Vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn

Hér að neðan má finna upplýsingar um vegabréfsáritanir fyrir íslenska ferðamenn. Á síðu hvers ríkis er að finna hvort samningur sé í gildi á milli þess og Íslands um niðurfellingu áritunarskildu. Í þeim tilvikum þar sem ekki er í gildi gagnkvæmur samningur á milli landanna, þurfa ferðamenn að hafa samband við sendiráð þess ríkis gagnvart Íslandi eða afla upplýsinga á vef þess, til að kanna með hvort það þurfi að sækja um áritun fyrir fram og þá með hvaða hætti skuli sótt um. 

Algengt er að ferðamenn þurfi aðsenda vegabréf sín til viðkomandi sendiráðs, ásamt umsókn, passamynd og greiðslu, því er mikilvægt að ganga frá umsókn um áritun tímanlega. Í sumum tilvikum er hægt að fá áritun á flugvelli við komu. Athugið að kröfur um fylgigögn geta verið mismunandi á milli ríkja.

Varðandi áritun vegna millilendinga, þá er mismunandi eftir ríkjum hvort krafist er flugvallaráritunar (e. transit visa) fyrirfram. Nánari upplýsingar veitir sendiráð viðkomandi ríkis.

Mikilvæg athugasemd til ferðamanna varðandi gildistíma vegabréfa

Undanfarin misseri hefur það margítrekað komið fyrir að Íslendingar á leið til útlanda hafa orðið fyrir því að þeir lenda í vandræðum vegna gildistíma vegabréfa, er synjað um landgöngu eða synjað um að fara um borð í flugvélar, ef vegabréf þeirra gilda ekki að minnsta kosti 6 mánuðum lengur en áætluð dvöl í viðkomandi ríki. 

Utanríkisráðuneytið hvetur alla þá sem eru á leið til ríkja utan EES-svæðisins að huga að því að fá nýtt vegabréf, ef minna en sex mánuðir eru eftir af gildistíma gamla vegabréfsins þar sem búast má við að ríki geri kröfu um og setji sem skilyrði fyrir landgöngu að vegabréf gildi a.m.k. 6 mánuði fram yfir áætlaðan dvalartíma í viðkomandi ríki.

Athygli er vakin á því að þegar svo á við að ekki er gagnkvæmur samningur um niðurfellingu áritunarskyldu á milli Íslands og viðkomandi ríkis geta breytingar orðið án þess að íslenskum stjórnvöldum sé tilkynnt um slíkar einhliða breytingar. Notendur þessa vefs eru því vinsamlegast beðnir um að láta vita með tölvupósti á [email protected] ef þeir verða varir við að upplýsingar hafi breyst án þess að þær hafi skilað sér inn á síðuna.

Nánari upplýsingar um vegabréf, umsóknir, endurnýjun og framlengingu má finna á vegabref.is hjá Þjóðskrá sem fer með útgáfu vegabréfa.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn