 2019
Samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins ásamt tillögum að aðgerðum er í lokadrögum. Fyrirhugað er að leggja samantektina ásamt tillögum fyrir starfsnefndir Vísinda- og tækniráðs í framhaldinu til samráðs og endurskoða hana í haust með hliðsjón af athugasemdum sem berast.

Staða í mars 2019
Frá því aðgerðin var samþykkt hafa orðið töluverðar breytingar á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar sem aðgerðin nær til. Þau úrræði sem samþykkt voru árið 2016 sem tímabundin úrræði hafa ýmist verið framlengd eða gerð varanleg, ásamt því að aukið hefur verið við stuðning við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar síðastliðinn. Mat á umfangi samkvæmt eldri lögum hefur farið fram, greining á samsetningu fyrirtækja stendur yfir ásamt undirbúningi á mati á verkefnum. Eftir er að meta ýmis álitamál, s.s. hvort skerpa eigi á skilyrðum fyrir ívilnunum sem þessum. Í ljósi þeirra aðgerða sem þegar hefur verið gripið til er ekki talin þörf á að skipa starfshóp. Miðað er við að samantekt á skattalegu umhverfi og aðgerðum verði tilbúin í júní.

Staða í nóvember 2018
Töluverð greiningarvinna hefur farið fram hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hafa niðurstöður m.a. verið nýttar við gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Nái það fram að ganga mun skattaívilnun í formi skattafrádráttar vegna hlutabréfakaupa, sem verið hefur í gildi frá miðju ári 2016, verða framlengd um þrjú ár og skilyrði til að nýta sér skattafrádrátt hlutabréfakaupa verða rýmkuð. Einnig verða viðmiðunarfjárhæðir vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar hækkaðar. Þá er fyrirhugað að skipa starfshóp fyrir áramót til að vinna úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar og meta áhrif laga sem innihalda ákvæði um sérstakan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Miðað er við að niðurstöður liggi fyrir í júní 2019, sem er í samræmi við áætluð verklok samkvæmt Stefnu og aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs 2017 – 2019.

Staða í maí 2018
Áfram hefur verið unnið við greiningar, sjá stöðu í mars sl.

Staða í mars 2018
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið að úttekt og greiningu á umfangi stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki skv. lögum nr. 152/2009. Sú úttekt hefur verið nýtt í ákvörðunartöku ráðherra og við áherslur í fjármálaáætlun. Áfram verður unnið að frekari greiningu og er áformað að nýta hana við endurskoðun á gildandi lögum til undirbúnings á nýrri lagasetningu fyrir árslok 2019.

Staða í nóvember 2017
Í undirbúningi.  


Aðgerð 8

Lagt verður mat á stuðningskerfi atvinnulífs og stofanaumhverfi með það að markmiði að skoða hvernig auka megi árangur og bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins svo hún verði í takt við það sem best þekkist í nágrannalöndunum.

 • Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
 • Áætluð verklok: maí 2019.

Staða í október 2019

Drög að nýsköpunarstefnu voru kynnt ráðherra í lok júní og mynda þau grunninn að nýrri nýsköpunarstefnu sem mun verða kynnt opinberlega í byrjun október.  Markmið stefnunnar er að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.  Í tengslum við stefnumótunarvinnuna fór m.a. fram greining á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfis, með það að markmiði að auka árangur og bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Í stefnunni eru tiltekin 70 áhersluatriði til eflingar nýsköpunar á Íslandi og er þeim skipt í fimm flokka; Hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauð. Af þeim áherslum  verða 10-15 þeirra settar í forgang við nánari útfærslu og gerð aðgerðaáætlana á einstökum sviðum sem kynntar verða á næstu mánuðum.

Staða í júní 2019
Vinna verkefnisstjórnar og stýrihóps um nýsköpunarstefnu er langt komin og gert er ráð fyrir að formaður stýrihóps skili samantekt og tillögum hópsins til ráðherra Ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar í lok júní.

Staða í mars 2019
Verkefni um mótun nýsköpunarstefnu stendur yfir, áætlað er að skila skýrslu í maí. Meðal viðfangsefna stefnunnar er greining á stuðningsumhverfi nýsköpunar og tillögur um hvernig auka megi árangur og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Safnað hefur verið upplýsingum og fundað með fjölda frumkvöðla og fyrirtækja og einnig fulltrúum þeirra sem mynda stuðningskerfi nýsköpunar. Lögð er áhersla á að ná til fulltrúa landsbyggðarinnar.  Stefnumótunarvinnan byggir einnig á samráði við aðra stefnumótunarvinnu sem unnið er að um þessar mundir, svo sem aðgerðaáætlun um loftslagsmál, orkustefnu, hönnunarstefnu, matvælastefnu, menntastefnu, velferðarstefnu og nýsköpun í opinberum rekstri.  Samstarf við Norðurlönd um stuðningskerfi nýsköpunar nýtist sem innlegg í nýsköpunarstefnu sem og skýrslur erlendra aðila um þessi málefni.

Staða í nóvember 2018
Vinna við mótun heilstæðrar nýsköpunarstefnu er hafin. Stýrihópur hefur tekið til starfa sem og verkefnisstjórn. Stefnumótunarvinna er unnin í samvinnu við hagaðila á sviði nýsköpunar og í samvinnu við önnur ráðuneyti, þ.á.m. mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Greining á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfis er hluti af stefnumótunarvinnunni. Skoðað er hvaða þættir stuðningskerfisins virka vel og hverju þarf að breyta til aukinnar skilvirkni, bættrar samkeppnishæfni og betra samfélags. Lögð er áhersla á samstarf við frumkvöðla og fyrirtæki í nýsköpun á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og samtal við þá aðila sem mynda stuðningsumhverfi nýsköpunar hér á landi. Greiningarvinna byggir einnig á gögnum og skýrslum á sviði nýsköpunar, svo sem skoðanakönnun um nýsköpun í opinberri stjórnsýslu „Nýsköpunarvoginni 2018“ og skýrslu norrænu ráherranefndarinnar um vistkerfi nýsköpunar á Norðurlöndum („An integrated and effective Nordic ecosystem for innovation and green growth) sem kom út í nóvember á þessu ári.

Staða í maí 2018
Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er boðuð gerð heildstæðrar nýsköpunarstefnu. Aðgerð 8 hefur verið felld inn í þá vinnu.  Reiknað er með að stýrihópur fyrir gerð nýsköpunarstefnu verði skipaður um miðjan júní og verkefnisstjórn og sérfræðingahópar í framhaldi þess. Stefnan á að vera tilbúin í maí 2019. Breytingar á stuðningskerfi nýsköpunar verða hluti stefnunnar.

Staða í mars 2018
Nýsköpunarstefna sem tilgreind er  í stjórnarsáttmála hefur áhrif á verkefnið. Gert er ráð fyrir að vinna við hana gæti tekið allt að tveimur árum, með góðu samráði við önnur ráðuneyti , Vísinda- og tækniráð og aðila vinnumarkaðarins. Stýrihópur, verkefnisstjórn og sérfræðingahópar. Skipan stofnanakerfisins verður endurskipulögð í framhaldi af því.

Staða í nóvember 2017
Af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis hefur nokkur greiningarvinna átt sér stað. Ekki er búið að skipa verkefnishóp en tillaga Iðnaðar- og viðskiptaráðherra um starfshóp með þátttöku mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis og Vísinda- og tækniráðs verður rædd á næsta fundi tækninefndar.  Tímasetning fyrir þann fund liggur ekki fyrir.  Hópurinn mun sinna eftirfarandi: 

 • Kortlagningu núverandi stöðu, m.a. með viðtölum. 
 • Samanburði við aðgerðir í nágrannalöndum til eflingar vistkerfis nýsköpunar.
 • Viðtöl við hagsmunaaðila um stöðuna og árangursríkar úrbætur.
 • Rökstuddar tillögur.

Aðgerð 9

Unninn verður vegvísir um rannsóknarinnviði og alþjóðleg þátttaka í innviðum efld.

 • Ábyrgð: Mennta - og menningarmálaráðuneyti
 • Áætluð verklok: maí 2019.

Staða í október 2019

Stjórn  Innviðasjóðs var skipuð í október 2019. Mun hún fá í hendur skýrslur um fyrirkomulag vegvísiss og um kortlagningu rannsóknarinnviða og á grundvelli þeirra ljúka vinnu við vegvísi á árinu 2020.

Staða í júní 2019
Lagabreytingar sem fela í sér aðskilnað stjórna Innviðasjóðs og Rannsóknasjóðs voru samþykktar á vorþingi. Svonefnt ERIC frumvarp sem felur í sér þátttöku í alþjóðlegu innviðastarfi var einnig samþykkt á Alþingi í vor. Skýrsla um Rannsóknainnviði verður uppfærð í samræmi við nýsamþykkt lög um ERIC. Unnið er að því að skipa nýja stjórn Innviðasjóðs sem mun auglýsa eftir umsóknum um styrki í sjóðinn  og að ljúka við gerð vegvísis sem verður á fyrri hluta árs 2020.

Staða í mars 2019
Skýrsla um kortlagningu rannsóknarinnviða er tilbúin. Skýrsla um fyrirkomulag vegvísiss er í lokadrögum. Jafnframt eru breytingar á stjórn Innviðasjóðs í  frumvarpi sem hefur verið lagt fram á Alþingi og gert er ráð fyrir að verði að lögum fyrir þinglok.

Staða í nóvember 2018
Skýrsla um niðurstöður kortlagningar  er í lokadrögum. Skýrsla um fyrirkomulag vegvísis er einnig í lokadrögum og starfshópur er að ganga frá tillögum um umsóknarferli í Innviðasjóð.  Frumvarp til laga um breytingar á lögum 3/2003 sem lagt verður fram nú á haustþingi 2018 inniheldur ákvæði um sjálfstæða stjórn yfir Innviðasjóði. Sú ráðstöfun er til að styrkja sjóðinn.

Staða í maí 2018
Kortlagningu og þarfagreiningu á rannsóknarinnviðum er lokið og samantekt í burðarliðnum. Starfshópur er langt kominn með drög að skýrslu með tillögu að ferli vegvísis. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir samstarfshópi um málefni vísinda- og tækniráðs  og á sviðsþingi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands auk þess sem ráðstefna var haldin hérlendis í maí með hagsmunaaðilum um rafræna rannsóknarinnviði   og þátttöku í evrópsku rannsóknarinnviðasamstarfi.

Staða í mars 2018
Unnið er að kortlagningu á stöðu rannsóknarinnviða á Íslandi og þarfagreiningu. Fundað hefur verið með helstu hagsmunaaðilum. Starfshópur um undirbúning vegvísis sem m.a er skipaður hagsmunaaðilum var stofnaður í febrúar, hann fundar 2-3 x í mánuði og vinnur að því að skilgreina formlegan feril vegvísis. Í ár verður úthlutun úr Innviðasjóði skv. eldra fyrirkomulagi en gert er ráð fyrir að á næsta ári verði úthlutað úr sjóðnum á grundvelli niðurstaðna úr aðgerð 1 um samfélagslegar áskoranir.

Staða í nóvember 2017
Ráðinn hefur verið starfsmaður hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti til að vinna að verkefninu fram í miðjan janúar 2018. Starfsmaðurinn undirbýr nú fundi með háskólum og öðrum hagaðilum um verkefnið - m.a. til að kortleggja rannsóknarinnviði og framtíðarþarfir. Skoðað hefur verið hvaða breytingar þarf að gera á lagaramma Innviðasjóðs og hvernig ákvarðanatökuferli skuli líta út. Áætlað er að fyrsti vegvísirinn liggi fyrir við úthlutun úr Innviðasjóði á árinu 2019.


Aðgerð 10

Unnin verður stefna um opinn aðgang að gögnum

 • Ábyrgð: Mennta - og menningarmálaráðuneyti
 • Áætluð verklok: júní 2019.

Staða í október 2019

Tillögur um stefnu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum verða settar í samráð haustið 2019 (ferli hefur seinkað). Unnið er að gerð tillagna um opinn aðgang að rannsóknargögnum sem verða tilbúnar fyrir árslok.

Staða í júní 2019
Verkefninu var skipt í tvennt. Fyrri hluti þess fjallar um opinn aðgang að niðurstöðum rannsókna. Tillögur að stefnu munu verða settar í samráð í sumar og haust 2019 og skilað til ráðherra í kjölfarið. Seinni hluti verkefnisins fjallar um opin rannsóknargögn og verður unnið að honum haustið 2019. Verkefninu lýkur á árinu 2019.

Staða í mars 2019
Starfshópur um opin vísindi með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Landsbókasafns-Háskólabókasafns, Rannís, Háskóla Íslands og Landspítala hefur fundað reglulega frá því í desember. Verkefnaáætlun er í samþykktarferli innan ráðuneytis. Áætlað að tillögum verði skilað til ráðherra í lok árs 2019.

Staða í nóvember 2018
Verkefnið hófst formlega með fundi með fulltrúum ráðuneytis, Landsbókasafns- háskólabókasafns og Rannís 12. nóvember 2018.  Verkefnishópur verður settur á laggirnar og ákveðið var að  heiti verkefnisins yrði Stefna um opin vísindi. Í því felst hvorttveggja opinn aðgangur að gögnum og birtingum.  Drög að verkefnisáætlun verða rædd á næsta fundi  hópsins 17. 12. 2018.

Staða í maí 2018
Sama staða og í mars. Áætlað er að verkefnið hefjist haustið 2018.

Staða í mars 2018
Verkefnið frestast um nokkra mánuði og gert er ráð fyrir því að það hefjist  haustið 2018 í stað júní 2018.

Staða í nóvember 2017
Verkefnið er ekki hafið

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira