Hoppa yfir valmynd

Öflugra Norðurskautsráð

Ísland kappkostar að vera öflugur málsvari norðurslóða og leggur sitt að mörkum í störfum Norðurskautsráðsins. Náið samráð aðildarríkjanna og fulltrúa frumbyggja er forsenda þess að vel takist til í starfi ráðsins.

Mikilvægt er að hagnýta þekkingu og reynslu frumbyggja og annarra íbúa í norðri og tryggja að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra við stefnumótun og ákvarðanatöku.

Virk þátttaka áheyrnaraðila í ýmsum verkefnum Norðurskautsráðsins sýnir glöggt fram á mikilvægi þeirra. Mörg helstu viðfangsefni ráðsins hafa víðtæka skírskotun í alþjóðlegu samhengi og snerta hagsmuni ríkja í fjarlægum heimshlutum. Ísland mun leitast við að styrkja enn frekar hið öfluga samstarf Norðurskautsríkjanna og áheyrnaraðila.

Ísland leggur einnig áherslu á að efla tengslin milli Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða á grundvelli nýrrar samstarfsyfirlýsingar. Efnahagsráðið er skipað fulltrúum atvinnulífsins og skiptast aðildarríkin á að gegna formennsku með sama hætti og í Norðurskautsráðinu. Í tilefni þess að fimm ár voru liðin frá stofnun Efnahagsráðsins haustið 2019 var efnt til sameiginlegs fundar ráðanna í Reykjavík.

Utanríkisráðuneytið  á í góðu samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og byggir það samstarf á samningi sem ætlað er að auka markvisst upplýsingagjöf til almennings um málefni norðurslóða. Einnig er unnið náið með Háskólanum á Akureyri, Norðurslóðaneti Íslands, Rannís og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Utanríkisráðuneytið tekur alla jafna virkan þátt í Hringborði norðurslóða auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa átt fulltrúa á ráðstefnum Arctic Circle Forum. Utanríkisráðuneytið nýtur einnig góðs af gjöfulu samstarfi við erlendar háskóla- og vísindastofnanir. Í formennskutíð Íslands átti utanríkisráðuneytið í góðu samstarfi við The Arctic Initiative við Harvard Kennedy-háskólann í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þá hefur samstarf á sviði norðurslóðafræða milli Noregs og Íslands staðið frá 2011 og felur í sér styrki til norðurslóðarannsókna auk svokallaðrar Nansen gestaprófessorsstöðu við Háskólann á Akureyri. Þá er í gildi samningur á milli utanríkisráðuneytisins og Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi sem felur í komu bandarískra fræðimanna hingað til lands til kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða

Hafís

Síðast uppfært: 5.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum