Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um aðgerðaáætlun

Loftslagsmálin eru stærsta sameiginlega viðfangsefni mannkyns. Losun gróðurhúsalofttegunda veldur loftslagsbreytingum og afleiðingar þeirra eru meðal annars þær að jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast, með tilheyrandi áhrifum á lífríki og efnahagskerfi heimsins. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu. Ekki er lengur deilt um mikilvægi þess að bregðast við þessari vá og að mikill samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er nauðsynlegur til að afstýra geigvænlegum og óafturkræfum loftslagsbreytingum.

Með Parísarsamningunum árið 2015 mörkuðu 197 ríki heims sér skýra stefnu í þessum efnum – þar á meðal Ísland. Samningurinn skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því að bregðast við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.

Samkvæmt sáttmála ríkisstjórnarinnar eru umhverfi og loftslag ein af sjö megináherslum stjórnarinnar. Í sáttmálanum var kveðið á um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og að hún yrði tímasett og fjármögnuð. Skjalið sem nú er kynnt er umrædd áætlun.

Fyrr á árinu var skipuð verkefnastjórn með fulltrúum sjö ráðherra sem unnið hefur að aðgerðaáætluninni. Í henni áttu sæti fulltrúar forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, ráðherra ferðaþjónustu, iðnaðar og nýsköpunar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og samgönguráðherra, auk fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem veitti hópnum formennsku.

Í áætluninni eru tilgreindar 34 aðgerðir í loftslagsmálum. Sumar þeirra eru þegar komnar af stað, aðrar nánast fullmótaðar, enn aðrar eru tillögur sem þarfnast samráðs við aðila utan stjórnkerfisins og frekari útfærslu. Áætlunin verður því sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar og uppfærð í ljósi ábendinga, auk þess sem boðið verður til samráðs um mótun einstakra aðgerða með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra. Aðgerðaáætlunin sem nú er kynnt er þannig aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, fyrsta útgáfa. Henni er ætlað að verða hornsteinn og leiðarljós um útfærslu á stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Megináherslurnar í aðgerðaáætluninni hverfast annars vegar um orkuskipti þar sem meginmarkmiðið er viðamikil rafvæðing samgangna hér á landi. Hins vegar er um að ræða átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki, auk þess sem markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.

Aðgerðir á þessum sviðum eru taldar hagkvæmar og skila fjölþættum ávinningi. Á hinn bóginn er ljóst að metnaðarfullum markmiðum Parísarsamningsins verður ekki náð nema með aðgerðum og árangri varðandi allar helstu uppsprettur losunar gróðurhúsalofttegunda sem falla undir ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Fjölmargar aðgerðir í áætluninni snúa að þessum þáttum. Sumar aðgerðir í áætluninni snúa til dæmis að sjávarútvegi, aðrar að landbúnaði eða úrgangsmálum, o.s.frv. Enn aðrar felast í nýsköpun, þar sem sérstakur Loftslagssjóður verður meðal annars stofnaður, aðrar til dæmis að útfösun flúorgasa og átaki gegn matarsóun.

Aðgerðirnar eru stjórnvaldsaðgerðir, s.s. reglusetning, hagrænar aðgerðir eða fjármögnuð verkefni eða styrkir af hálfu ríkisvaldsins.

6,8 milljörðum króna verður varið til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hér á landi á næstu fimm árum. Þetta er margföldun miðað við undanfarin ár. Engin önnur ríkisstjórn hefur sett viðlíka fjármuni í loftslagsmál og núverandi stjórn.

Samkvæmt fjármálaáætlun verður um 4 milljörðum varið til kolefnisbindingar á næstu fimm árum, 1,5 milljarði króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi, um 500 milljónum króna til nýsköpunar vegna loftslagsmála í gegnum Loftslagssjóð og um 800 milljónum króna í margvíslegar aðgerðir, svo sem rannsóknir á súrnun sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, bætt kolefnisbókhald, alþjóðlegt starf og fræðslu. Framlögin eru tryggð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023, en verða nánar útfærð í frekari mótun aðgerða.

Samráð við hagsmunaaðila verður haft til hliðsjónar, sem og frekari greining á hagkvæmni mismunandi leiða. Stóra myndin er hins vegar skýr, margföldun á fjárveitingum til loftslagsmála – og ríkur vilji til að takast á við þetta risavaxna og sameiginlega verkefni okkar allra.

Aðgerðirnar eiga að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu, þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040:

  • Samkvæmt Parísarsamningnum þarf sú losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda að minnka um 35-40% miðað við 2005. Aðgerðaáætlunin á að stuðla að þessu. Þetta er til dæmis kallað losun sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands.
  • Markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040 felur í sér að jafnmikið magn koltvísýrings verði bundið með mótvægisaðgerðum og berst út í andrúmsloftið frá tilteknum athöfnum sem verða til þess að koltvísýringur myndast. Kolefnishlutleysi næst því með tvennu móti, annarsvegar með því að draga úr losun eins og hægt er (m.a. frá hvers kyns atvinnustarfsemi, úrgangi, o.s.frv.) og hinsvegar með því að binda þann umfram koltvísýring sem ekki næst að koma í veg fyrir að berist út í andrúmsloftið af mannavöldum. Kolefnishlutleysi hér á landi fæli þannig í sér að jafnmikið magn koltvísýrings yrði bundið með einhverjum hætti og losnar út í andrúmsloftið frá starfsemi Íslendinga. Aðgerðaáætluninni er einnig ætlað að mæta þessu.

Í reglum ESB er losun frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi og úrgangi á beinni ábyrgð ríkja. Losun frá stóriðju og flugi er það hins vegar ekki, heldur innan samevrópsks viðskiptakerfis og á ábyrgð einstakra fyrirtækja. Alþjóðasiglingar og alþjóðaflug eru líka utan við bókhald einstakra ríkja.

Aðgerðaáætlunin á að gera Íslandi kleift að ná tölulegum markmiðum um losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Hún á hins vegar einnig að draga almennt úr losun og efla kolefnisbindingu, óháð því hvernig losun gróðurhúsalofttegunda er bókfærð.

Við blasir alvarlegur hnattrænn vandi ef ekki tekst að draga úr losun nógu mikið og nógu hratt. Íslendingar þurfa að minnka losun frá samgöngum, landbúnaði, fiskveiðum, úrgangi og landnotkun og efla bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Þessi aðgerðaáætlun er hugsuð sem leiðarvísir í þeim efnum. Hún snertir þannig allar helstu uppsprettu losunar gróðurhúsalofttegunda, auk tækifæra til bindingar kolefnis úr andrúmslofti.

Í lok þessa árs munu endanlegar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum liggja fyrir en vitað er núna að draga þarf úr losun í ákveðnum geirum (samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði, úrgangi o.fl.) um 35-40% til ársins 2030. Áætlunin fjallar um alla þessa geira. Hún fjallar hins vegar ekki um alla þætti loftslagsmála sem slíkra, s.s. aðlögun að breytingum, vöktun og rannsóknir á afleiðingum loftslagsbreytinga, losunarbókhald eða loftslagsvæna þróunaraðstoð. Áætlunin er einfaldlega tæki stjórnvalda til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, í því skyni að ná settum markmiðum stjórnvalda og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Minnkun losunar er mikilvægasti þáttur loftslagsmála, þar sem mestu máli skiptir að draga sem mest úr líkum á alvarlegum og óafturkræfum loftslagsbreytingum.

Já! Aðgerðaáætlunin er heildstæð áætlun fyrir aðgerðir sem taka á losun frá öllum geirum samfélagsins. Hún hefur fjármagn og það mun meira en áður hefur þekkst. Með henni er stigið næsta stóra skrefið í að skipta úr orkukerfi sem drifið er áfram af innfluttu jarðefnaeldsneyti (olíu) yfir í orkukerfi sem nær eingöngu er drifið áfram af innlendum, endurnýjanlegum orkugjöfum. Síðasta skref var raf- og hitaveituvæðingin.

Aðgerðaáætlunin gerir enn fremur ráð fyrir stórsókn hvað varðar endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt; sem miðar ekki síst að því að ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2040. Að auki verður mikilvægu fjármagni sem dæmi veitt til nýsköpunar.

Tímabært er að leggja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fram þar sem megináherslur stjórnvalda liggja fyrir, fjármagn til aðgerða hefur verið tryggt og margar aðgerðir eru tilbúnar til framkvæmdar. Málefnið er brýnt og ekkert því til fyrirstöðu að hefja vegferðina: Stórsókn í loftslagsmálum.

Aðgerðaáætlunin verður núna sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar. Eftir það og eftir samráð um mótun einstakra aðgerða með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra verður hún uppfærð. Það sem nú er kynnt er þannig aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum, fyrsta útgáfa. Önnur útgáfa hennar mun líta dagsins ljós strax á næsta ári.

Með því að skipta áætluninni upp með þessum hætti vinnst tvennt. Annars vegar gefst tími til umræðu í samfélaginu og samráðs við aðila utan stjórnkerfisins um útfærslu á einstökum aðgerðum og endurmat á áætluninni. Hins vegar er ljóst að regluverk í kringum skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu ætti að skýrast á næstu mánuðum og þá er betur hægt að meta hvernig áætlunin getur hjálpað stjórnvöldum að mæta tölulegum skuldbindingum.

Margar aðgerðanna eru þess eðlis að árangur ætti frekar að nást ef hægt er að móta þær í samvinnu margra. Ríkisvaldið gegnir lykilhlutverki varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, en erfitt er að ná góðum árangri án þátttöku atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og almennings. Ljóst er að mikil þörf er á frekara samráði og því spennandi vegferð framundan.

Annars vegar þurfum við að hugsa um að draga úr losun en hins vegar að hugsa um að binda það kolefni sem þegar hefur safnast upp í andrúmsloftinu vegna athafna okkar mannanna. Þetta kallast kolefnisbinding og felst í því að draga lofttegundir úr andrúmsloftinu sem valda loftslagsbreytingum.

Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Landið hefur misst gífurlegan kolefnisforða í jarðvegi og gróðri með aldalangri gróðurhnignun og jarðvegseyðingu. Mikilvægt er að stöðva jarðvegseyðingu hérlendis. Mikil framræsla votlendis á 20. öld veldur því að veruleg losun koldíoxíðs er úr þurrkuðum mómýrum. Hægt er að draga úr þeirri losun með endurheimt votlendis og hægt er að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt.

Það að stöðva landeyðingu, efla skóga og annan gróður fellur ekki einungis vel saman við markmið í loftslagsmálum heldur getur einnig eflt líffræðilega fjölbreytni, atvinnu og byggð ef vel er á málum haldið. Í aðgerðaáætluninni er lögð áhersla á að fela félagasamtökum hlutverk við kolefnisbindingu, bændum og öðrum vörslumönnum lands. Þetta er því aðgerð sem skilar fjölþættum ávinningi.

Í sáttmála ríkisstjórnar Íslands sagði meðal annars:

Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum (…) Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verði náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum.

Mikilvægt er að ráðast strax í umfangsmikla bindingu kolefnis til að stuðla að kolefnishlutleysi Íslands eins og hér er gert.

Ísland þarf að ná að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Olíunotkun er stærsti hluti þeirrar losunar sem er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda og um 60% af olíunotkuninni hér á landi kemur frá vegasamgöngum.

Okkar helsta tækifæri til að ná þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með Parísarsáttmálanum er þannig að skipta olíu út fyrir umhverfisvæna orkugjafa.

Orkuskipti í samgöngum eru sambærileg orkuskiptunum sem urðu með innleiðingu hitaveitunnar á sínum tíma. Við hættum að brenna mengandi og innfluttum orkugjöfum og förum í staðinn að nota innlenda, endurnýjanlega orku. Verkefnið nú er það sama. Markmiðið er að vera meðal fyrstu ríkja heims til að ná fram fullum orkuskiptum – ekki bara í húshitun heldur einnig í vegasamgöngum.

Samhliða framlagi okkar til loftslagsmála felst í áætluninni tækifæri til að styrkja efnahagslegt sjálfstæði Íslands með því að við nýtum í stórauknum mæli okkar eigin endurnýjanlegu orkuauðlindir til að standa undir orkuþörf okkar í stað innflutts eldsneytis.

Þótt ekki væri horft til loftslagsávinningsins myndi rafvæðing bílaflotans samt sem áður borga sig. Samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands borgar hún sig til lengri tíma út frá hreinum fjárhagssjónarmiðum.

Afar brýnt er að styrkja almenningssamgöngur, styðja við hjólreiðafólk og auðvelda fólki að lifa bíllausum lífsstíl.

Í aðgerðaáætluninni kemur meðal annars fram að stuðlað verði að styrkingu almenningssamgangna með heildstæðum hætti, í samræmi við samgönguáætlun. Markmiðið er að farþegum í almenningsvögnum fjölgi, að farartæki séu sniðin að þörf og að stutt verði við orkuskipti þeirra í vistvænni kosti.

Lög og reglugerðir verða enn fremur endurskoðuð til að styðja við nýjar lausnir í samgöngu- og deiliþjónustu, sem getur auðveldað þeim sem vilja að lifa bíllausum lífstíl.

Enn fremur verður til dæmis gerð áætlun um lagningu hjólastíga milli helstu þéttbýliskjarna innan vinnusóknasvæða, í samræmi við samgönguáætlun, og möguleikar greindir á uppsetningu tengla fyrir rafhjól í þéttbýli.

Fylgt verður fordæmi nágrannaríkja líkt og Noregs, Frakklands og Bretlands og mörkuð sú stefna að nýskráning bíla sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ólögmæt. Miðað er við árið 2030. Gætt verður sérstaklega að hugsanlegum undanþágum, t.d. á stöðum þar sem erfitt kann að vera að nota aðra bíla en þá sem ganga fyrir bensíni og dísel.

Eftir sem áður verður að sjálfsögðu í lagi að keyra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Áfram verður hægt að kaupa þá notaða og selja þá notaða – það eina sem ekki verður hægt að gera er að kaupa þá nýja.

Þegar er búið setja í gang vinnu við loftslagsstefna fyrir Stjórnarráðið þar sem sett er fram sýn ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í eigin ranni. Meðal annars er þar verið að líta til losunar vegna bifreiða, annarra ferða, orkunotkunar og úrgangs. Sett verða fram markmið um markvissan samdrátt í losun frá starfsemi Stjórnarráðsins og um kolefnishlutleysi. Stjórnarráðið mun á næstunni innleiða Græn skref í ríkisrekstri auk annarra aðgerða sem draga úr loftslagsáhrifum.

Ein af aðgerðunum í aðgerðaáætluninni er síðan að innleiða vistvæna bíla á vegum ríkisins. Þeim verði fjölgað eins hratt og mögulegt er, m.a. með kröfum um að ætíð skuli kaupa rafbíl eða visthæft ökutæki við endurnýjun. Einnig verði ríkisaðilar leiðandi vinnustaðir varðandi hleðslumöguleika fyrir rafbíla. Unnið verður heildstætt yfirlit yfir bíla í eign ríkisaðila og greint þar á milli vistvænna bíla og annara. Í kjölfarið verði gerð áætlun um að fjölga vistvænum bílum eins hratt og mögulegt er.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira