Hoppa yfir valmynd

Hafréttarmál

Hafréttarmál skipa ávallt mikilvægan sess í utanríkisstefnu Íslands, enda kalla hagsmunir Íslands á öflugt fyrirsvar og hagsmunagæslu á því sviði. Sameinuðu þjóðirnar eru sérstaklega mikilvægur vettvangur fyrir umræður um málefni hafsins og þróun reglna hafréttarins, ekki síst árlegar samningaviðræður um hafréttar og fiskveiðiályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar ákvörðunar allsherjarþingsins hófust alþjóðlegar samningaviðræður haustið 2018 um nýjan framkvæmdasamning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (e. Biodiversity Beyond National Jurisdiction, BBNJ). Viðræðurnar varða því hafrétt, allar gerðir hafrannsókna, umhverfismál, líffræðilega fjölbreytni, líftækni og erfðaefni í lífrænum auðlindum, fiskveiðar, einkaleyfarétt og margt fleira. Utanríkisráðuneytið leiðir þessar viðræður af Íslands hálfu en samninganefnd Íslands er einnig skipuð fulltrúum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Áherslur Íslands á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna

Allsherjarþingið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á umfjöllun um málefni hafsins og hafréttarmál. Helgast það meðal annars af aukinni umhverfisvitund og vaxandi skilningi á margþættu mikilvægi hafsins. Til marks um þessa áherslu var stofnun óformlegs samráðsvettvangs SÞ um málefni hafsins og hafréttarmál (UNICPOLOS) árið 1999 en árlegum fundum vettvangsins er ætlað að undirbúa umfjöllun allsherjarþingsins sjálfs um þessi mál. Ísland hefur tekið virkan þátt í störfum UNICPOLOS svo og í árlegum samningaviðræðum um almenna hafréttarályktun og fiskveiðiályktun allsherjarþingsins á haustin.

Meðal helstu áherslumála Íslands á vettvangi allsherjarþingsins eru réttur strandríkja til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins, áhersla á að fiskveiðistjórnun sé ýmist staðbundin eða svæðisbundin en ekki hnattræn, og að ríkjum beri að hrinda ákvæðum fyrirliggjandi alþjóðasamninga á þessu sviði í framkvæmd áður en þau beita sér fyrir gerð nýrra samninga.

Hafréttarmál á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Í kjölfar áskorunar allsherjarþings SÞ voru á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, haustið 2008 samþykktar alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um djúpsjávarveiðar og verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins. Reglunum er ætlað að auðvelda ríkjum og svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum að skilgreina og auðkenna viðkvæm vistkerfi, meta hugsanleg skaðleg áhrif fiskveiða á þau og grípa til viðeigandi aðgerða. Ísland hefur tekið virkan þátt í framkvæmd þeirra, meðal annars á vettvangi svæðastofnananna NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission) og NAFO (Northwest Atlantic Fisheries Organisation).

Ísland hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum og tóku íslensk stjórnvöld virkan þátt í samningaviðræðum á vettvangi FAO um gerð nýs alþjóðasamnings um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum (Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illigal, Unreported and Unregulated Fishing). Samningurinn var samþykktur 2009 og fullgiltur af Íslands hálfu 2015. Um er að ræða fyrsta alþjóðasamning sem gerður er gagngert til að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum og er hann afar mikilvægur þáttur í því. Samningurinn skuldbindur aðildarríki hans til að loka höfnum sínum fyrir skipum sem gerst hafa uppvís að ólöglegum fiskveiðum og synja þeim um löndun, umskipun og hvers konar þjónustu.

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Convention on the Law of the Sea – UNCLOS) frá árinu 1982 er fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar og voru með honum ýmist staðfestar gildandi venjureglur eða settar nýjar reglur um öll not hafsins. Samningurinn tekur til allra hafsvæða auk loftrýmisins yfir þeim, hafsbotnsins og botnlaganna undir þeim. Hann hefur meðal annars að geyma ákvæði um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið, alþjóðlega hafsbotnssvæðið, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála. Samningurinn tók gildi 16. nóvember 1994 og í ársbyrjun 2016 voru aðildarríki hans orðin 167, en Ísland varð árið 1985 fyrsta vestræna ríkið til þess að fullgilda hann. Aðildarríkjafundur hafréttarsamningsins er haldinn á hverju ári. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að í málefnum hafsins beri að vinna á grundvelli hafréttarsamningsins og samninga tengdum honum. Mikilvægt sé að þeir séu fullgiltir og ákvæðum þeirra framfylgt af ríkjum heims.

Gögn

Framkvæmd Jan Mayen-samningsins og olíuleit á Drekasvæðinu

Með samkomulagi milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál frá 28. maí 1980 var 200 sjómílna efnahagslögsaga Íslands viðurkennd, en fjarlægðin milli Íslands og Jan Mayen er 292 sjómílur. Með samkomulagi landanna um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen frá 22. október 1981 var kveðið á um að mörk landgrunnsins á svæðinu skyldu vera hin sömu og mörk efnahagslögsögu þeirra. Jafnframt var afmarkað eins konar sameiginlegt nýtingarsvæði og á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins og Noregur rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á íslenska hluta svæðisins.

Vegna fyrirhugaðs útboðs sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg innan íslensku lögsögunnar, sem skarast við sameiginlega nýtingarsvæðið, fóru fram viðræður við norsk stjórnvöld um túlkun og útfærslu Jan Mayen-samningsins frá 1981. Í nóvember 2008 var gerður samningur milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur og var hann staðfestur af Íslands hálfu 2011. Um er að ræða rammasamning um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda sem er að finna beggja vegna markalína landgrunns Íslands og Noregs. Þar er að finna meginreglur um einingarnýtingu en með því hugtaki er átt við að viðkomandi auðlind er nýtt sem ein eining samkvæmt samkomulagi aðila. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar olíu- eða gasauðlind nær yfir á landgrunn beggja landanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli landanna og um nýtingu hennar sem einingar.

Meginreglurnar um einingarnýtingu eru almennt sambærilegar ákvæðum annarra milliríkjasamninga á þessu sviði en taka sérstakt tillit til hins sameiginlega nýtingarsvæðis, þar á meðal réttinda sem Ísland nýtur þar umfram Noreg samkvæmt Jan Mayen-samningnum. Reglurnar gilda ekki aðeins um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Jan Mayen, heldur um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Noregs í heild.

Samhliða undirritun samningsins var undirrituð samþykkt fundargerð (e. Agreed Minutes) þar sem nánar er kveðið á um 25% þátttökurétt Íslands og Noregs í olíustarfsemi á hluta hvors annars af landgrunninu á hinu sameiginlega nýtingarsvæði milli Íslands og Jan Mayen samkvæmt Jan Mayen-samningnum frá 1981.

Hvort tveggja samningurinn og sameiginlega fundargerðin eru forsenda þess að unnt sé að veita leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á kolvetnisauðlindum á Drekasvæðinu, en það svæði nær meðal annars til íslenska hluta hins sameiginlega nýtingarsvæðis milli Íslands og Jan Mayen.

Tenglar

Landgrunnsmál

Samkvæmt 76. gr. hafréttarsamningsins eiga strandríki landgrunn allt að 200 sjómílum frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar er mæld frá. Þessu til viðbótar kunna strandríki að geta gert kröfu til landgrunns utan 200 sjómílna frá grunnlínunum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, eiga sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Viðkomandi ríki skulu senda sérstakri landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Limits of the Continental Shelf) ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið síðan ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Mikilvægt er að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda má gera ráð fyrir að réttindi yfir landgrunninu muni fá aukna þýðingu í framtíðinni. Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, það er Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, til dæmis jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.

Í mars 2016 afgreiddi landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna tillögur sínar vegna hluta­greinargerðar íslenskra stjórnvalda um ytri mörk íslenska landgrunnsins utan 200 sjómílna sem skilað var til nefndarinnar í apríl 2009. Náði greinargerðin annars vegar til Ægisdjúps í suðurhluta Síldarsmugunnar og hins vegar til vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar. Greinargerðin tók hvorki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis, sem er hluti af íslenska landgrunninu, og Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði. Greinargerðum um þessi svæði verður skilað síðar.

Í tillögu landgrunnsnefndarinnar varðandi Ægisdjúp var fallist á kröfur Íslands í samræmi við upprunalega greinargerð þar um. Hvað Reykjaneshrygg varðar féllst landgrunns­nefndin á þá punkta sem marka hinn svokallaða hlíðarfót sem grundvallar ytri mörk landgrunns­ins, innan 350 sjómílna frá grunnlínum, en ekki þá punkta sem liggja þar fyrir utan. Taldi nefndin að fyrirliggjandi gögn væru ekki nægilega afgerandi (e. inconclusive) fyrir svæðið utan 350 sjómílna til stuðnings kröfum Íslands um að Reykjanes­hryggurinn teljist náttúrulegur hluti landgrunnsins.

Niðurstaða landgrunnsnefndarinnar er sett fram í formi tillögu til stjórnvalda. Fallist stjórnvöld á tillögu nefndarinnar telst ákvörðun um ytri mörk á þeim grunni bindandi samkvæmt hafréttarsamningnum. Fallist stjórnvöld ekki á tillögu nefndarinnar gerir samningur­inn hins vegar ráð fyrir að stjórnvöld geti skilað endurskoðaðri greinargerð til nefndarinnar innan hæfilegs tíma.

Hvað Reykjaneshrygg varðar er nú unnið að framhaldi málsins fyrir suður- og vesturhluta hryggjarins á grundvelli hinnar vönduðu niðurstöðu undirnefndarinnar með það fyrir augum að styrkja röksemdir Íslands. Þá hefur um nokkurt skeið verið unnið að afmörkun landgrunns austurhluta Reykjaneshryggjar á grundvelli hins sameiginlega skilnings sem skapaðist með undirnefnd landgrunnsnefndarinnar með það að markmiði að gefa heildstæða mynd af öllu svæðinu.

Tillaga landgrunnsnefndarinnar um Ægisdjúp gerir íslenskum stjórnvöldum kleift, á grundvelli 76. gr. hafréttarsamningsins, að ákveða ytri mörk landgrunns­ins á því svæði á endanlegan og bindandi hátt í samræmi við tillögur nefndarinnar. Samhliða undirbúningi þess stendur yfir vinna við formlegan frágang samnings við Noreg og Danmörk/Færeyjar, sem hafa einnig tilkall til landgrunns á þessu svæði, um innbyrðis skiptingu þeirra réttinda. Unnið er að framhaldi málsins fyrir suður- og vesturhluta Reykjaneshryggjar með það fyrir augum að styrkja röksemdir Íslands. Þá er jafnframt unnið að afmörkun landgrunns austurhluta Reykjaneshryggjar.

Viðræður ríkjanna fjögurra um Hatton Rockall-svæðið fara fram með reglubundnum hætti en síðast áttu þær sér stað í Reykjavík í maí 2011. Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að ríkin leggi sig fram við að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins á milli þeirra og að þau skili í framhaldi af því sameiginlegri greinargerð til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk svæðisins.

Gögn

Fyrirhugaður alþjóðasamningur um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika utan lögsögu ríkja (BBNJ)

Eitt stærsta viðfangsefnið á sviði málefna hafsins hjá Sameinuðu þjóðunum er verndun og nýting líffræðilegs fjölbreytileika í hafinu utan lögsögu ríkja. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna setti árið 2005 á fót vinnuhóp um þetta efni, sem í janúar 2015 samþykkti tillögur til allsherjarþingsins um að gerður verði nýr lagalega bindandi samningur undir hafréttarsamningnum um þetta efni. Allsherjarþingið samþykkti í júní 2015 ályktun nr. 69/292 um þetta, þar sem undirbúningsnefnd aðilarríkja Sameinuðu þjóðanna var falið að funda á árunum 2016-2017 um gildissvið og meginþætti hins fyrirhugaða samnings. Að því loknu samþykkti allsherjarþingið í desember 2017 ályktun nr. 72/249 þar sem fram kom að boða ætti til milliríkjaráðstefnu þar sem eiginlegar samningaviðræður færu fram og endanlegur texti mótaður. Ákveðið var að ráðstefna um nýjan framkvæmdasamning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (e. Biodiversity Beyond National Jurisdiction, BBNJ) fari fram á fjórum fundum. Þremur er lokið, en þeir fóru fram í september 2018, mars-apríl 2019 og ágúst 2019. Fjórði fundurinn, sem fara átti fram vorið 2020 frestaðist vegna Covid-19 og verður haldinn í ágúst 2021. Ekki er útilokað að ákveðið verði að halda fleiri fundarlotur enda eru mörg álitaefni enn óleyst.

Eins og titill hins nýja samnings gefur til kynna mun hann fjalla bæði um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Ísland hefur síðustu áratugina verið fylgjandi aukinni samþættingu auðlindanýtingar og umhverfisverndar og lagt áherslu á vistkerfisnálgun á þessum sviðum, sbr. t.d. yfirlýsingu Reykjavíkurráðstefnu FAO 2001 um vistfræðilega nálgun við fiskveiðistjórnun, sem og ákvörðun aðildarríkja samningsins um líffræðilega fjölbreytni frá apríl 2004 og meðfylgjandi leiðbeiningarreglur. Þá hefur Ísland einnig undirstrikað mikilvægi vísindalegra rannsókna og þekkingar sem grundvöll ábyrgrar stjórnunar og ákvarðana á sviði málefna hafsins. 

Viðfangsefni viðræðna um BBNJ eru hafréttur, ýmsar gerðir hafrannsókna, umhverfismál, líffræðileg fjölbreytni, líftækni og erfðaefni í lífrænum auðlindum, einkaleyfaréttur og margt fleira.

Ísland byggir afstöðu sína í viðræðunum á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og stendur vörð um gildi hans og framkvæmdasamninga undir honum. Mikilvægt er að ekki sé grafið undan núverandi kerfi stjórnunar á sviði málefna hafsins. Megináhersla Íslands í samningaviðræðunum er að samningurinn bæti árangur á því sviðum sem hann fjallar um, en styðji einnig við og viðhaldi þeim árangri sem náðst hefur hingað til.

Ísland hefur í samningaferlinu lagt áherslu á að BBNJ samningurinn verði vandað skjal sem hugi að verndun og sjálfbærri nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni i hafinu til jafns. Þá er mikilvægt að fyrirkomulag samkvæmt nýjum samningi virði réttindi strandríkja yfir landgrunni sínu, innan og utan 200 mílna, skv. hafréttarsamningi SÞ. Fyrirkomulagð virði með sama hætti réttindi og lögsögu standríkja yfir efnahagslögsögu sinni. Skýrt verði að gildissvið samningsins nái hvorki yfir efnhagslögsögu né landgrunn strandríkja. Ísland hefur stutt að samningurinn viðhaldi svæðisbundnu fyrirkomulagi þar sem það er fyrir hendi varðandi verndun og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og að samningurinn stuðli að uppbyggingu og styrkingu slíks fyrirkomulags á öllum svæðum úthafsins. Ísland hefur einnig beitt sér gegn því að samningurinn nái til fiskveiðistjórnunar, því hafréttarsamningurinn og úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna mynda fullnægjandi lagaramma fyrir veiðar á úthafinu. Loks hefur Ísland undirstrikað mikilvægi þess að víðtæk sátt náist um niðurstöður viðræðnanna til þess að sem flest ríki verði aðilar að samningum í framtíðinni.

Tenglar

Svalbarðamálið

Með samningnum um Svalbarða árið 1920 voru Noregi falin fullveldisréttindi yfir Svalbarða. Aðildarríki samningsins eru 40 talsins og er Ísland þar á meðal.

Ágreiningur hefur ríkt milli Noregs annars vegar og Íslands og fjölda annarra aðildarríkja samningsins hins vegar um gildissvið Svalbarðasamningsins. Íslensk stjórnvöld líta svo á að samningurinn sé eini hugsanlegi grundvöllur fullveldisréttinda Noregs á hafsvæðunum í kringum Svalbarða, þar með talið efnahagslögsaga og landgrunn. Fullveldisréttindi Noregs eru háð mikilvægum takmörkunum sem kveðið er á um í samningnum og skiptir þar mestu máli jafnræðisregla hans. Takmarkanir þessar gilda jafnt á Svalbarða sjálfum, innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða. Augljóst er að réttindi Noregs í lögsögunni og á landgrunninu umhverfis Svalbarða geta ekki verið umfangsmeiri en réttindi Noregs á Svalbarða sjálfum sem fyrrnefndu réttindin eru leidd af.

Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum árið 1994 og hefur samkvæmt framangreindu jafnan rétt á við önnur aðildarríki samningsins til fiskveiða í lögsögu Svalbarða og nýtingar hugsanlegra auðlinda á landgrunni hans. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að standa vörð um þessi réttindi og munu áfram gæta hagsmuna Íslands sem aðildarríkis Svalbarðasamningsins.

Úthafsveiðisamningurinn

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna (The United Nations Agreement for the Implementation of the Provisions of the United Nations Convention on the Law of the Sea of 10 December 1982 relating to the Conservation and Management of Straddling Fish Stocks and Highly Migratory Fish Stocks frá árinu 1995) kveður á um framkvæmd og útfærslu ákvæða hafréttarsamningsins um fiskistofna sem finnast bæði innan efnahagslögsögu strandríkja og á úthafinu. Samningurinn styrkir verulega ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana. Hann tók gildi 11. desember 2001 og var fullgiltur af Íslands hálfu 1997. Reglulega eru haldnir fundir endurskoðunarráðstefnu samningsins til að fara yfir framkvæmd hans af hálfu ríkja og svæðisstofnana og var síðasti slíkur fundur haldinn í maí 2016. 

Gögn

Síðast uppfært: 25.7.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum